Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hagvöxtur á 3. fjórðungi sá hægasti í 2 ½ ár

Samdráttur í innlendri eftirspurn á þriðja ársfjórðungi er skýrt merki um viðsnúning í hagkerfinu. Hagvöxtur á fjórðungnum var sá hægasti frá því snemma árs 2021 og var vöxturinn borinn uppi af hagstæðu framlagi utanríkisviðskipta. Slaknandi spenna í hagkerfinu gæti dregið úr þörfinni fyrir frekari hækkun stýrivaxta á komandi fjórðungum.


Hagvöxtur var 1,1% á þriðja ársfjórðungi samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofu. Er það hægasti vöxtur á ársfjórðungi frá fyrsta fjórðungi ársins 2021 og snarpur viðsnúningur frá fyrri fjórðungum þessa árs. Einnig má geta þess að í nýbirtum Peningamálum spáði Seðlabankinn 1,75% vexti á fjórðungnum og er vöxturinn því allnokkuð undir spá bankans. Í rauninni er það fyrst og fremst 3% samdráttur í innflutningi sem ýtir hagvaxtartölunni yfir núllið þar sem þjóðarútgjöld, sem endurspegla innlenda eftirspurn, skruppu saman um 1,2% og útflutningur jókst einungis um hálfa prósentu milli ára.

Vöxtur útflutnings hefur vegið þungt í hagvexti undanfarna fjórðunga. Hlutur hans var hins vegar í rýrara lagi á þriðja fjórðungi. Skýrist það af 3,7% samdrætti í vöruútflutningi milli ára í magni mælt. Útflutt þjónusta jókst hins vegar í magni mælt um 7,4% á fjórðungnum og á ferðaþjónustan þar drýgstan hlut að máli líkt og við fjölluðum nýlega um. Það sem af er ári hefur útflutningur þó aukist um 5,7% og vegur 15% vöxtur útflutnings á þjónustu þar mun þyngra en 1,3% samdráttur í vöruútflutningi.

Sem fyrr segir skrapp innflutningur saman um 3% á þriðja fjórðungi. Er það alfarið vegna samdráttar í vöruinnflutningi milli ára, sem aftur tengist hægari takti eftirspurnar að mestu leyti. Á fyrstu 9 mánuðum ársins var innflutningur hins vegar í járnum á milli ára.

Viðvarandi samdráttur í íbúðafjárfestingu

Talsverðar sveiflur hafa verið í fjármunamyndun milli fjórðunga í þjóðhagsreikningum Hagstofunnar undanfarið eins og oft vill verða í litlu hagkerfi með tiltölulega kvika hagsveiflu. Þannig mældist ríflega 4% samdráttur í fjárfestingu á þriðja ársfjórðungi þar sem nærri 6% samdráttur í íbúðafjárfestingu og 23% samdráttur í fjármunamyndun hins opinbera vógu þyngra en 3% vöxtur í fjárfestingu atvinnuvega. Hagstofan bendir á að á þriðja fjórðungi megi að hluta rekja vöxt atvinnuvegafjárfestingar, og að sama skapi snarpan samdrátt í í fjármunamyndun hins opinbera, til grunnáhrifa þar sem myndarleg færsla fasteigna frá einkageiranum til hins opinbera átti sér stað fyrir ári síðan.

Gagnlegra er þó að skoða þróun fjárfestingar á fyrstu þremur fjórðungum ársins og setja í samhengi við fjárfestingartakt síðustu ára. Á þann kvarða skrapp fjármunamyndun saman um 1,3% á milli ára eftir tæplega 8% vöxt í fyrra og nærri 11% vöxt árið 2021. Fjárfesting atvinnuvega jókst um tæp 5% á tímabilinu en fjárfesting í íbúðarhúsnæði minnkaði hins vegar í magni mælt um rúm 7% og fjármunamyndun hins opinbera um rúm 13% á sama tíma. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur nú skroppið saman linnulaust í rúm 2 ár en Hagstofan bendir þó á að í hlutfalli við VLF sé fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði nærri meðaltali frá árinu 1995. Samdrátturinn er þó nokkurt áhyggjuefni í ljósi þeirrar þarfar sem er fyrir talsverða fjölgun íbúða á landinu á komandi fjórðungum.

Viðsnúningur í einkaneyslu

Einn veigamesti undirliður þjóðhagsreikninga er einkaneysla. Einkaneyslan hefur verið á miklum skriði allt frá því fyrstu bylgjur faraldursins voru að baki í upphafi áratugarins. Á þriðja fjórðungi brá hins vegar svo við að samdráttur í einkaneyslu mældist 1,7% í magni mælt. Hefur samdrátturinn ekki verið meiri frá lokafjórðungi ársins 2020. Ýmsir hagvísar höfðu raunar bent til þess að einkaneyslan myndi vaxa nokkuð á fjórðungnum en Hagstofan bendir í frétt sinni á að á árinu hafi ríflega 5% samdráttur í kaupum ökutækja vegið allþungt í hægari einkaneyslutakti.

Líkt og í hagvaxtartaktinum sjálfum bera einkaneyslutölurnar með sér snarpan viðsnúning innan ársins. Neysluvöxturinn var 4,5% á fyrsta fjórðungi ársins og í fyrra nam hann 8,5%. Tímanlegir hagvísar gefa vísbendingu um að allnokkur samdráttur sé einnig í pípunum á lokafjórðungi ársins. Þannig hefur Væntingavísitala Gallup slegið niður í sín lægstu gildi frá því snemma í faraldrinum og samdráttur í kortaveltu í október var sá mesti frá ársbyrjun 2021. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var vöxtur einkaneyslu 1,3% en nefna má til samanburðar að spá Seðlabankans í síðustu viku hljóðaði upp á 1,8% einkaneysluvöxt í ár.

Hagkerfið í aðlögunarfasa eftir þensluskeið

Samandregið teikna hinar nýbirtu tölur Hagstofunnar upp býsna skýra mynd af viðsnúningi í íslensku hagkerfi. Ekki einungis er að hægja verulega á hagvexti heldur er rót hans í vaxandi mæli í utanríkisviðskiptum fremur en innlendri eftirspurn.

Með öðrum orðum er hagkerfið að leita í átt að betra jafnvægi eftir þensluskeið síðustu tveggja ára. Er það til merkis um að hagstjórnarviðbrögð Seðlabankans og stjórnvalda við þenslunni eru að segja til sín í æ ríkari mæli. Í þjóðhagsspá okkar sem birtist í septemberlok gerðum við ráð fyrir 2,2% hagvexti á yfirstandandi ári. Tölurnar nú virðast ríma vel við þá spá og er það helst minni innflutningsvöxtur sem gæti orðið til þess að hagvöxtur reyndist meiri á árinu en við spáðum.

Að því gefnu að framangreind þróun haldi áfram gæti þörfin fyrir frekara peningalegt aðhald Seðlabankans orðið minni á komandi fjórðungum en ella. Í síðustu viku gaf peningastefnunefnd bankans í skyn að tilefni hefði verið til hækkunar vaxta ef ekki hefði komið til óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Tölurnar nú benda til þess að það sé ekki aðeins undir yfirborði jarðar sem slaknað hefur á spennu heldur séu umsvif ofan á jarðskorpunni hérlendis einnig að róast jafnt og þétt.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband