Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vex kaupmáttur áfram þrátt fyrir COVID?

Kaupmáttur launa hefur undanfarið vaxið þrátt fyrir vaxandi blikur á lofti á vinnumarkaði. Ráðstöfunartekjur margra munu þó væntanlega minnka að raungildi á komandi fjórðungum þrátt fyrir að hækkun samningsbundinna launataxta haldi í við verðbólgu. Reynslan sýnir að ráðstöfunartekjur skreppa meira saman að raungildi í niðursveiflum en laun miðað við launavísitölu Hagstofunnar.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Kaupmáttarvöxtur talsverður á fyrsta ársfjórðungi..

Hagstofan birti nýlega tölur um vísitölu launa og kaupmáttar launa fyrir marsmánuð. Samkvæmt þeim var kaupmáttarþróun launamanna almennt með ágætum í aðdraganda COVID-19 skellsins á efnahagslífið. Í mars síðastliðnum höfðu laun að jafnaði hækkað um 4,9% frá sama mánuði árið 2019 og hefur árstakturinn í launaþróuninni í grófum dráttum verið svipaður allt frá miðju síðasta ári.

Með hjaðnandi verðbólgu hefur hins vegar bætt í hækkunartakt kaupmáttar. Hafði kaupmáttur launa vaxið um 2,8% í marsmánuði frá sama mánuði ári fyrr. Á fyrsta fjórðungi ársins nam kaupmáttarvöxturinn milli ára 2,7% og hefur hann ekki verið hraðari frá lokafjórðungi ársins 2018.

..en einkaneysla líkast til að skreppa saman

Sögulega hefur hraðari kaupmáttarvöxtur oftast haft í för með sér meiri einkaneysluvöxt. Það virðist þó ekki vera raunin þessa dagana. Ef marka má raunþróun kortaveltu, sem er einn besti hátíðnihagvísirinn sem við höfum fyrir þróun einkaneyslunnar, drógu íslensk heimili allnokkuð úr neyslu sinni á fyrsta fjórðungi ársins. Kortavelta skrapp saman að raungildi um tæplega 4% á fyrsta fjórðungi og skrifast sú þróun á skarpan samdrátt í marsmánuði eftir hægan vöxt á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Þarna er vitaskuld um að ræða áhrif COVID-faraldursins á væntingar og neyslumöguleika landsmanna líkt og við fjölluðum um í nýlegu Korni.

Ráðstöfunartekjur fá þyngra högg en laun í niðursveiflu

Áhugavert er að skoða samhengi kaupmáttarþróunar og hagsveiflunnar nú þegar skörp skil eru orðin í efnahagsþróun á aðeins nokkrum vikum og útlit er fyrir umtalsverðan efnahagssamdrátt þetta árið. Ólíkt fyrri samdráttarskeiðum eru raunar allgóðar líkur á að verðbólga fari ekki úr böndunum að þessu sinni og höggvi þannig jafn þungt skarð í kaupmátt og gerðist til að mynda bæði í upphafi tíunda áratugar 20. aldar og annars áratugar hinnar 21. Samkvæmt gildandi kjarasamningum á stærstum hluta vinnumarkaðar hækkuðu laun samkvæmt útreikningum okkar að meðaltali um ríflega 4% og var hækkunin hlutfallslega meiri eftir því sem launin voru lægri í ársbyrjun. Við teljum að verðbólga muni ekki fara upp í efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins á næstunni. Þau mörk eru einmitt 4% og felur það mat þá einnig í sér að kaupmáttur launa, eins og Hagstofan reiknar hann, muni a.m.k. ekki rýrna þetta árið.

Hins vegar segir vísitala kaupmáttar ekki alla söguna um fjárhagslega burði heimilanna frá einum tíma til annars. Þótt allgóð fylgni sé á heildina litið milli þróunar vísitölu kaupmáttar og annarra mælikvarða á kaupmátt á borð við raunþróun atvinnutekna og ráðstöfunartekna er það samband talsvert veikara í niðursveiflum. Ástæðurnar eru til að mynda að fólk sem missir vinnuna lengur en um mjög skamma hríð verður óhjákvæmilega fyrir talsverðu höggi á ráðstöfunartekjur þegar atvinnuleysisbætur taka við af launatekjum. Auk þess er gjarnan dregið úr starfshlutfalli, yfirvinnu og ýmis konar álagsgreiðslum þegar harðara er í ári og síðast en ekki síst verða eignatekjur ansi rýrar í roðinu þegar gefur á bátinn í efnahagslífinu.

Hratt versnandi horfur á vinnumarkaði

Ljóst má vera af fréttaflutningi síðustu vikna að vinnumarkaður tekur óvenju hröðum breytingum til hins verra þessa dagana. Samkvæmt nýlegri skýrslu Vinnumálastofnunar fór heildaratvinnuleysi úr 5,0% í febrúarmánuði í 9,2% í mars. Þar af voru raunar 3,5% vegna minnkaðs starfshlutfalls en 5,7% vinnuaflsins voru skráð í umsóknum um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin spáir því að hefðbundið atvinnuleysi muni mælast tæplega 7% í aprílmánuði en til viðbótar verði minnkað starfshlutfall til þess að auka skráð atvinnuleysi um ríflega 10%. Þetta jafngildir því að u.þ.b. 15.000 manns verði skráðir atvinnulausir í aprílmánuði og um 33.000 manns verði í skertu starfshlutfalli.  

Það liggur því fyrir að verulegur hluti launafólks er að missa spón úr aski hvað ráðstöfunartekjur varðar þessa dagana hvað sem þróun kaupmáttar launa miðað við samningsbundna taxta líður. Munurinn á þróun kaupmáttar launa samkvæmt vísitölu Hagstofunnar og raunþróun á ráðstöfunartekjum heimilanna gæti því orðið með meira móti á næstu fjórðungum og reyndar er líklegt að hagur margra heimila muni tímabundið skerðast þrátt fyrir að launataxtar haldi að jafnaði í við verðbólgu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband