Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Viðskiptajöfnuður og hrein erlend eignastaða á batavegi

Viðskiptahallinn í fyrra var minni en árið 2021, eða 1,5% af VLF, og er það talsvert skárri niðurstaða en við væntum. Afgangur af þjónustuviðskiptum og fjármagnstekjum á milli landa vóg þar á móti miklum vöruskiptahalla. Erlend staða þjóðarbúsins er enn sterk og horfur eru á að það breytist ekki í bráð.


Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var viðskiptahalli ríflega 20 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Þetta er töluvert minni halli en við höfðum vænst, enda lá þegar fyrir að vöruskiptahalli á fjórðungnum var 86 ma.kr. og þjónustujöfnuður skilaði 24 ma.kr. afgangi á sama tíma. Hagstæðari niðurstaða en við væntum skýrist af 49 ma.kr. afgangi af hreinum frumþáttatekjum en það er mesti afgangur af þessum lið svo langt aftur sem tölur Seðlabankans ná. Hrein rekstrarframlög milli landa skiluðu svo tæplega 8 ma.kr. halla á fjórðungnum.

Eins og sjá má af myndinni leika fjármagnstekjur og -gjöld vegna beinnar fjárfestingar milli landa lykilhlutverk í þróun frumþáttatekna síðustu sex ár eða svo. Í frétt Seðlabankans kemur fram að hagstæða niðurstöðu í þessum lið á 4. ársfjórðungi megi að mestu leyti rekja til lakari afkomu fyrirtækja í erlendri eigu, en tap af rekstri þeirra kemur fram sem tekjur í viðskiptajöfnuðinum.

Hér er væntanlega sér í lagi átt við álverin. Miklar sveiflur hafa verið í álverði á heimsmarkaði síðustu misserin og hefur fylgni milli þess og jafnaðar frumþáttatekna verið allsterk undanfarin sex ár. Þetta þýðir þó auðvitað ekki að það sé beinlínis slæmt fyrir viðskiptajöfnuð ef álverð er hátt og öfugt. Hátt álverð kemur allsterkt fram í tekjum af vöruútflutningi og er nær að segja að nálga megi innlendan virðisauka af álframleiðslu með því að draga innflutt aðföng til hennar og reiknaða afkomu álfyrirtækjanna frá tekjum af álútflutningi. Sá virðisauki skilar sér meðal annars í góðri afkomu innlendra orkufyrirtækja undanfarið eins og til dæmis kom fram í nýlega birtu ársuppgjöri Landsvirkjunar.

Minni viðskiptahalli í fyrra en útlit var fyrir

Hagfelldari viðskiptajöfnuður á lokafjórðungi ársins 2022 leiðir til þess að viðskiptahallinn í fyrra reynist talsvert minni en við höfðum áætlað. Á árinu í heild var viðskiptahallinn 58 ma.kr., eða sem nemur 1,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) síðasta árs. Er það nokkru minni halli en árið 2021 þegar viðskiptahallinn mældist 2,4% af VLF. Vöruskiptahalli í fyrra var 214 ma.kr., afgangur af þjónustuviðskiptum 187 ma.kr., frumþáttatekjur skiluðu ríflega 6 ma.kr. afgangi og hrein rekstrarframlög voru með 37 ma.kr. halla.

Útlit er fyrir bata á viðskiptajöfnuði á komandi misserum. Í þjóðhagsspá okkar í febrúarbyrjun spáðum við því að viðskiptahalli í ár myndi nema 57 ma.kr. en að næstu tvö ár yrði jafnvægi á utanríkisviðskiptum. Sú spá virðist enn í fullu gildi og hugsanlega verður þróunin eitthvað hagfelldari á komandi fjórðungum en við spáðum í febrúar.

Erlend eignastaða á batavegi

Seðlabankinn birti einnig í morgun tölur um þróun erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Sem fyrr eru hreinar eignir þjóðarbúsins umtalsverðar og námu erlendar eignir að frádregnum erlendum skuldbindingum 910 ma.kr. í árslok 2022. Það samsvarar 24% af VLF ársins og hefur staðan batnað nokkuð á ný eftir að hafa rýrnað talsvert framan af síðasta ári.

Lakari erlenda stöðu þjóðarbúsins frá haustinu 2021 fram á mitt síðasta ár má að stórum hluta rekja til óhagstæðrar þróunar á erlendum hlutabréfamörkuðum en einnig spilar fjármögnun viðskiptahallans þar nokkurt hlutverk. Eins og sjá má af myndinni er erlend hlutabréfaeign ásamt eign í verðbréfasjóðum uppistaðan í hreinni eign erlendis en á móti er bein eign erlendra aðila á innlendum fyrirtækjum ásamt lánaskuldum og útgefnum skuldabréfum í eigu erlendra aðila talsvert meiri en samsvarandi staða eignamegin. Þá liggur hluti hreinna erlendra eigna þjóðarbúsins í gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Horfur eru á áframhaldandi sterkri erlendri stöðu

Því má skýra sveifluna í hreinu erlendu eigninni að verulegu leyti með því að erlendar eignir lífeyrissjóða, sem að stærstum hluta eru í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í sjóðum, lækkuðu talsvert í verði lengst af á síðasta ári. Með hækkun á mörkuðum erlendis hefur sú þróun hins vegar snúið við og eru ágætar líkur á að frekari bati verði á erlendu stöðunni með tíð og tíma.

Betra jafnvægi á utanríkisviðskiptum mun auk þess hjálpa til við að viðhalda sterkri erlendri stöðu en það er okkur gífurlega dýrmætt að vera hreinir lánardrottnar gagnvart umheiminum fremur en vera upp á náð og miskunn erlendra lánardrottna komin. Sem betur fer virðast litlar líkur á því að aftur sigi á ógæfuhliðina í þessum efnum í líkingu við stöðuna eins og hún var áratugina fyrir fjármálakreppu, en þá voru erlendar skuldir þjóðarbúsins ávallt umtalsvert meiri en eignirnar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband