Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

„Við erum að hanna okkar eigin framtíð“

Ragna Sara Jónsdóttir stofnaði hönnunarfyrirtækið Fólk Reykjavík með sjálfbærni að leiðarljósi.


Við erum að hanna okkar eigin framtíð og höfum mikið um það að segja hvernig hún lítur út.

Þetta segir Ragna Sara Jónsdóttir, eigandi og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Fólk Reykjavík, í Reynslubankanum á vef Íslandsbanka. Þar miðla stjórnendur lítilla og stórra fyrirtækja af reynslu sinni og deila áskorunum í fyrirtækjarekstri.

Ragna Sara stofnaði Fólk Reykjavík árið 2015 en fyrsta vara fyrirtækisins kom á markað í lok árs 2017. Stefna fyrirtækisins er að ýta undir hönnun og framleiðslu sem styður sjálfbærni og hringrás hráefna auk þess að vera stökkpallur fyrir íslenska hönnuði á erlendri grundu. Vörur fyrirtækisins eru hannaðar eftir sérstökum skilyrðum, meðal annars með náttúrulegum og endurunnum hráefnum og án plasts.

Ragna Sara hafði um langt skeið starfað í sjálfbærniráðgjöf fyrir fyrirtæki og stofnanir.

„Ég vildi fylgja eigin ráðleggingum og fylgja því eftir hvernig vörur gætu orðið meira sjálfbærar og umhverfisvænar. Mér fannst mig sem neytanda skorta valkosti á vörum sem væru þróaðar og hannaðar með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Ragna Sara.

Reynslubankinn - Ragna Sara hjá Fólki


Ragna Sara segir sögu Fólks Reykjavíkur í Reynslubankanum, þætti Íslandsbanka um reynslu og áskoranir í rekstri.

Í Reynslubankanum fjallar hún einnig um mikilvægi þess að virkja sköpunarkraftinn fyrir mikilvægi íslenskrar hönnunar. 

„Við erum að hefja þróun, ferli, eitthvað sem er ekki til. Við erum að taka stjórnina í okkar eigin hendur. Við erum að hanna okkar eigin framtíð og höfum svo sannarlega eitthvað að segja til um það hvernig hún mun líta út,“ segir Ragna Sara og bætir því við að það sé þörf á því að fá virka hönnuði og hönnunarhugsun inn í samfélagið í dag.

„Við erum svo heppin að við erum ekki með sérsaka hönnunararfleið sem að við þurfum að standast heldur erum við með frítt blað og við getum gert svo margt. Við getum ekki bara gert samfélagið okkar betra heldur getum við líka virkjað okkur sjálf til að hafa hlutina eins og við viljum.“

Þá segir hún að hennar besta ráðlegging til annarra sé að hafa trú á eigin hugmyndum.

„Það er svo margt sem gerist á leiðinni að maður getur ekki ímyndað sér það. Og það er svo margt sem er ekki að ganga upp en á endanum skiptir það litlu máli, því hindranir eru bara til að komast yfir þær.“