Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Viðskiptaafgangur 2019 sá næstmesti frá upphafi

Viðskiptaafgangur í fyrra var sá næstmesti frá upphafi í krónum talið. Þessi mikli afgangur skýrir að verulegu leyti stöðuga krónu þrátt fyrir erlend eignakaup lífeyrissjóða og litla fjárfestingu inn í landið. Hreinar erlendar eignir nema nú ríflega fimmtungi af landsframleiðslu eða 667 milljörðum.


Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var viðskiptaafgangur á lokafjórðungi síðasta árs 51 ma.kr. Jafngildir það tíföldum afgangi lokafjórðungs ársins 2018, en hann var tæpir 5 ma.kr. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli nam tæpum 12 mö.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði var tæpir 56 ma.kr. Til viðbótar þeim tölum skiluðu frumþáttatekjur tæplega 10 ma.kr. afgangi á tímabilinu en tæplega 3 ma.kr. halli var á rekstrarframlögum.

Hin hagstæða þróun milli ára skýrist bæði af 26 ma.kr. bata í vöruviðskiptum, 19 ma.kr. bata í þjónustuviðskiptum og ríflega 4 ma.kr. hagstæðari niðurstöðu rekstrarframlaga. Á móti vó að frumþáttatekjur voru tæplega 4 mö.kr. óhagstæðari. Líkt og fyrri daginn skýrist þó afgangur frumþáttatekna að stærstum hluta af því að fjármagnstekjur af erlendum eignum voru umtalsvert meiri en fjármagnsgjöld vegna erlendra skuldbindinga. Er það eðlilegt í ljósi þess að hrein eignastaða þjóðarbúsins er býsna hagstæð og vextir á alþjóðavísu lágir.

Myndarlegur viðskiptaafgangur í fyrra

Á síðasta ári nam viðskiptaafgangur þjóðarbúsins 172,5 mö.kr. sem samsvarar u.þ.b. 5,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Er það næstmesti viðskiptaafgangur frá upphafi. Aðeins á árinu 2016 var afgangurinn meiri, en þá nam hann 188 mö.kr. Óhætt er að segja að þessi niðurstaða sé talsvert hagfelldari en flestir þorðu að vona í kjölfar falls WOW air fyrir ári síðan. Hinn mikli viðskiptaafgangur skýrir líka hversu stöðugt gengi krónu hefur verið þrátt fyrir hvassan mótvind í útflutningsgreinum, fremur litla nýja fjárfestingu erlendra aðila hér á landi og umtalsverð kaup lífeyrissjóðanna á erlendum eignum í fyrra.

Vöruskiptahalli reyndist 99 ma.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði var hins vegar 239 ma.kr. Þá skiluðu frumþáttatekjur 54,7 ma.kr. afgangi en halli á rekstrarframlögum var hins vegar ríflega 22 ma.kr. Athygli vekur að samanlagður afgangur þáttatekna og rekstrarframlaga í fyrra (32 ma.kr.) nam ríflega 1% af VLF en fram til ársins 2013 hafði aldrei mælst afgangur af þessum stærðum samanlagt svo langt aftur sem tölur Seðlabankans ná. Þessi þróun helst í hendur við batnandi erlenda stöðu þjóðarbúsins og má búast við að áfram muni þessir liðir skila hreinum gjaldeyristekjum inn í hagkerfið á komandi árum.

Eignastaða þjóðarbúsins verulega jákvæð þrátt fyrir endurskoðun

Hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð um 667 ma.kr. um síðustu áramót. Það jafngildir 22,5% af VLF og var batinn á lokafjórðungi ársins 84 ma.kr. Þrátt fyrir þann bata mælist erlenda staðan nú heldur lakari en í fyrri tölum Seðlabankans. Ástæðan er umfangsmikil endurskoðun á fyrri tölum um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að helstu ástæður breytingarinnar eru nýjar upplýsingar um skuldir innlendra fyrirtækja, en áhrifa gætir bæði í hlutabréfum og lánaskuldum. Alls námu erlendar eignir 3.900 mö.kr. en erlendar skuldir 3.233 mö.kr. í árslok 2019

Horfur eru á að afgangur verði áfram af utanríkisviðskiptum og erlend staða þjóðarbúsins verði því áfram hagfelld. Þó hefur óvissa um þá þróun til skemmri tíma aukist umtalsvert eftir því sem COVID-19 veiran hefur breiðst út og áhrif hennar á heimshagkerfið hafa vaxið. Ferðaþjónusta stóð undir 35% af öllum útflutningstekjum þjóðarbúsins á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar og verði geirinn fyrir verulegum skakkaföllum í ár vegna veirufaraldursins mun það fljótt segja til sín í viðskiptajafnaðartölunum og gjaldeyrisflæði til og frá landinu.

Enn er þó ekki öll nótt úti enn hvað varðar áhrifin á háannatíma ferðaþjónustunnar og skýrast nærhorfurnar væntanlega talsvert eftir því sem vorar í lofti. Öll él styttir einnig upp um síðir og hvað sem líður horfum fyrir viðskiptaafgang þessa árs eru bjart framundan hvað erlenda stöðu þjóðarbúsins og ytri jöfnuð varðar þar sem orðin er grundvallarbreyting á þessum þáttum frá fyrri tíma skuldasöfnunar og viðvarandi halla á utanríkisviðskiptum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband