Við erum að hanna okkar eigin framtíð og höfum mikið um það að segja hvernig hún lítur út.
Þetta segir Ragna Sara Jónsdóttir, eigandi og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Fólk Reykjavík, í Reynslubankanum á vef Íslandsbanka. Þar miðla stjórnendur lítilla og stórra fyrirtækja af reynslu sinni og deila áskorunum í fyrirtækjarekstri.
Ragna Sara stofnaði Fólk Reykjavík árið 2015 en fyrsta vara fyrirtækisins kom á markað í lok árs 2017. Stefna fyrirtækisins er að ýta undir hönnun og framleiðslu sem styður sjálfbærni og hringrás hráefna auk þess að vera stökkpallur fyrir íslenska hönnuði á erlendri grundu. Vörur fyrirtækisins eru hannaðar eftir sérstökum skilyrðum, meðal annars með náttúrulegum og endurunnum hráefnum og án plasts.
Ragna Sara hafði um langt skeið starfað í sjálfbærniráðgjöf fyrir fyrirtæki og stofnanir.
„Ég vildi fylgja eigin ráðleggingum og fylgja því eftir hvernig vörur gætu orðið meira sjálfbærar og umhverfisvænar. Mér fannst mig sem neytanda skorta valkosti á vörum sem væru þróaðar og hannaðar með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Ragna Sara.