Ávarp Bankastjóra


Tvennt má segja að hafi staðið hafi upp úr á þessu viðburðaríka ári. Annars vegar vel heppnað útboð á þriðjungshlut ríkisins í bankanum og skráning hans í kauphöll Nasdaq Iceland. Hins vegar áframhaldandi ráðstafanir bankans vegna heimsfaraldurs COVID-19 og útsjónarsemi starfsfólks bankans í þjónustu við viðskiptavini undir síbreytilegum og krefjandi aðstæðum. Við nutum þess sannarlega að hafa um árabil lagt áherslu á að byggja upp vel fjármagnaða, arðsama og stafræna bankastarfsemi.

Það var mikill heiður fólginn í því að hringja inn viðskipti þegar hlutabréf bankans voru tekin til viðskipta síðla í júní, að viðstöddu starfsfólki bankans. Skráning bréfanna kom í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs, stærsta frumútboðs hlutabréfa sem fram hefur farið á Íslandi sem og stærsta frumútboðs á evrópskum banka frá árinu 2018. Íslenska ríkið seldi um þriðjungshlut sinn í bankanum og eru hluthafar bankans nú um 16 þúsund. Skráning Íslandsbanka markaði upphaf á nýjum veruleika fyrir bankann sem sneri aftur að hluta til í einkaeigu og eru viðskipti með hlutabréf hans síðan til marks um tiltrú fjárfesta.  Voru hlutafjárútboð og skráning bankans á markað valin viðskipti ársins á verðlaunahátíð Innherja, viðskiptamiðils Vísis, sem fram fór um miðjan desember.

Varanlegar og góðar breytingar

Það er ekki hjá því komist að fjalla um áhrif heimsfaraldursins þegar horft er yfir árið 2021. Líkt og önnur hagkerfi heimsins höfum við orðið fyrir skakkaföllum vegna heimsfaraldursins en hér á landi njótum við þó þess að hafa búið við sterka stöðu við upphaf hans, sem mun koma til með að reynast okkur dýrmætt. Það er vert að hafa í huga að heimsfaraldurinn hefur ekki tekið frá okkur þær auðlindir og þá þekkingu sem íslenskt atvinnulíf býr yfir. Við það bætist nú mikilvæg reynsla sem mun einnig nýtast okkur til framtíðar.

Þær áherslubreytingar sem Íslandsbanki greip til í þjónustu bankans við upphaf heimsfaraldursins snemma á árinu 2020 nýttust til að bæta þjónustuna enn frekar á liðnu ári. Með síbreytilegum reglum um fjölda viðskiptavina í útibúum og öðrum sóttvarnaraðgerðum þurftum við að grípa til ýmissa ráðstafana, svo sem að flýta fyrir aukinni stafrænni þjónustu bankans, nýjum lausnum í appi Íslandsbanka og aukinni fjarþjónustu.

Sumar breytinganna eru komnar til að vera og undir lok ársins tilkynntum við breyttan afgreiðslutíma útibúa bankans á nýju ári sem felur í sér styttri opnunartíma. Með breytingunum mun starfsfólki útibúa gefast aukið svigrúm fyrir skjóta afgreiðslu erinda að morgni til. Umfangsmikil þróun rafrænna þjónustulausna á undanförnum misserum samhliða mikilli fækkun heimsókna í útibú hefur orðið til þess að sífellt fleiri kjósa að sinna sínum helstu daglegu bankaviðskiptum í appi eða í netbanka. Þá höfum við, við góðar undirtektir lagt áherslu á þjónustu við eldri borgara og aðra þá sem ekki geta nýtt sér stafræna þjónustu bankans. Þjónusta er og verður okkar hjartans mál og við munum halda áfram að bæta hana enn frekar á öllum sviðum.

Undir lok síðasta árs var opnað fyrir fyrirtæki í appi Íslandsbanka. Miðað við móttökur var það kærkomin viðbót við aðrar dreifileiðir og í lok árs 2021 höfðu 95% fyrirtækjanotenda tileinkað sér notkun appsins. Þá jókst notkun á spjallmenninu Fróða, sem er fyrsta spjallmenni sinnar tegundar hér á landi, umtalsvert á árinu. Afgreiðir Fróði nú rúmlega helming allra fyrirspurna á hvaða tíma sólahringsins sem er. Allt eru þetta lausnir sem munu bæta þjónustu bankans til framtíðar til hagsmuna fyrir viðskiptavini.

Lokið var við innleiðingu á nýju grunnlánakerfi í árslok 2021. Það markar þau tímamót að Íslandsbanki hefur nú lokið uppfærslu á öllum grunninnviðum bankans. Það mun efla starfsemi okkar og býður upp á fjölbreyttari möguleika en áður til að tengja bæði viðskiptavini og samstarfsaðila við nýja tækni og auka vöruúrval bankans.

Mikilvægur stuðningur við fyrirtæki

Ný útlán gengu vel á árinu og jukust útlán til viðskiptavina um 7,9%. Við upphaf heimsfaraldursins veittum við nokkur hundruð stuðnings- og viðbótarstuðningslán með ríkisábyrgð og unnið var að frystingum með fyrirtækjum og einstaklingum eins og þörf var á. Áfram var unnið með viðskiptavinum sem höfðu orðið fyrir áhrifum heimsfaraldursins á liðnu ári að því ná sem hagkvæmastri fjármagnsskipan þeirra. Var það meðal annars gert með brúarfjármögnun sem síðan var endurfjármögnuð með skuldabréfaútgáfu.

Á árinu mátti vel merkja þrótt lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Innlán þeirra hafa vaxið umfram hefðbundin ár og má sjá innlánasöfnun í öllum atvinnugeirum. Velta hefur aukist í lánabókinni, ekki síst vegna góðrar fjárhagsstöðu íslenskra fyrirtækja svo sem í verslun og þjónustu og í byggingariðnaði. Þá verðum við einnig vör við bjartsýni meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru óðum að vinna sig út úr áhrifum heimsfaraldursins. Má sem dæmi nefna að aðeins 0,4% af kröfuvirði slíkra fyrirtækja er enn með lán í frystingu vegna heimsfaraldursins.

Íslandsbanki er leiðandi í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki, með um 37% markaðshlutdeild og hefur aldrei mælst hærri í könnun Gallup um aðalviðskiptabanka. Einnig er ánægjulegt að sjá að yfir helmingur framúrskarandi fyrirtækja samkvæmt lista Creditinfo velur að vera í viðskiptum við okkur.

Þá stóð Íslandsbanki fyrir stofnun 13 milljarða króna fyrirtækjalánasjóðs í samstarfi við Íslandssjóði. Sjóðurinn veitir fagfjárfestum aðgang að markaði sem hefur að mestu verið takmarkaður við banka en tilkoma hans mætir einnig fjármögnunarþörf fyrirtækja og styður við góð verkefni sem undirbyggja hagvöxt. Þetta er í samræmi við áherslu bankans um að styðja við fyrirtækin í landinu eftir bestu getu. Þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu var sameinuð í eina fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka árið 2019 og hefur það aukið skilvirkni og bætt þjónustu bankans. Þá er einnig starfrækt fyrirtækjamiðstöð á Akureyri fyrir Norður- og Austurland.

Sparnaður veitir öryggi

Árið 2021 var metár í gjaldeyrismiðlun hér á landi og var Íslandsbanki leiðandi á þeim markaði. Það er til marks um aukin alþjóðaviðskipti og merkja má aukna tiltrú erlendra aðila á íslensku hagkerfi og íslensku atvinnulífi sem skapar farveg til frekari hagvaxtar og framþróunar í efnahagslífinu.

Árið var einnig metár í verðbréfamiðlun Íslandsbanka og var bankinn leiðandi í markaðshlutdeild á skuldabréfamarkaði annað árið í röð. Sparnaður hefur aukist verulega í heimsfaraldrinum. Innlán íslenskra heimila jukust um 6,1% á milli ára á árinu 2021 og innlán lítilla og meðalstórra fyrirtækja um 26,3%. Þá fjölgaði hluthöfum í kauphöll Nasdaq Iceland úr 8.327 í lok árs 2019 í 30.569 í lok ágúst 2021 og hefur stærð hlutabréfasjóða landsins tvöfaldast síðan árið 2019.

Þetta er jákvæð þróun þar sem aukinn sparnaður veitir ákveðið öryggi á óvissutímum. Sjóðstjórar Íslandssjóða hafa staðið vel undir ábyrgðarhlutverki sínu og var sjóðurinn IS EQUUS hlutabréf með hæstu ávöxtun allra íslenskra sjóða og IS Einkasafn E með hæstu ávöxtun blandaðra sjóða hér á landi. Það er ánægjulegt að sjá að samfara góðri ávöxtun á sjóðamarkaði hafi aðgengi að sjóðum verið bætt til muna en Íslandsbanki var nú í sumar fyrsti bankinn til að bjóða upp á viðskipti með sjóði í appi.

Fyrirmynd í íslensku atvinnulífi

Íslandsbanki vill vera til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og sýnir það í verki með góðum árangri á sviði sjálfbærnimála. Í lok árs 2020 samþykkti stjórn bankans sjálfbærnistefnu sem er í samræmi við áherslur þeirrar stefnu sem var mótuð í upphafi árs 2019. Í samráði við starfsfólk bankans var ákveðið að vinna að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna; loftslagsmálum, jafnrétti, fræðslu og nýsköpun.

Þessu var fylgt enn frekar eftir á liðnu ári. Mikil vinna var lögð í að flokka hve stór hluti af núverandi lánasafni fellur undir sjálfbærniramma bankans og jafnframt hafist handa við að greina kolefnisspor lánasafnsins. Bankinn tók þátt í sjálfbærum skuldabréfaútgáfum og gaf meðal annars út blá og græn skuldabréf útgerðarfélagsins Brims, en skuldabréfin voru þau fyrstu á Íslandi sem falla undir bláan og grænan fjármögnunarramma. Þá hafði sérhæfður sjóður í rekstri Íslandssjóða umsjón með útgáfu félagslegra skuldabréfa fyrir Grunnstoð, dótturfélag Háskólans í Reykjavík, sem lauk endurfjármögnun á húsnæði háskólans. Fjármunir sem aflað er með þessum hætti eru notaðir til að fjármagna eignir og verkefni sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, í þessu tilfelli háskólamenntun.

Íslandsbanki hlaut jafnframt á árinu framúrskarandi einkunn að mati Reitunar, 90 UFS stig af 100 mögulegum, á sviði sjálfbærni, sem er mesti fjöldi UFS stiga sem Reitun hefur gefið. Góður árangur bankans kemur til vegna samhentrar vinnu starfsfólks og samþættingu sjálfbærnisjónarmiða í starfsemi bankans til viðbótar við arðsemismarkmið. Þá gerðist Íslandsbanki stofnaðili alþjóðlegs samstarfs banka sem sett hafa sér markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2050 (e. Net-Zero Bank Alliance). Alls eru 43 bankar þátttakendur í samtökunum. Íslandsbaki gerðist einnig aðili að Grænni byggð (e. Green Building Council Iceland) sem er samstarfsvettvangur um sjálfbæra þróun byggðar. Bankinn veitti fyrsta græna framkvæmdalánið á árinu.

Má nefna að í samræmi við áherslur bankans í sjálfbærni bættum við kolefnisreiknivél við Íslandsbanka-appið þannig að viðskiptavinir bankans geta nú metið kolefnisfótspor sitt. Við lítum okkur jafnframt nær og Dalurinn, mötuneyti höfuðstöðva Íslandsbanka, hlaut í febrúar Svansvottun en til þess þarf að uppfylla ströng skilyrði sem taka til alls lífsferils vöru og þjónustu. Þá hlaut bankinn viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar á árinu auk þess sem Íslandsbanki og Íslandssjóðir hlutu viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Við sjáum jafnframt að sífellt fleiri heimili velja vistvæn ökutæki og höfum við síðan um mitt ár 2020 boðið upp á hagkvæm kjör á grænni fjármögnun hjá Ergo. Um 27% allra bílalána og bílasamninga voru flokkuð sem græn fjármögnun í lok árs 2021.

Loks hlaut Íslandsbanki Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum en verðlaunin voru afhent á Degi umhverfisins 2021. Dómnefnd vakti sérstaka athygli á því hversu ríka áherslu Íslandsbanki hafi lagt á að fá alla starfsmenn með í innleiðingu sjálfbærra áherslna, meðal annars með vinnustofu um sjálfbærni og tækifæri fyrir allt starfsfólk til að móta stefnu bankans í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Á árinu nam hagnaður bankans 23,7 milljörðum króna og arðsemin var 12,3% sem er umfram markmið bankans og væntingar markaðsaðila. Tekjur bankans hækkuðu um 16,3% frá fyrra ári og þar af hækkuðu þóknanatekjur um 22% milli ára. Kostnaðarhlutfall var 46,2% sem er lækkun frá fyrra ári þegar hlutfallið var 54,3%. Jákvæð virðisbreyting útlána að upphæð 3 milljarðar króna hækkaði hagnað bankans en í fyrra var virðisbreyting útlána neikvæð um 8,8 milljarða króna og nemur því viðsnúningurinn 11,8 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina jukust um 80 milljarða króna eða um 7.9% á árinu þar sem aukning húsnæðislána vó þyngst og innlán til viðskiptavina jukust um 65 milljarða króna  eða um 9,5%.

Þakkir fyrir árið

Þegar litið er yfir árið 2021 er mér þakklæti efst í huga. Viðskiptavinir bankans sýndu mikla þolinmæði við fyrrnefnt rask á opnum útibúa vegna sóttvarnaraðgerða en við höfum fengið góð viðbrögð við nýjum tæknilausnum og sjáum það jafnframt í aukinni notkun.

Við áttum gott samstarf við stjórnvöld og ráðgjafa bankans, innlenda sem erlenda, í aðdraganda hlutafjárútboðsins. Starfsfólk bankans á að baki mikla vinnu við það stóra verkefni sem í útboðinu fólst, og mikill fjöldi almennra fjárfesta tók þátt í útboðinu og lagði í þá vegferð með okkur að vera skráð fyrirtæki á markaði. Útboðið tókst með eindæmum vel og fyrir það erum við þakklát.

Um leið og ég þakka stjórn bankans fyrir samstarfið á árinu vil ég sérstaklega þakka starfsfólki bankans fyrir þann dugnað og eljusemi sem það sýndi á því krefjandi ári sem 2021 var. Við státum okkur af mikilli starfsánægju innan bankans og ég hef fulla trú á því að við eigum okkur bjarta framtíð með svo öflugt starfsfólk í fararbroddi. Við horfum nú til bjartari tíma, byggjum framtíðina á öflugu hagkerfi og ríkulegum mannauði bankans.