Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Viðskiptaafgangur á þriðja fjórðungi þrefaldast milli ára

Viðskiptaafgangur á 3. ársfjórðungi var þrefalt meiri en á síðasta ári og útlit er fyrir viðskiptaafgang á yfirstandandi ári eftir tveggja ára viðskiptahalla. Þá batnaði hrein erlend staða þjóðarbúsins um 145 ma.kr. á fjórðungnum og nemur hrein erlend eign þjóðarbúsins nú tæplega þriðjungi af landsframleiðslu. Betra ytra jafnvægi þjóðarbúsins er birtingarmynd aðlögunar hagkerfisins eftir þensluskeið.


Viðskiptaafgangur á 3. ársfjórðungi var 61,8 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Er þetta þrefalt meiri viðskiptaafgangur en á sama fjórðungi í fyrra og mesti afgangur frá 3. fjórðungi ársins 2019. Þegar lá fyrir að ríflega 150 ma.kr. afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd myndi vega mun þyngra í tölunum en 94 ma.kr. vöruskiptahalli. Í viðskiptajafnaðartölum Seðlabankans bætast við jöfnuður frumþáttatekna, sem var jákvæður um tæpa 19 ma.kr., og hrein rekstrarframlög milli landa en þar var 13 ma.kr. halli.

Jöfnuður frumþáttatekna endurspeglar tekjur og gjöld milli landa vegna launa annars vegar og fjármagns, þ.e. vexti og arð, hins vegar. Eftir tímabundinn halla hefur nú verið afgangur af þessum jöfnuði undanfarna 4 ársfjórðunga líkt og var reglan lengst af á seinni hluta síðasta áratugar.

Afkoma álvera litar þáttatekjujöfnuð

Eins og sést af myndinni hér að ofan eru tekjur og gjöld vegna beinnar fjárfestingar helsta skýringin á sveiflunni í frumþáttatekjunum undanfarin ár. Þar vegur afkoma álveranna þriggja þungt, en þau eru alfarið í erlendri eigu. Þegar tap er á rekstri þeirra bókast það sem frádráttur gjaldamegin og var viðkomandi undirliður í greiðslujöfnuðinum einmitt neikvæður um ríflega 11 ma.kr. á fjórðungnum.

Af myndinni má sjá að allsterk fylgni er milli álverðs á heimsmarkaði og jafnaðar þáttatekna í greiðslujöfnuði. Að sjálfsögðu felst þó ekki í þessu að það sé beinlínis slæmt fyrir viðskiptajöfnuð að álverin skili hagnaði þar sem innlendur virðisauki af álframleiðslu kemur einnig fram í vöruskiptatölum og aukning þar vegur alla jafna talsvert þyngra en frádragið í þáttatekjunum.

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var viðskiptaafgangurinn ríflega 42 ma.kr. Á sama tímabili í fyrra var hins vegar nærri 54 ma.kr. viðskiptahalli. Þessi viðsnúningur er birtingarmynd þáttaskila í íslensku hagkerfi þar sem útflutningur hefur tekið við af neyslu og fjárfestingu sem helsti drifkraftur vaxtar.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í septemberlok gerðum við ráð fyrir að viðskiptaafgangur tæki við af halla í ár og raunar höfum við viðrað þá skoðun um allnokkra hríð. Tölurnar nú ríma vel við þessa spá okkar og gæti hún ef eitthvað er reynst í hóflegri kantinum þegar öll kurl eru komin til grafar. Næstu tvö ár er svo útlit fyrir áframhaldandi hóflegan afgang af utanríkisviðskiptum.

Erlend staða þjóðarbúsins styrkist

Seðlabankinn birti einnig yfirlit yfir erlenda stöðu þjóðarbúsins í septemberlok. Frá miðju ári hefur hrein erlend staða batnað um 145 ma.kr. og voru hreinar eignir þjóðarbúsins erlendis að frádregnum skuldbindingum 1.272 ma.kr., sem svarar til ríflega 31% af VLF. Umtalsverður bati hefur orðið á erlendu stöðunni síðustu fjórðunga eftir snarpa dýfu fyrr á áratugnum. Erlenda staðan varð mest jákvæð um ríflega 34% í upphafi þessa áratugar en fram á síðasta áratug hafði hún ávallt verið neikvæð sem nam tugum prósenta af VLF.

Eins og sjá má af myndinni hér að neðan er samsetning erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins talsvert ólík. Við eigum þannig 2.410 ma.kr. í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum umfram erlenda eign á slíkum eignaflokkum hérlendis. Stærstur hluti þessarar eignar er í formi erlendra eigna lífeyrissjóðanna en slík eign nam 2.492 ma.kr. í lok september. Þá varðveitir Seðlabankinn hluta af þessari hreinu eign í gjaldeyrisforða sínum og hrein eignastaða tengd honum og öðrum minni eignaflokkum 697 ma.kr. í septemberlok.

Aftur á móti er bein erlend fjárfesting hér á landi 615 ma.kr. umfram erlendar eignir okkar af því taginu og erlend lántaka var 1.221 ma.kr. umfram beinar og óbeinar erlendar lánveitingar í lok 3. fjórðungs. Góðu heilli er bróðurparturinn af erlendu lánaskuldunum í erlendri mynt og þar með á talsvert lægri vöxtum en ella væri. Vextir erlendis hafa hins vegar farið hækkandi síðustu misserin og mun vaxtakostnaður af slíkum lánaskuldum því jafnt og þétt hækka sem hlutfall af stöðunni á komandi tíð ef að líkum lætur. Þyngra vega þó trúlega á endanum fjármagnstekjur af hlutafjáreign okkar erlendis en lífeyrissjóðirnir endurfjárfesta slíkum tekjum að langstærstum hluta svo lengi sem iðgjaldaflæði inn í þá er meira en sem nemur lífeyrisgreiðslum.

Jákvæð þróun í átt að betra jafnvægi

Heilt yfir verða hinar nýju tölur Seðlabankans að teljast býsna jákvæðar og koma vel heim og saman við aðrar vísbendingar um að hagkerfið stefni nú hraðbyri í átt að betra jafnvægi, líkt og við fjölluðum nýlega um. Við teljum að skammvinnu skeiði viðskiptahalla sé lokið í bili. Þótt við eigum tæpast afturkvæmt í þann myndarlega viðskiptaafgang sem einkenndi stóran hluta síðasta áratugar eru þó góðar horfur á að utanríkisviðskipti verði í góðu jafnvægi næstu árin.

Þá er gleðilegt að sjá hreinu erlendu stöðuna aftur á uppleið og er útlit fyrir að hún haldi áfram að styrkjast frekar en hitt. Jákvæð þróun í ytra jafnvægi þjóðarbúsins og erlendri eignastöðu er litlu, opnu hagkerfi með fljótandi gjaldmiðil gríðarlega mikilvæg enda höfum við áður sopið seyðið af því að búa við ójafnvægi og slæma erlenda eignastöðu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband