Viðskiptaafgangur á 3. fjórðungi skreppur saman en erlend staða traust

Viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi var mun minni en fyrir ári síðan og vó ekki upp halla á fyrri helmingi ársins. Minni afgangur af þjónustuviðskiptum og viðsnúningur í frumþáttatekjum skýrir þá þróun að stórum hluta. Erlend staða þjóðarbúsins er hins vegar sterk eftir sem áður og nema hreinar erlendar eignir ríflega 40% af landsframleiðslu um þessar mundir.


Viðskiptaafgangur á 3. ársfjórðungi var 45,7 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það er tæplega 41 ma.kr. lakari útkoma en á sama fjórðungi í fyrra. Munurinn skýrist að stórum hluta af mun lakari jöfnuði á frumþáttatekjum ásamt minni afgangi af þjónustuviðskiptum. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli var 76 ma.kr. á fjórðungnum og afgangur af þjónustujöfnuði tæplega 141 ma.kr. Hinir tveir meginþættir viðskiptajafnaðarins skiluðu hins vegar báðir halla á fjórðungnum. Halli á frumþáttatekjum var 6,6 ma.kr. og halli á rekstrarframlögum 12,2 ma.kr. Rekstrarframlög þjóðarbúsins til umheimsins eru ávallt meiri en sem nemur samsvarandi innflæði, enda endurspeglar sá liður meðal annars framlög okkar til alþjóðastofnana og þróunarstarfs auk beinna peningasendinga t.d. milli fjölskyldumeðlima.

Frumþáttatekjur eru samheiti yfir tekjur af vinnuframlagi og fjármagni, m.ö.o. launagreiðslur, vaxtagreiðslur og arð af beinni og óbeinni hlutafjáreign milli landa. Síðustu misserin hefur jafnan verið afgangur af fjármagnstekjum af verðbréfaeign auk þess sem gjaldeyrisforði Seðlabankans skilar ávallt nokkrum vaxtatekjum í kassann og þær tekjur hafa raunar aukist undanfarið samfara hækkandi skammtímavöxtum erlendis. Þá hefur ávallt verið halli á jöfnuði vegna annarra fjárfestinga undanfarið.

Meiri sveiflur hafa verið á jöfnuði fjármagnstekna af beinni fjárfestingu til og frá landinu. Þær sveiflur tengjast ekki síst sveiflum í álverði og þar með afkomu álveranna þriggja hér á landi sem öll eru í erlendri eigu. Álverð hefur farið hækkandi undanfarna fjórðunga eins og sjá má af myndinni hér fyrir neðan. Á sama tíma hefur útflutningsverðmæti áls aukist í krónum talið og skilaði áliðnaðurinn hér á landi ríflega 82 ma.kr. brúttó í útflutningstekjur á 3. fjórðungi ársins samanborið við 74 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Á móti vænkaðist hagur álveranna og er hagfelldari rekstur þeirra vafalítið uppistaðan í þeim viðsnúningi sem varð í endurfjárfestum arði erlendra eigenda íslenskra fyrirtækja milli ára. Í fyrra var þannig fært til bókar ríflega 15 ma.kr. tap af rekstri innlendra fyrirtækja í erlendri eigu á þriðja fjórðungi en þetta árið nam endurfjárfestur hagnaður af þessu tagi rúmum 9 ma.kr.

Horfur á nokkrum viðskiptahalla í ár

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var ríflega 26 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Er það talsvert lakari niðurstaða en á sama tímabili í fyrra þegar viðskiptaafgangur nam rúmum 63 ma.kr. Liggur rótin að þeim viðsnúningi í öllum helstu undirliðum viðskiptajafnaðarins en þyngst vegur 46 ma.kr. samdráttur í þjónustuafgangi og 35 ma.kr. minni afgangur af jöfnuði frumþáttatekna.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í septemberlok gerðum við ráð fyrir því að viðskiptahalli myndi verða á yfirstandandi ári, annað árið í röð. Hljóðaði spá okkar upp á ríflega 50 ma.kr. halla á utanríkisviðskiptum á árinu. Miðað við hinar nýbirtu tölum verður hallinn líklega nokkru meiri þar sem gera má ráð fyrir allnokkrum viðskiptahalla á lokafjórðungi ársins. Eftir sem áður teljum við þó að til betri vegar horfi í viðskiptajöfnuðinum. Eru góðar líkur á því að utanríkisviðskiptin verði nokkurn veginn í jafnvægi árin 2025-2026 eftir því sem útflutningur vex jafnt og þétt á sama tíma og útlit er fyrir hægan innflutningsvöxt. Innbyrðis þróun á verði innflutnings og útflutnings getur þó breytt þeirri mynd sem og þættir á borð við gæftir í einstökum fisktegundum sem og hugsanlega orkuskerðingu til orkufreks iðnaðar.

Erlend staða þjóðarbúsins styrkist

Seðlabankinn birti einnig í morgun áætlaða erlenda stöðu þjóðarbúsins í septemberlok. Alls námu erlendar eignir þjóðarbúsins 6.351 ma.kr. en skuldir voru á sama tíma 4.558 ma.kr. Hrein erlend staða þjóðarbúsins var því jákvæð um 1.793 ma.kr. sem svarar til ríflega 40% af vergri landsframleiðslu (VLF). Erlenda staðan batnaði um 130 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi, að stærstum hluta vegna jákvæðra áhrifa gengis- og verðbreytinga.

Samsetning á erlendum eignum og skuldum þjóðarbúsins er nokkuð ólík. Til að mynda eru tæplega 40% eignasafns lífeyrissjóðanna í formi erlendra eigna og bróðurpartur þeirra er svo aftur hlutdeild í erlendum hlutabréfasjóðum. Erlendir hlutabréfamarkaðir voru gjöfulir á þriðja ársfjórðungi líkt og við höfum áður fjallað um og endurspeglast það í þróuninni á bláu súlunum í myndinni hér að neðan. Hins vegar er bein erlend fjárfesting hér á landi nokkru meiri en samsvarandi fjárfesting innlendra aðila erlendis auk þess sem vaxtaberandi skuldir innlendra aðila erlendis eru meiri en skuldir erlendra aðila af því taginu hér á landi.

Betra er að eiga en skulda erlendis

Á heildina litið má segja að framangreindar tölur séu tiltölulega hagfelldar þrátt fyrir neikvæðan viðsnúning í viðskiptajöfnuði. Erlend staða þjóðarbúsins er eftir sem áður sterk og sem fyrr segir er útlit fyrir að til betri vegar horfi í utanríkisviðskiptunum á komandi misserum. Horfur fyrir ytra jafnvægi þjóðarbúsins eru því allgóðar eftir sem áður.

Allt fram undir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar var viðskiptaafgangur við útlönd sjaldséður í opinberum gögnum og viðskiptahalli nánast reglan. Því fylgdi skuldasöfnun sem náði hámarki í aðdraganda hrunsins 2005-2007. Viðsnúningurinn síðan er býsna mikilvægur grundvöllur fyrir stöðugleika í þjóðarbúinu enda skiptir miklu fyrir lítið, opið hagkerfi með eina smæstu fljótandi mynt á heimsvísu að vera ekki upp á erlenda lánardrottna komið heldur eiga allnokkrar hreinar eignir í pokahorninu á alþjóðavísu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband