Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vextir lækka í efnahagslægð

Við spáum því að Seðlabankinn lækki stýrivexti um 0,50 prósentur við næstu vaxtaákvörðun þann 20. maí næstkomandi. Gangi spáin eftir verða meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, 1,25%.


Samantekt

  • Spáum lækkun stýrivaxta um 0,5 prósentur þann 20. maí

  • Stýrivextir verða 1,25% og hafa lækkað um 1,75 prósentur frá ársbyrjun

  • Ekki útilokað að fleiri og smærri lækkunarskref verði stigin

  • Efnahagshorfur dökkar til skemmri tíma og verðbólguhorfur allgóðar

  • Frekari lækkun vaxta líkleg síðar á árinu

Við spáum því að Seðlabankinn lækki stýrivexti um 0,50 prósentur við næstu vaxtaákvörðun þann 20. maí næstkomandi. Gangi spáin eftir verða meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, 1,25%. Ekki er þó útilokað að smærra 0,25 prósentu lækkunarskref verði stigið í maí en í því tilfelli eigum við von á öðru vaxtalækkunarskrefi á komandi vikum.

Það sem af er árinu 2020 hafa stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir um 1,25 prósentur.  Meginvextir bankans eru nú 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Samhliða hefur bankinn rýmkað lausafjárskilyrði og minnkað kvaðir á banka hvað varðar eigið fé og veðhæfi vegna lánafyrirgreiðslu. Stærstu vaxtalækkunarskrefin voru stigin í marsmánuði þegar vextir voru lækkaðir um samtals eina prósentu á tveggja vikna tímabili í kjölfar þess að COVID-19 faraldurinn og áhrif hans breytti skammtímahorfum í hagkerfinu snarlega til hins verra.

Í fundargerð frá seinni vaxtaákvörðunarfundinum í mars kom fram að peningastefnunefnd Seðlabankans var einhuga um að lækka vexti um 0,5 prósentur í því skyni að slaka á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi versnandi efnahagshorfa í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þeirra umfangsmiklu aðgerða sem gripið hefði verið til hérlendis og erlendis til að hefta frekari útbreiðslu hennar. Sami einhugur var raunar einnig innan nefndarinnar um fyrri vaxtalækkun marsmánaðar.

Frá seinni vaxtalækkuninni í mars eru nú liðnir tæplega 2 mánuðir og hefur peningastefnunefndin haft fremur hægt um sig á því tímabili. Hins vegar hafa skammtímahorfur í efnahagslífinu dökknað jafnt og þétt á sama tíma og verðbólga og verðbólguhorfur hafa haldist tiltölulega stöðug. Það er því að okkar mati full ástæða til þess að stíga frekara skref í áttina að auknum slaka í peningastefnunni.

Djúp en vonandi skammvinn efnahagslægð skollin á

COVID-19 faraldurinn hefur gerbreytt efnahagshorfum til skemmri tíma. Ljóst virðist að efnahagssamdráttur verður umtalsverður á árinu 2020 en í janúar sl. spáði Greining Íslandsbanka 1,4% hagvexti fyrir árið. Ný þjóðhagsspá Greiningar hljóðar upp á 9,2% samdrátt í ár.

Fyrirsjáanlegt er að tekjur ferðaþjónustunnar verða innan við helmingur af tekjum síðasta árs. Einnig mun vöruútflutningur dragast nokkuð saman vegna minni álútflutnings og hnökra á flutningum með ferskan fisk og fleiri vörur vegna COVID. Einkaneysla mun skreppa talsvert saman vegna stóraukins atvinnuleysis, tímabundinna hamla á sumar tegundir neyslu og varkárni neytenda á óvissutímum.

Líklegt er að fjárfesting í einkageiranum dragist verulega saman. Mótvægisaðgerðir hins opinbera munu hins vegar leiða til aukinnar opinberrar fjárfestingar.

Innflutningur er líklegur til að dragast umtalsvert saman vegna minni ferðalaga erlendis, samdráttar í innlendri eftirspurn og áhrifa veikingar krónu á innbyrðis spurn eftir innflutningi og innlendum vörum/þjónustu.

Hversu hratt faraldurinn gengur niður er lykilforsenda fyrir því hversu hraður efnahagsbatinn verður. Verði faraldurinn í rénun eftir mitt ár eru góðar horfur á myndarlegum hagvexti á seinni tveimur árum spátímans. Ef faraldurinn ílendist eða viðbrögð við honum á borð við ferðatakmarkanir og samkomuskorður teygjast fram á næsta ár er viðbúið á efnahagsdýfan verði talsvert dýpri og langvinnari.

Horfur á vinnumarkaði eru býsna dökkar til skemmri tíma litið. Líklega nær atvinnuleysi sögulegum hæðum í kring um mitt árið í námunda við 13% en í kjölfarið væntum við þess að atvinnuleysið fari að hjaðna. Útlit er fyrir að atvinnuleysi verði að jafnaði nærri 10% af vinnuafli á yfirstandandi ári en lækki í tæp 6% að meðaltali á næsta ári.

Útlit fyrir hóflega verðbólgu næstu misserin

Frá áramótum hefur gengi krónu lækkað um tæp 14% gagnvart helstu gjaldmiðlum. Veikingin átti sér að mestu stað í mars og apríl eftir tiltölulega stöðuga krónu á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Þróuninni það sem af er ári svipar til annarra gengislækkunarskeiða á undanförnum árum. Að undanskildu 2008 þegar hrun varð á gjaldeyrismarkaði virðist takturinn gjarnan vera sá að gengið finnur sér nýtt tímabundið jafnvægi í grennd við 10-15% veikari gildi en giltu fyrir veikingarhrinuna.

Að öðru óbreyttu myndi gengislækkun á borð við þá sem orðin er frá áramótum þýða að verðbólga fari á skrið. En verðbólga hefur nánast ekki haggast undanfarið og mældist 2,2% í apríl. Ástæðan fyrir því að verðbólga hefur ekki farið á skrið er að ýmsir aðrir kraftar vega á móti veikingu krónunnar. Olíuverð hefur lækkað heilmikið, hægt hefur á hækkunum íbúðaverðs auk þess sem eftirspurn hefur minnkað sem dregur úr verðþrýstingi.

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu næsta kastið. Teljum við að verðbólga muni haldast rétt undir markmiði Seðlabankans á spátímanum, mælast að meðaltali 2,2% á þessu ári, 2,1% að meðaltali á næsta ári en aukast lítillega árið 2022 og mælast að meðaltali 2,3%.

Verðbólguvæntingar traustar

Verðbólguvæntingar virðast heldur ekki hafa haggast að ráði síðustu mánuði þrátt fyrir sviptingar í krónu og efnahagslífinu. Við síðustu vaxtaákvörðun um miðjan marsmánuð stóð 5 ára verðbólguálag á markaði í 2,4% og 10 ára álagið var 2,7%. Þegar þetta er ritað mælist 5 ára verðbólguálagið 2,1% og hið síðarnefnda 2,4%.

Svipaða sögu má segja af verðbólguvæntingum markaðsaðila. Seðlabankinn birti á dögunum niðurstöður úr væntingakönnun meðal þeirra. Ef miðað er við miðgildi svara vænta markaðsaðilar að jafnaði 2,3% verðbólgu það sem eftir lifir þessa árs og lengri tíma væntingar eru í 2,5% markmiði Seðlabankans. Þessi ró markaðsaðila yfir verðbólguhorfum tengist væntanlega þeirri skoðun þeirra að gengi krónu verði á svipuðum slóðum og nú að ári liðnu. Þeirri skoðun deilum við raunar eins og fram kemur hér að ofan.

Það er því ekki að sjá að trúverðugleika peningastefnunnar sé nein sérstök hætta búin þessa dagana þótt hann slaki á peningastefnuklónni en þess má geta að samkvæmt miðgildi svara bjuggust markaðsaðilar við 0,50 prósentu stýrivaxtalækkun fyrir júnílok.

Þörf á lækkun langtímavaxta

Þrátt fyrir prósentu lækkun stýrivaxta frá marsbyrjun hafa langtímavextir ekki lækkað verulega enn sem komið er. Ávöxtunarkrafa lengstu óverðtryggðu ríkisbréfaflokkanna er nú í kring um 2,6% og raunkrafa lengsta verðtryggða flokksins er 0,3%. Til samanburðar var fyrrnefnda krafan 2,9% í marsbyrjun og sú síðarnefnda 0,4%.

Seðlabankinn lýsti því yfir í apríl síðastliðnum að hann hyggðist kaupa ríkisbréf fyrir allt að 150 ma.kr. á árinu í því skyni að halda aftur af langtímavöxtum og tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið. Þar af gætu kaup bankans á öðrum ársfjórðungi numið allt að 20 mö.kr. Nokkur bið hefur orðið á því að bankinn hæfi þessi kaup en þeim var loks ýtt úr vör í fyrri hluta maímánaðar þótt umfangið sé lítið enn sem komið er.

Okkur virðist ekki vanþörf á því að þoka vaxtastiginu á lengri endanum niður, enda langir raunvextir enn jákvæðir hvort sem horft er til óverðtryggða eða verðtryggða vaxtaferilsins. Er Ísland hvað það varðar í æ fámennari hópi ríkja þar sem lakar skammtímahorfur og aukin magnbundin íhlutun seðlabanka hefur víða ýtt langtímavöxtum í sögulegar lægðir undanfarið.

Að okkar mati væri blanda af lægri stýrivöxtum og talsvert umfangsmeiri kaupum ríkisbréfa á markaði næsta kastið til þess fallin að koma langtímavaxtastiginu nær því stigi sem hentar hagkerfinu á COVID-tímum.

Fleiri lækkunarskref í farvatninu?

Við teljum að vextir eigi eftir að lækka frekar áður en langt um líður og gerum ráð fyrir því að meginvextir verði komnir niður í 0,75% fyrir septemberlok. Í kjölfarið spáum við að stýrivöxtum verði haldið í 0,75% út árið 2020 en taki að hækka að nýju á árinu 2021 samfara batnandi efnahagshorfum. Vextirnir verða þó að okkar mati lágir í sögulegu ljósi út spátímann. Þróun COVID-faraldursins og það hversu hratt hagkerfið réttir úr kútnum mun þó ráða miklu um hversu fljótt og hve mikið vextirnir hækka á nýjan leik.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband