Hraustleg hjöðnun ársverðbólgu í janúar

Vísitala neysluverðs lækkaði í janúar og mældist í neðri mörkum þess sem greiningaraðilar væntu. Mælingin ætti að reynast peningastefnunefnd gott veganesti þegar hún kemur saman í næstu viku. Flugfargjöld vógu þyngst til lækkunar á meðan eldsneyti vó þyngst til hækkunar í mánuðinum.


Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,27% í janúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Verðbólga á ársgrundvelli lækkaði fyrir vikið úr 4,8% í 4,6%. Verðbólga án húsnæðis hækkar hins vegar úr 2,8% í 3,0% en ólík þróun á þessa tvo mælikvarða skýrist einna helst af óvæntri lækkun reiknaðrar húsaleigu. Mæling janúarmánaðar er í neðri mörkum þess sem greiningaraðilar væntu en spár þeirra voru á bilinu -0,35% - 0,0% breyting VNV en við spáum 0,0% breytingu vísitölunnar.

Eldsneyti hækkar en flugfargjöld lækka

Eldsneyti skilaði mestu hækkunaráhrifum allra undirliða í mánuðinum en það hækkaði um 3,6% í verði (0,13% áhrif á VNV), að stórum hluta vegna hækkunar kolefnisgjalds og bensín- og olíugjalds. Mestu lækkunaráhrifum skiluðu flugfargjöld til útlanda en þau lækkuðu meira en við áttum von á. Verðlækkunin nam 16,1% (-0,36% áhrif á VNV) en flugfargjöld lækka alla jafna í janúar eftir hækkun í desember. Við áttum von á meiri hækkun reiðhjóla eftir breytingar á virðisaukaskatti á þau, en þau hækkuðu um 13,5% í verði og skiluðu því 0,05% hækkunaráhrifum á VNV.

Reiknuð húsaleiga lækkar þvert á spár en rafmagn og hiti hækka í verði

Helstu tíðindi mælingar mánaðarins eru að okkar mati lækkun reiknaðrar húsaleigu sem sýnir kólnandi leigumarkað. Haldi sú þróun áfram eru meiri líkur á því að verðbólgu næstu mánaða hafi verið ofspáð og að verðbólga komist hraðar og nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans en nýlegar spár gera ráð fyrir. Reiknuð húsaleiga lækkaði um 0,2% (-0,04% áhrif á VNV) en við áttum von á 0,6% hækkun. Þetta er í fyrsta skipti sem reiknuð húsaleiga lækkar frá því að Hagstofan tók upp nýja aðferð við mat á henni síðasta sumar. Kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,48% (0,11% áhrif á VNV) en við höfðum spáð 2,86% hækkun. Í heildina hækkaði því kostnaður húsnæðis, hita og rafmagns um 0,19% (0,06% áhrif á VNV).

Vetrarútsölur skila lækkunaráhrifum að venju

Verð á fötum og skóm lækkaði um 6,9% (-0,26% áhrif á VNV) og vegur því næst þyngst til lækkunar VNV í janúar. Þar að auki lækkaði verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. um 4,6% (-0,23% áhrif á VNV) og verð á raftækjum um 9,5% (-0,11% áhrif á VNV). Heilt yfir voru útsöluáhrifin í takti við okkar væntingar.

Aðrir liðir

Verð á matar- og drykkjarvöru hækkaði um 0,61% í janúar (0,09% áhrif á VNV) sem er um tvöfalt meiri hækkun en við höfðum spáð og tvöfalt meira en hækkun dagvöruvísitölu ASÍ mældist í mánuðinum. Verð á tryggingum hækkaði um 1,65% í heildina en sú hækkun skýrist aðallega af 4,07% verðhækkun húsnæðistrygginga. Sú hækkun er að stórum hluta vegna hækkunar á iðgjaldi til Náttúruhamfaratrygginga Íslands sem tryggingafélögin innheimta en tilkynnt var um verulega hækkun slíkra iðgjalda til að rétta af fjárhag NTÍ í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesi. Verðhækkun húsnæðistrygginga hafði þó minni áhrif en við áttum von á og skilaði í heildina 0,016% áhrifum til hækkunar VNV.

Breytingar á gjaldtöku ríkisins á áfengis- og tóbaksvörum vó til hækkunar í janúar. Í heildina hækkaði verð á áfengi og tóbaki um 3,9% (0,10% áhrif á VNV), þar af hafði áfengi 0,05% áhrif til hækkunar VNV og tóbak 0,05% áhrif til hækkunar.

Næstu mánuðir

Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun ársverðbólgu næstu mánuði og væntum þess að hún fari inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs í mars næstkomandi.

Mestu tíðindin snúa að lækkun reiknaðrar húsaleigu að okkar mati en vísitala HMS fyrir leiguverð lækkaði einnig í desember. Gefur það merki um að leigumarkaður fari kólnandi um þessar mundir og ef sú þróun heldur áfram aukast líkur á því að verðbólgu næstu mánaða sé ofspáð og hún gæti komist hraðar og nær markmiði en gert er ráð fyrir. Við gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:

  • Febrúar: 0,7% hækkun VNV (ársverðbólga 4,0%)
  • Mars: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,6%)
  • Apríl: 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 3,5%)

Um mitt ár gerum við ráð fyrir að verðbólga verði komin mjög nálægt markmiði en til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu að vera nokkuð stöðugt og launaskrið takmarkað, auk fyrrgreindrar þróunar á íbúðamarkaði.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband