Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verulegur viðskiptahalli og rýrari erlend eignastaða á fyrri árshelmingi

Viðskiptahalli var talsverður á fyrri helmingi ársins enda var ferðaþjónustan fyrst að ná vopnum sínum við lok tímabilsins á sama tíma og vöruinnflutningur og utanlandsferðir landsmanna voru með mesta móti. Erlend staða þjóðarbúsins rýrnaði einnig talsvert á fyrri árshelmingi. Erlenda staðan er þó enn sterk og horfur eru á batnandi viðskiptajöfnuði á seinni árshelmingi.


Viðskiptahalli við útlönd var ríflega 39 ma.kr. á öðrum fjórðungi þessa árs samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það er næstmesti viðskiptahalli sem mælst hefur frá fjármálakreppu 2008, ef frá eru talin áhrif bókhalds föllnu bankanna 2009-2015. Hallinn var þó enn meiri á upphafsfjórðungi ársins þegar hann mældist 45 ma.kr. Þegar lá fyrir að halli á vöruskiptum við útlönd var ríflega 40 ma.kr. en þjónustuviðskipti skiluðu rúmlega 33 ma.kr. afgangi á tímabilinu. Það sem við bætist í gögnum Seðlabankans nú eru tölur um jöfnuð frumþáttatekna, sem var neikvæður um rúma 22 ma.kr., og rekstrarframlög milli landa þar sem halli var tæplega 10 ma.kr.

Methalli á frumþáttatekjum endurspeglar hækkandi álverð

Halli á frumþáttatekjum á öðrum ársfjórðungi var sá mesti frá upphafi í gögnum Seðlabankans, ef frá eru talin reiknuð vaxtagjöld föllnu bankanna frá hruni fram að uppgjöri þeirra, en þau vaxtagjöld komu að mestu leyti aldrei til greiðslu. Í sem stystu máli endurspeglar jöfnuður frumþáttatekna launagreiðslur og fjármagnstekjur eða -gjöld á milli landa. Þessi mikli halli skýrist að mestu leyti af góðri afkomu fyrirtækja í erlendri eigu, sér í lagi álverunum þremur. Verðþróun á áli var býsna hagfelld fyrirtækjunum á öðrum fjórðungi þar sem áhrif stríðsins í Úkraínu og samdrætti í framleiðslu Kína þrýstu álverði hratt upp.

Í sem stystu máli kemur rekstur álveranna þannig fram í greiðslujafnaðarbókhaldinu að útflutningur áls er færður til bókar í vöruskiptatölunum að frádregnum aðföngum á borð við súrál og rafskaut. Hagnaður eða tap hinna erlendu eigenda kemur svo fram í jöfnuði frumþáttatekna en mismunurinn er sá virðisauki sem eftir verður hérlendis til dæmis í formi launa, vöru- og þjónustukaupa, opinberra gjalda og síðast en ekki síst kaupa á raforku.  

Eins og sést af myndinni hefur fylgni milli álverðs og jöfnuðar þáttatekna verið allsterk undanfarin ár. Álverð hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði og er nú orðið lægra en það var fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Líklegt er að sú þróun muni endurspeglast í verri afkomu álvera og þar með hagfelldari þáttatekjujöfnuði, en vitaskuld munu útflutningstekjur af áli minnka að sama skapi.

Batnandi utanríkisviðskipti í pípunum

Á fyrri helmingi ársins var viðskiptahalli 84 ma.kr. samanborið við 52 ma.kr. allt síðasta ár. Raunar er rétt að taka fram að Seðlabankinn endurskoðaði talsvert hressilega greiðslujafnaðartölur undanfarinna fjórðunga við birtinguna nú. Ekki síst var þar um að ræða endurmat á jöfnuði þáttatekna þar sem halli reyndist að jafnaði minni en áður var talið. Viðskiptahalli í fyrra var því 1,6% af vergri landsframleiðslu (VLF) en hafði áður verið metinn 2,8%. Ekki er loku fyrir það skotið að framangreindar tölur fyrir undangenginn árshelming verði einnig endurskoðaðar þegar fram í sækir.

Horfur eru á viðsnúningi í utanríkisviðskiptum á seinni helmingi ársins. Tekjur ferðaþjónustunnar vaxa hröðum skrefum þessa mánuðina og nálgast það sem við áttum að venjast fyrir faraldur. Þjónustuafgangur verður því væntanlega verulegur á þriðja fjórðungi ársins og líklega einnig talsverður á þeim fjórða, þar sem gjarnan bætast við talsverðar tekjur af útflutningi hugverka. Þá er verð á sjávarafurðum hátt. Við spáðum í maí að viðskiptajöfnuður yrði í stórum dráttum nærri jafnvægi á árinu í heild. Tölurnar nú benda til þess að sú spá kunni að reynast í bjartsýnni kantinum en eftir sem áður eru horfur á talsvert hagfelldari viðskiptajöfnuði á komandi fjórðungum en raunin hefur verið undanfarið.

Rýrari erlend eignastaða eftir lækkun á erlendum mörkuðum

Seðlabankinn birti einnig tölur um erlendar stöðu þjóðarbúsins í júnílok samhliða greiðslujafnaðartölunum. Erlendar eignir að frádregnum erlendum skuldbindingum reyndust 863 ma.kr. sem samsvarar tæplega 25% af VLF. Frá áramótum hefur hreina erlenda staðan rýrnað um sem nemur 15% af VLF en hún náði hámarki í ríflega 40% af VLF um síðustu áramót. Staðan er engu að síður býsna sterk í sögulegu ljósi og til vitnis um mikinn viðsnúning í ytra jafnvægi þjóðarbúsins eftir áratugalanga söfnun erlendra skulda fram að fjármálahruninu 2008.

Eins og sjá má af myndinni skýrist rýrari erend eignastaða fyrst og fremst af minni hreinni eign hlutabréfa og hlutdeildarskírteina. Sú þróun endurspeglar að mestu verulega lækkun á erlendum verðbréfamörkuðum á fyrri árshelmingi. Sem dæmi má nefna að MSCI heimsvísitala hlutabréfa lækkaði um tæp 20% á fyrri hluta ársins. Mun stærri hluti erlendra eigna er í formi hlutafjár en raunin er með erlendar skuldbindingar þar sem lánaskuldir gagnvart erlendum lánardrottnum og innlend skuldabréf í erlendri eigu vega þyngra.

Betri tíð með blóm í haga?

Þótt erlenda staðan hafi rýrnað allnokkuð og viðskiptahalli verið umtalsverður á fyrri helmingi ársins er staðan þó enn býsna góð og horfurnar fremur bjartar. Sem fyrr segir má gera ráð fyrir að viðskiptajöfnuður verði mun hagstæðari á seinni helmingi ársins en þeim fyrri og fyrr eða síðar kemur að því að erlendir hlutabréfamarkaðir taka að hækka á ný.

Það er því líklegt að okkar mati að erlenda staðan muni heldur batna en hitt þegar fram í sækir. Traust erlend staða þjóðarbúsins og þokkalegt ytra jafnvægi er frumforsenda fyrir því að sæmilegur stöðugleiki ríki í litlu opnu hagkerfi eins og því íslenska, sem að auki býr við einn smæsta fljótandi gjaldmiðil heims. Sem betur fer virðast litlar líkur á að veruleg breyting verði til hins verra að þessu leytinu þrátt fyrir umrót á alþjóðamörkuðum sem og í hagkerfum heims.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband