Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mikill bati á þjónustuviðskiptum við útlönd á vordögum

Hressilegur tekjuvöxtur í ferðaþjónustu er helsta skýring mikils bata í þjónustujöfnuði á öðrum fjórðungi ársins. Afgangur af þjónustuviðskiptum vó að stærstum hluta upp verulegan vöruskiptahalla á tímabilinu. Horfur eru á áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum á komandi fjórðungum.


Afgangur af þjónustujöfnuði var 33,3 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Er það tæplega 10 ma.kr. meiri afgangur en á sama tíma í fyrra og næstmesti þjónustuafgangur sem mælst hefur í einum fjórðungi frá því faraldurinn skall á í upphafi árs 2020. Útflutt þjónusta nam tæplega 184 ma.kr. og jókst útflutningurinn í krónum talið um nærri 80% á milli ára. Á móti keyptu Íslendingar þjónustu erlendis frá fyrir ríflega 150 ma.kr. sem jafngildir 90% vexti í krónum talið milli ára.

Hagfelldan þjónustujöfnuð má að mestu þakka miklum afgangi af þjónustu tengdri samgöngum, ferðalögum og flutningum. Var afgangur tengdur samgöngum og flutningum rúmir 31 ma.kr. en afgangur vegna ferðalaga var tæpir 29 ma.kr. Á móti vó að 22 ma.kr. halli var á þjónustuviðskiptum sem falla undir flokkinn Önnur viðskiptaþjónusta hjá Hagstofunni. Má þar nefna rannsókna- og þróunarþjónustu, tækniþjónustu svo og sérfræði- og ráðgjafarþjónustu ýmiskonar. Þá var tæplega 5 ma.kr. halli á menningar- og afþreyingartengdri þjónustu. Loks má nefna að jöfnuður vegna gjalda og tekna vegna notkunar hugverka var neikvæður um ríflega milljarð en sá liður er býsna sveiflukenndur og hefur gjarnan skilað myndarlegum afgangi á lokafjórðungi hvers árs.

Tekjur ferðaþjónustunnar taka hressilega við sér

Tekjur af erlendum ferðalöngum hafa tekið hressilega við sér eftir að áhrif faraldursins á ferðavilja og -getu tóku að hjaðna. Alls voru tekjur af erlendum ferðamönnum tæplega 115 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi og hafa þær tekjur ekki verið meiri frá háönn ferðaþjónustunnar árið 2019. Ferðagleði landsmanna hefur hins vegar einnig vaxið hröðum skrefum upp á síðkastið og útgjöld tengd utanlandsferðum Íslendinga voru ríflega 59 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins. Er það með því mesta sem slík útgjöld hafa verið í einum fjórðungi svo langt aftur sem tölur Hagstofunnar ná. Á heildina litið skiluðu viðskipti tengd ferðalögum milli landa því ríflega 55 mö.kr. afgangi sem er næstmesti afgangur á þessum lið frá byrjun faraldurs.

Utanríkisviðskipti á batavegi

Samantekið var tæplega 7 ma.kr. halli á vöru og þjónustuviðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi ársins. Til samanburðar var slíkur halli rúmir 32 ma.kr. á sama tíma 2021 og var því batinn í vöru- og þjónustuviðskiptum verulegur milli ára. Sem fyrr segir var afgangur af þjónustujöfnuði ríflega 33 ma.kr. á tímabilinu. Á móti var halli á vöruskiptum rúmir 40 ma.kr. á sama tíma. Mikill gangur hefur verið í innflutningi tengdum neyslu og fjárfestingu það sem af er ári og jókst vöruinnflutningur í krónum talið um tæp 23% á öðrum fjórðungi frá sama tíma í fyrra. Vöxtur vöruútflutnings var þó enn myndarlegri og reyndist hann 38% meiri í krónum talið á öðrum fjórðungi en á sama tíma í fyrra.

Tölur Hagstofunnar bera skýrt með sér hve bati ferðaþjónustunnar hefur verið myndarlegur undanfarna fjórðunga eftir tvö mögur faraldursár. Eins og sést af myndinni tók vöruútflutningur aftur við keflinu sem burðarás útflutningstekna eftir að faraldurinn hafði drepið ferðaþjónustuna í dróma að stórum hluta. Hlutur ferðaþjónustu í gjaldeyrissköpun er hins vegar óðum að ná fyrri hlutdeild. Á öðrum fjórðungi ársins aflaði hún ríflega fjórðungi allra útflutningstekna. Til samanburðar var hlutur áls og álafurða tæp 24% og hlutur sjávarafurða tæplega 22% á þennan mælikvarða. Má ljóst vera að hlutur ferðaþjónustunnar verður enn myndarlegri á þriðja ársfjórðungi þegar háönn greinarinnar endurspeglast af fullum krafti í tölunum.

Myndin hér að ofan endurspeglar einnig jákvæða verðþróun okkar helstu útflutningsvöruflokka, sér í lagi sjávarafurða. Spurn eftir slíkum afurðum hefur aukist jafnt og þétt með hjaðnandi faraldursáhrifum á meðan viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum hafa dregið talsvert úr framboði lykiltegunda á borð við þorsk á heimsmarkaði. Vissulega hefur verð á ýmsum innfluttum aðföngum einnig hækkað talsvert en þróunin á myndinni endurspeglar þá staðreynd að sem útflytjandi hrávöru og óbeinn orkuútflytjandi er staða Íslands betri í þeim miklu verðsveiflum sem verið hafa á alþjóðamörkuðum en margra nágrannaþjóða.

Við höfum áður viðrað þá skoðun okkar að viðsnúningur verði í utanríkisviðskiptum á yfirstandandi ári og að afgangur taki við af viðskiptahalla á síðari helmingi ársins. Tölur Hagstofunnar ríma vel við þá sögu að mati okkar. Í næstu viku birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð á öðrum ársfjórðungi þar sem jöfnuður vegna frumþáttatekna og framlaga milli landa bætist við vöru- og þjónustujafnaðartölurnar. Okkur þykir ljóst að á heildina litið muni þær sýna fram á talsverðan viðskiptahalla á fyrri helmingi ársins enda var halli umtalsverður á fyrsta ársfjórðungi.

Að sama skapi teljum við mestar líkur á að viðskiptaafgangur verði með myndarlegra móti á þriðja fjórðungi ársins og almennt horfir til betri vegar í utanríkisviðskiptunum samhliða því að þungamiðjan í hagvexti færist frá innlendri eftirspurn yfir til útflutnings. Þótt afgangur vöru- og þjónustuviðskipta verði væntanlega að jafnaði talsvert minni en við áttum að venjast lengst af síðasta áratug eru horfurnar allgóðar fyrir slík utanríkisviðskipti svo fremi ytri aðstæður þróist ekki til verulega verri vegar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband