VNV hækkaði um 0,69% í febrúar og mælist 12 mánaða verðbólga nú 4,1% en var 4,3% í janúar. Við teljum að toppi verðbólgunnar hafi verið náð í janúar og að hún muni hjaðna jafnt og þétt með hækkandi sól.
Vísitala neysluverðs hækkar um 0,7% á milli mánaða
Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði duglega í febrúar í takt við væntingar en alla jafna hefur febrúarmánuður vegið til hækkunar á VNV þar sem áhrif af vetrarútsölum janúarmánaðar ganga til baka.
VNV hækkaði í takt við spá Greiningar
Verðbólgan miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist nú 4,5% en hún var 4,7% í janúar. Við í Greiningu höfðum spáð 0,7% hækkun VNV sem var nærri lagi. Það helsta sem greinir á milli spár okkar og talna Hagstofunnar er liðurinn „reiknuð húsleiga“ sem stóð í stað á milli mánaða en við reiknuðum með lítilsháttar hækkun. Matur og drykkur lækkaði í verði um 0,12% (-0,02% áhrif í VNV) en við höfðum gert ráð fyrir að liðurinn myndi standa í stað eftir talsverða hækkun í síðasta mánuði.
Flestir af helstu undirliðum VNV hækkuðu á milli mánaða. Liðirnir „föt og skór“ og „húsgögn, heimilisbúnaður o.fl.“ hækkuðu duglega á milli mánaða eftir að hafa lækkað í vetrarútsölum janúarmánaðar. Sú verðlækkun gekk að öllu leyti til baka í febrúar en fyrrnefndi liðurinn hækkaði um 4,39% (0,15% áhrif í VNV) og sá síðarnefndi hækkaði um 3,16% (0,17% áhrif í VNV). „Húsnæðisliður, annað“ hækkaði um 0,44% (0,13% áhrif í VNV) sem rekja má til viðhaldsliðar húsnæðis sem hækkaði um 6,2% í febrúar í kjölfar launahækkana um síðustu áramót.
Ekkert lát á hækkunartakti fasteignaverðs
Markaðsverð fasteigna á landinu öllu hækkaði um 0,5% en hækkunin var mest á landsbyggðinni (1,6%). 12 mánaða taktur fasteignaverðs hefur hækkað jafnt og þétt frá upphafi árs 2020 þegar hann var 4,0% á landinu öllu en nemur nú 8,4% og var 8,9% í janúar. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu minnst þennan mánuðinn eða um 0,1%. Það er minnsta hækkun fjölbýlis í stökum mánuði frá því í júlí 2020.
Þrátt fyrir talsverða hækkun á fasteignaverði frá upphafi árs 2020 hefur leiguverð gefið töluvert eftir. 12 mánaða breyting leiguvísitölu Þjóðskrár varð í fyrsta skipti neikvæð í maí 2020 (-0,15%), eins langt aftur og gögn ná til eða til ársins 2011. Síðan þá hefur 12 mánaða takturinn sigið undir núll mörkin tvisvar til viðbótar, í desember 2020 (-0,05%) og aftur í janúar (-1,9%) en gögn fyrir febrúar eru ekki komin.
Hækkandi sól og lækkandi verðbólga?
12 mánaða verðbólgan var í síðasta mánuði 4,3% en er nú 4,1%. Samkvæmt okkar spá verður verðbólgan á undanhaldi næstu misseri og teljum við að toppnum hafi verið náð. Krónan hefur haldist tiltölulega stöðug við núverandi gengi frá því í byrjun desember. Við teljum líklegra en ella að krónan eigi inni einhverja styrkingu þegar fram líða stundir og ferðaþjónustan nær aftur vopnum sínum. Það veltur þó í stórum dráttum á framvindu faraldursins og framleiðslu bóluefnis en teljum ágætislíkur á að hið versta sé nú yfirstaðið. Horfur eru á því að verðbólgan verði í grennd við markmið Seðlabankans (2,5%) áður en árið er úti að okkar mati.