Stefnir í allgott ár hjá lífeyrissjóðum

Þriðji ársfjórðungur var hagfelldur fyrir eignasafn íslenskra lífeyrissjóða. Hækkun á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum vó þungt í myndarlegri aukningu heildareigna sjóðanna. Útlit er fyrir að raunávöxtun lífeyrissjóðanna verði í takti við meðalávöxtun undanfarins áratugar og yfir tryggingafræðilegu viðmiði þeirra.


Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 7.946 ma.kr. í septemberlok samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það svarar til 176% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs. Á þann mælikvarða standa fá lönd heims okkur á sporði en helst eru það Danmörk, Kanada, Holland og Sviss sem hafa úr álíka digrum sjóðum að spila fyrir núverandi og væntanlega lífeyrisþega.

Innflæði inn í íslenska lífeyrissjóði vegna iðgjaldagreiðslna er enn talsvert meira á heildina litið en sem nemur útflæði vegna lífeyrisgreiðslna og rekstrarkostnaðar. Þó skýrir hreint innflæði einungis lítinn hluta þeirrar 649 ma.kr. aukningar sem orðið hefur á heildareignum sjóðanna frá ársbyrjun. Við áætlum lauslega, byggt á þróun síðustu ára, að hreint innflæði vegna iðgjalda umfram lífeyrisgreiðslur og kostnað hafi numið u.þ.b. 70 ma.kr. Eftir standa þá í kring um 580 ma.kr. sem skýra má með verðhækkun og ávöxtun af eignum þeirra.

Hlutabréfin gjöful á þriðja fjórðungi

Bróðurparturinn af eignaaukningunni það sem af er ári er í erlendum eignum sjóðanna. Slíkar eignir uxu um ríflega 400 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Í septemberlok námu þær jafnvirði 3.143 ma.kr. sem svarar til 39,6% af heildareignum sjóðanna. Í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, kom fram að hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna námu 51 ma.kr. á fyrstu 8 mánuðum þessa árs og jafngildir það 17 ma.kr. samdrætti frá sama tíma 2023. Að því gefnu að slík gjaldeyriskaup hafi ekki tekið verulegt stökk í september má álykta að um það bil 85% af þessari eignaukningu sé vegna verðhækkunar og ávöxtunar af erlendum eignum.

Í því sambandi er nærtækt að horfa til alþjóðlegrar þróunar á hlutabréfaverði, enda er langstærstur hluti erlendu eigna lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins hækkaði MSCI heimsvísitala hlutabréfa til að mynda um 17% en verðmæti erlendu eignanna jókst á sama tíma um tæp 15%. Að teknu tilliti til líklegra eignakaupa og gengishreyfinga krónu telst okkur til að bein og óbein ávöxtun erlendu eignanna gæti hafa verið á bilinu 12-13% á tímabilinu.

Öfugt við fyrri helming ársins var þriðji fjórðungur hins vegar gjöfull lífeyrissjóðunum á innlendum hlutabréfamarkaði. Miðað við OMXI15 vísitöluna hækkuðu innlend hlutabréf um tæp 7% á fjórðungnum eftir 6% lækkun frá ársbyrjun til júníloka. Á sama tíma jókst eign sjóðanna í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum um 77 ma.kr. sem samsvarar tæplega 8% aukningu. Námu slíkar eignir alls 1.090 ma.kr. í septemberlok og voru þar með 13,7% af heildareignum.

Horfur á hagfelldu ávöxtunarári

Eftir tvö slök ár stefnir í að sjóðirnir nái að ávaxta pund sjóðfélaga sinna nokkuð ríkulega í ár. Það sem af er lokafjórðungi ársins hafa innlend hlutabréf verið að talsverði siglingu. Hækkun OMXI15 vísitölunnar nemur til að mynda ríflega 8% frá septemberlokun fram til 5. nóvember. Lítilsháttar lækkun hefur hins vegar orðið á MSCI heimsvísitölunni á sama tíma. Þá má nefna að krafa á innlendum skuldabréfum hefur þróast með tiltölulega hagfelldum hætti á heildina litið það sem af er ári en þar ber að halda til haga að stærstur hluti þeirra er færður til bókar á upphaflegri kaupkröfu í bókum lífeyrissjóðanna og sveiflur á markaði hafa því hófleg áhrif á heildareignir sjóðanna eins og þær eru bókfærðar í gögnum Seðlabankans.

Frá áramótum til septemberloka jukust eignir sjóðanna um 649 ma.kr. sem fyrr segir. Það jafngildir 8,9% aukningu í krónum talið. Að teknu tilliti til líklegs hreins innflæðis í sjóðina reiknast okkur til að raunávöxtun eigna þeirra hafi numið rétt um 3% á tímabilinu. Svarar það til 3,8% raunávöxtunar á ársgrunni.

Haldi fram sem horfir eru góðar líkur á að raunávöxtun sjóðanna þetta árið nái 3,5% tryggingafræðilegu viðmiði sem notað er til að meta stöðu eigna og skuldbindinga þeirra til framtíðar. Væri þetta ár þá fyrsta árið frá 2021 þar sem 3,5% viðmiðið næst.

Lífeyrissjóðirnir eru vitaskuld þolinmóðir fjárfestar og allnokkur ár í að lífeyrisgreiðslur fari fram úr iðgjöldum inn í sjóðina. Þrátt fyrir tveggja ára harðindi hefur ávöxtun íslensku sjóðanna verið vel ásættanleg að jafnaði undanfarinn áratug eða svo. Til að mynda var meðal raunávöxtun áranna 20214-2023 4,1%. Þetta ár gæti orðið nokkurn veginn í takti við það meðaltal.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband