Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Metafgangur af þjónustuviðskiptum á 3. fjórðungi

Myndarleg háönn í ferðaþjónustunni á stærstan þátt í metafgangi af þjónustuviðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Þjónustuútflutningur stefnir í að taka á ný við af vöruútflutningi sem veigameiri þáttur í öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið. Horfur eru á að jafnvægi verði á vöru- og þjónustuviðskiptum á yfirstandandi ári.


Afgangur af þjónustuviðskiptum á þriðja ársfjórðungi var sá mesti frá upphafi. Afgangurinn nam rúmlega 150 ma.kr. en til samanburðar var afgangurinn 118 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Alls námu útflutningstekjur af þjónustu 311 ma.kr. á tímabilinu en útgjöld vegna þjónustuinnflutnings námu tæpum 161 ma.kr. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var afgangur af utanríkisviðskiptum með þjónustu 262 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar og er það sömuleiðis met í krónum talið.

Líkt og oft áður voru undirliðir tengdir ferðalögum og flutningum burðarás í þessum myndarlega afgangi. Alls var tæplega 105 ma.kr. afgangur af viðskiptum tengdum útgjöldum á ferðalögum og samgöngu- og flutningaþjónusta skilaði 67 ma.kr. afgangi. Aðrir helstu undirliðir voru tiltölulega nálægt jafnvægi nema hvað 16 ma.kr. halli var á viðskiptum með ýmiskonar sérfræði- og tækniþjónustu og útgjöld tengd menningar- og afþreyingarþjónustu voru 6 ma.kr. meiri en tekjur.

Gjaldeyrisinnflæði tengt ferðalögum nær nýjum hæðum

Afgangurinn á þriðja fjórðungi er vitaskuld birtingarmynd kraftmikillar endurkomu ferðaþjónustunnar eftir faraldur. Þótt ferðagleði landsmanna hafi verið töluverð undanfarin misseri hefur stríður straumur ferðafólks hingað til lands vegið til muna þyngra.

Útflutningstekjur vegna farþegaflutninga með flugi og útgjalda erlendra ferðamanna hérlendis námu 233 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi. Sambærileg útgjöld tengd utanferðum landsmanna voru 61 ma.kr. og jöfnuður tengdur ferðalögum milli landa var því jákvæður um tæpa 172 ma.kr. sem er sögulegt met. Eins og sjá má af myndinni hefur þróun á ferðatengdri veltu verið býsna ólík á útflutnings- og innflutningshlið. Ekkert lát hefur enn orðið á vexti í útflutningstekjunum milli ára á meðan útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis hafa nokkurn veginn staðið í stað  ef annar og þriðji fjórðungur ársins eru bornir saman við sama tímabil 2022.

Síðarnefnda þróunin endurspeglar vitaskuld mikla ferðagleði landans fyrst eftir að farið var að slaka á ferðatakmörkunum tengdum faraldrinum og í kjölfarið vaxandi áhrif af mikilli verðbólgu og hækkandi vöxtum á ferðaviljann. Eitt skýrasta dæmið um þetta er að fjöldamet var slegið í utanlandsferðum landsmanna í október í fyrra en miðað við nýlegar tölur Ferðamálastofu voru utanlandsferðir landsmanna í nýliðnum október hins vegar ríflega fimmtungi færri en fyrir ári síðan.

Hagstofan birti einnig í morgun heildartölur um utanríkisviðskipti með vörur og þjónustu á þriðja ársfjórðungi. Af þeim má glöggt sjá hvernig þjónustuútflutningur er aftur á góðri leið með að taka við af vöruútflutningi sem veigameiri þátturinn í útflutningstekjum landsins eftir tímabundinn viðsnúning í faraldrinum. Á tímabilinu frá októberbyrjun 2022 fram í septemberlok í ár voru brúttótekjur af þjónustuútflutningi 911 ma.kr. en brúttótekjur af vöruútflutningi voru hins vegar 946 ma.kr. á sama tímabili.

Þar er líka rétt að halda til haga að stærri hluti útflutningstekna í þjónustu endurspeglar innlendan virðisauka, bæði vegna þess að innflutt aðföng eru að jafnaði lægra hlutfall af söluverði á þjónustu en vörum, og eins rennur stærri hluti af hagnaði fyrirtækja í vöruútflutningi til erlendra eigenda en raunin er í þjónustu. Sér í lagi á þetta við um orkufrekan iðnað.

Vöruskiptahalli vegur upp þjónustuafgang á árinu

Á heildina litið var 94 ma.kr. halli á vöruskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Sem fyrr segir var afgangur af þjónustujöfnuði hins vegar 150 ma.kr. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því rúmir 56 ma.kr. á tímabilinu. Er það svipaður afgangur og var á þessum fjórðungi seinustu árin fyrir faraldur enda kemur háönn ferðaþjónustunnar jafnan sterk inn á þriðja fjórðungi hvers árs ef heimsfaraldur er ekki að raska ferðalögum landa má milli.

Á fyrstu níu mánuðum ársins var afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 37 ma.kr. og þar með um það bil 4 ma.kr. minni en á sama tímabili í fyrra. Það eru hins vegar horfur á að halli á slíkum viðskiptum verði hóflegri á lokafjórðungi ársins en á síðasta fjórðungi ársins 2022. Við teljum því líklegt að á árinu í heild verði þokkalegt jafnvægi á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Í þjóðhagsspánni sem við gáfum út í septemberlok spáðum við því að slík viðskipti yrðu nánast í algeru jafnvægi á þessu ári og virðist sú spá enn góð og gild. Horfur eru síðan á lítilsháttar afgangi á viðskiptum með vörur og þjónustu næstu tvö árin að okkar mati.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband