Við teljum að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans, þann 5. febrúar næstkomandi. Trúlega mun val nefndarinnar standa milli þess að lækka vexti um 0,5 eða 0,25 prósentur og síðarnefnda niðurstaðan er alls ekki útilokuð þótt við teljum hálfrar prósentu lækkun líklegri
Við spáum lækkun stýrivaxta um 0,5 prósent 5. febrúar
Við spáum því að stýrivextir verði lækkaðir um 0,5 prósent þann 5. febrúar næstkomandi en 0,25 prósenta lækkun er þó einnig möguleg. Hjöðnun verðbólgu, lægri verðbólguvæntingar og merki um minni eftirspurnarspennu í hagkerfinu eru meðal helstu áhrifaþátta á vaxtalækkun. Horfur eru á áframhaldandi lækkun stýrivaxta niður í 6,5% um næstu áramót og nokkra viðbótarlækkun á árinu 2026.
Í ákvörðun nefndarinnar munu trúlega einna helst togast á eftirfarandi þættir:
Til meiri lækkunar:
- Hjöðnun verðbólgu milli vaxtaákvarðana
- Lægri verðbólguvæntingar, sér í lagi til skemmri tíma
- Vísbendingar um betra jafnvægi á vinnumarkaði
- Minnkandi eftirspurnarspenna á íbúðamarkaði
- Hátt raunvaxtastig þrátt fyrir lækkun stýrivaxta undanfarna mánuði
Til minni lækkunar:
- Vísbendingar um að eftirspurn gæti sótt í sig veðrið á næstunni
- Merki um að allnokkur þróttur sé enn í þjóðarbúskapnum
- Óvissa vegna yfirvofandi verkfalla hjá kennurum og möguleg áhrif af samningum við þá á aðhaldsstig opinberra fjármála og framvindu á vinnumarkaði síðar meir
- Sjónarmið um að of hröð lækkun vaxta geti skaðað trúverðugleika peningastefnunnar.
- Sú staðreynd að aðeins 6 vikur líða fram að næstu vaxtaákvörðun í seinni hluta marsmánaðar
Í nóvember ákvað nefndin samhljóða að lækka stýrivextina um 0,5 prósentur. Þá var tekið fram að næsti reglulegi fundur nefndarinnar yrði ekki fyrr en á nýju ári og taldi nefndin að svigrúm væri til að taka stærra skref til lækkunar vaxta og viðhalda um leið hæfilegu aðhaldsstigi til þess að styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og draga úr framleiðsluspennu á komandi misserum. Útlit væri þó fyrir að taumhald peningastefnunnar þyrfti áfram að vera þétt.
Vaxandi meðbyr með hagkerfinu
Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar er farið yfir stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Við áætlum að VLF hafi skroppið saman um 0,5% að raungildi á árinu 2024. Er það mildur samdráttur í flestum skilningi en markar þó hagsveifluskil. Innlend eftirspurn óx þó hóflega í fyrra en óhagstætt framlag utanríkisviðskipta ásamt neikvæðum birgðabreytingum tengt loðnubresti vó að okkar mati heldur þyngra.
Við spáum því að hagvöxtur mælist 2,2% á þessu ári. Vaxandi neysla, sér í lagi einkaneysla, á drýgstan þátt í þeim vexti vegna örari kaupmáttarvaxtar, áframhaldandi fólksfjölgunar og ráðstöfunar á hluta af uppsöfnuðum sparnaði. Jákvætt framlag utanríkisviðskipta ýtir einnig nokkuð undir vöxtinn.
Síðari tvö ár spárinnar eru horfur á heldur hraðari hagvexti eða 2,5% árið 2026 og 2,6% árið 2027. Þar munar mest um að fjármunamyndun tekur við sér á nýjan leik í samhliða lægri vöxtum og aukinni fjárfestingarþörf í útflutningsgreinum. Á sama tíma dregur lítið eitt úr einkaneysluvexti í spá okkar.
Samandregið eru því horfur á að hagvöxtur glæðist jafnt og þétt næstu misserin og að sama skapi verði ekki verulegur slaki í hagkerfinu næstu þrjú ár eða svo. Því eru þar með takmörk sett, gangi spáin eftir, hversu mikið raunvextir geta lækkað áður en peningastefnan fer að ýta undir meiri hagvöxt en samræmist vaxtargetu hagkerfisins næstu árin.
Verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar
Verðbólga mældist 4,6% í janúar samkvæmt nýbirtri mælingu Hagstofu á vísitölu neysluverðs. Verðbólgan hefur því hjaðnað um hálft prósentustig frá vaxtaákvörðuninni í nóvember. Útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum og gerir bráðabirgðaspá okkar ráð fyrir því að verðbólgan verði komin niður í 3,5% í aprílmánuði.
Í nýrri þjóðhagsspá okkar er farið yfir verðbólguhorfur á næstu misserum. Við gerum ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði 3,6% á þessi ári. Stöðugra verðlag erlendis, takmarkað launaskrið og stöðugt gengi krónu stuðla einna helst að þeirri hjöðnun. Á næsta ári gerum við svo ráð fyrir 3,0% verðbólgu að jafnaði en að lengra niður komist hún ekki. Árið 2027 gerum við því ráð fyrir að verðbólga mælist 3,2% að jafnaði.
Stærsti óvissuþáttur til skemmri tíma varðar kjarasamninga fyrir þann hluta vinnumarkaðar sem enn á eftir að skrifa undir. Þar að auki má nefna almenna óvissu sem tengist stjórnarskiptum hér innanlands jafnt sem erlendis. Þá mun þróun á íbúðamarkaði einnig hafa áhrif á verðbólgutaktinn á komandi fjórðungum.
Samkvæmt okkar spá fer verðbólga ekki niður í markmið Seðlabankans á spátímanum en fer engu að síður inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðsins í mars næstkomandi. Um mitt ár gerum við ráð fyrir að verðbólga verði komin mjög nálægt markmiði en til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu að vera nokkuð stöðugt og launaskrið takmarkað.
Peningastefnunefnd Seðlabankans horfir mjög í verðbólguvæntingar við mat á nauðsynlegu aðhaldi peningamála. Frá vetrarbyrjun hafa slíkar væntingar lækkað á nær alla mælikvarða. Sér í lagi hafa væntingar heimila og stjórnenda fyrirtækja til verðbólgu út þennan áratug færst til betri vegar eins og myndin sýnir.
Nýbirt könnun á verðbólguvæntingum markaðsaðila bendir þó til einhvers bakslags í þessari þróun. Þannig hækkuðu 5 ára væntingar þessa hóps úr 3,3% í 3,4% milli mælinga og væntingar um meðalverðbólgu næsta áratuginn hækkuðu úr 3,0% í 3,4% miðað við miðgildi svara. Bæði gildin eru þó lægri en þau voru í fyrrahaust.
Athygli vekur einnig að á sama tíma virðast væntingar þessa hóps um stýrivexti á komandi misserum sem og langtímameðaltal 10 ára ríkisbréfavaxta ekkert hafa breyst og verðbólguálag miðað við væntingar til næstu 5 ára á 10 ára verðtryggðum og óverðtryggðum grunnvöxtum hefur raunar minnkað milli kannana. Trúlega er því heppilegt að túlka ekki niðurstöður þessarar könnunar of sterkt þótt vissulega muni nefndin horfa til þeirra.
Raunvextir eru háir
Þrátt fyrir lækkun stýrivaxta um 0,75 prósentur frá októberbyrjun hafa raunvextir í hagkerfinu lítið gefið eftir og eru enn býsna háir á flesta ef ekki alla mælikvarða. Endurspeglar það þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga sem hefur almennt haldið í við vaxtalækkunina og jafnvel gott betur á suma mælikvarða.
Eins og sést á myndinni eru skammtíma raunvextir á bilinu 3,7% - 4,3% á þá mælikvarða sem við styðjumst við hér. Langtíma raunvextir eru svo í kring um um 2,7% miðað við 10 ára punktinn á vaxtaferli ríkisbréfa. Þá eru verðtryggðir vextir á íbúðalánamarkaði þeir hæstu í rúman áratug. Það er því svigrúm til lækkunar stýrivaxta um þessar mundir án þess að aðhald peningastefnunnar minnki verulega miðað við stöðuna áður en vaxtalækkunarferli Seðlabankans var hleypt af stokkunum síðasta haust.
Áframhaldandi lækkun stýrivaxta fram á næsta ár
Frá síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í nóvember sl. hafa verðbólguvæntingar lækkað á flesta mælikvarða þótt verðbólguálag á markaði og langtímavæntingar markaðsaðila hafi hækkað heldur síðustu vikur. Þá eru vísbendingar um minnkandi framleiðsluspennu, minni verðhækkunarþrýsting á íbúðamarkaði og hægari hækkun launakostnaðar. Á móti bendir vaxandi bjartsýni heimila og fyrirtækja ásamt uppsöfnuðum sparnaði til þess að seigt verði í innlendri eftirspurn. Atvinnuleysi er sömuleiðis ennþá lítið og vinnumarkaðsþátttaka mikil.
Gangi spár okkar um verðbólgu og efnahagsþróun eftir mun vaxtalækkunarferli Seðlabankans væntanlega standa linnulítið fram á mitt ár 2026 eða svo. Vitaskuld eru þó miklar líkur á að einhverjir skrykkir komi á ferlið vegna tímabundinna sveiflna í verðbólgu eða skammtíma efnahagshorfum.
Við spáum því að stýrivextir verði komnir í 6,5% í lok þessa árs. Þá eru horfur á að vaxtalækkunarferlinu ljúki með stýrivexti á bilinu 5,0 – 5,5% þegar komið er fram á árið 2026. Lægra fara vextirnir tæpast nema bakslag verði í efnahagsþróun og/eða verðbólguþróun verði enn hagfelldari en við spáum.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.