Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vinnumarkaður á tímum COVID

Verði faraldurinn í rénun um mitt ár gæti atvinnuleysi lækkað talsvert strax á næsta ári og árið 2022 komist á svipaðar slóðir og fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.


Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar er ein helsta ástæða þess að endurreisn efnahagslífsins í kjölfar hrunsins tókst eins vel og raun bar vitni. Íslenski vinnumarkaðurinn, sem talinn er mjög sveigjanlegur í alþjóðlegum samanburði,  hefur þar leikið lykilhlutverk.

Við í Greiningu spáum því að samdráttur í landsframleiðslu verði 9,2% á þessu ári og skammtímahorfur á vinnumarkaði eru afar dökkar. Stjórnvöld hafa gripið inn í með áður óþekktum hætti til að sporna gegn gjaldþrotum fyrirtækja og stórauknu atvinnuleysi en skellurinn verður samt sem áður umtalsverður.

Skammtímahorfur dökkar

Síðastliðin fjögur ár hefur atvinnuleysi hér mælst að meðaltali 3%, sem er afar lágt í alþjóðlegum samanburði. Til að mynda var atvinnuleysi að jafnaði 5,4% árið 2019 meðal OECD ríkja. Tíðindi af atvinnuleysi í apríl eru því nokkuð sláandi en það mældist 7,5% í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna hlutabótaleiðarinnar.

Það stefnir allt í að atvinnuleysi verði meira hér á landi en við höfum vanist undanfarna áratugi. Í nýrri þjóðhagsspá spáum við að atvinnuleysi verði að meðaltali 9,6% á þessu ári án hlutabótaleiðarinnar, en til samanburðar fór atvinnuleysi í hruninu hæst í 7,6% árið 2010. Við gerum ráð fyrir að atvinnuleysi mælist þegar mest verður 13% um mitt ár en taki að hjaðna þegar líða tekur á árið. Munurinn á þessu atvinnuleysi og t.d. í hruninu er þó að nú liggja flest störfin í dvala. Þegar hagkerfið réttir úr kútnum verða mörg þessara starfa vonandi enn til staðar og hægt verður að ganga í þau að nýju með tiltölulega skömmum fyrirvara.

Skammvinn kreppa?

Ljóst er að hagkerfið verður fyrir hörðum skelli og eins er óljóst hve hraður efnahagsbatinn verður. Hins vegar eru fjölmargar ástæður til bjartsýni og ýmsar stoðir hagkerfisins standa mun styrkari stoðum nú en við síðasta áfall. Sveigjanlegur vinnumarkaður hefur áður leikið lykilhlutverk við að rífa atvinnulífið á lappirnar og ef vel er haldið á spilunum ætti það að vera vel raunhæft aftur.

Verði faraldurinn í rénun um mitt ár gæti atvinnuleysi lækkað talsvert strax á næsta ári og árið 2022 komist á svipaðar slóðir og fyrir COVID. Nú er bara að vona að veiran gangi hratt niður svo hjól atvinnulífsins taki að snúast á ný, fyrst og fremst svo vinnandi fólk geti haft ofan í sig og á.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Senda tölvupóst