Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Talsvert högg á einkaneyslu í vændum

Íslendingar mælast mjög svartsýnir til stöðu og framtíðarhorfa í efnahags- og atvinnulífinu. Einnig sýna nýbirtar kortaveltutölur töluverðan samdrátt í veltu korta bæði innanlands og erlendis. Frá því að COVID-19 breiddist út hér á landi hafa horfur ásamt versnað verulega og benda væntingar landsmanna ásamt kortaveltu til þess að talsvert högg verði á einkaneyslu á þessu ári.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Nýlega birt Væntingavísitala Gallup (VVG) lækkaði um 18 stig frá síðasta mánuði og mælist nú 44,4 stig. Vísitalan hefur ekki mælst lægri í rúm 9 ár, eða frá því í október 2010. Frá febrúarmánuði, þegar COVID-19 fór að breiðast út hér á landi, hefur vísitalan lækkað um heil 31 stig. Veiran og þær takmarkanir sem settar hafa verið á um allan heim vegna hennar hafa leitt til mikilla raskana í íslensku samfélagi og þar með talið atvinnu- og efnahagslífi. Það kemur því ekki á óvart að hljóðið í landsmönnum er þungt um þessar mundir.

Mat á núverandi ástandi hríðlækkar

Allar undirvísitölur VVG lækka á milli mánaða og eru undir 100 stiga jafnvægisgildinu. Undirvísitalan fyrir mat á núverandi ástandi hefur tekið skörpustu dýfuna frá því að COVID-19 greindist hér á landi. Í febrúar stóð undirvísitalan í 83,5 stigum en mældist 23,4 stig nú í apríl. Vísitalan hefur því lækkað um 72% síðastliðna tvo mánuði. Þá lækkar mat á atvinnuástandi næstmest milli mánaða og mælist 48,4 stig. Báðar þessar undirvísitölur hafa ekki verið lægri frá árinu 2011.

Í grunnsviðsmynd nýlegrar hagspár Alþjóðgjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að landsframleiðsla á Íslandi (VLF) dragist saman um 7,2% í ár. Ljóst er að skellurinn verður harður fyrir ýmsar atvinnugreinar, ekki síst á ferðaþjónustugreinar og þær þjónustugreinar sem ekki hafa fengið að starfa eftir að samkomubann var sett á. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að atvinnuleysi hér á landi muni aukast verulega í ár og mælast að jafnaði 8% af vinnuafli. Það má því segja að þessi mikla dýfa í væntingum landsmanna sé á rökum reistar ef spá sjóðsins gengur eftir.

Mikill samdráttur í kortaveltu

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans um kortaveltu gætir áhrifa COVID-19 bersýnilega í tölunum. Velta innlendra greiðslukorta nam alls tæplega 72 ma.kr. í mars síðastliðnum. Það jafngildir 16% minni veltu en á sama tíma ári áður og 9% samdrætti í veltu frá febrúarmánuði. Bæði velta debetkorta og kreditkorta skrapp töluvert saman á milli ára. Velta debetkorta skrapp saman um 18,5% og velta kreditkorta um 13,5%.

Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga skrapp velta greiðslukorta heimila saman um 17,5% í marsmánuði frá sama mánuði árið 2019. Slíkur samdráttur hefur ekki sést í yfir 10 ár, eða frá kreppuárinu 2009. Samdráttur í veltu innanlands var tæp 12% og samdráttur í veltu utan landssteinanna var um 45%. Ljóst er að ferðabann stjórnvalda um allan heim hafi haft mikil áhrif á ferðalög landans erlendis sem endurspeglast í gífurlegum samdrætti í erlendri kortaveltu.

Velta erlendra greiðslukorta hér á landi í mars nam 6,2 m.a. kr. sem jafngildir 66% lækkun milli ára. Ætla má að COVID-19 muni koma til með að lita kortaveltutölur næstu mánuðina í enn meiri mæli þar sem ferðatakmarkanir og samkomubann sem sett var á í marsmánuði mun lita allan aprílmánuð og líklega næstu mánuði á eftir.  

 Einkaneysla verður fyrir höggi

Þróun bæði kortaveltu og væntingavísitölu eru gagnlegir hagvísar fyrir mat á þróun einkaneyslu. Ljóst er að ferðatakmarkanir og samkomubann mun hafa gífurleg áhrif á neyslu næstu misserin og má sjá þess merki í bæði væntingum landsmanna sem og kortaveltutölum. Bæði væntingar og kortaveltutölur hafa ekki gefið svartari mynd af þróun einkaneyslu í nærri áratug. Neysla er almennt viðkvæm fyrir óvissu og eru íslensk heimili augljóslega farin að halda að sér höndum á þessum miklu óvissutímum.

Þróun á einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Síðustu ár hefur einkaneysla vegið þungt til hagvaxtar og skýrt um helming af landsframleiðslunni. Einkaneysla mun óumflýjanlega verða fyrir barðinu á COVID-19 og gerum við ráð fyrir talsverðum samdrætti í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi. Óvissan í kjölfarið snýr að því hversu lengi takmarkanir munu vara og hvenær við sjáum ljós við enda ganganna.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband