Hlutabréfaverð Apple hefur lækkað umtalsvert að undanförnu, þar af um 10% í gær. Helst er um að kenna svartsýni vegna áframhaldandi sölu iPhone, einkum í Kína en einnig hafa sölutölur helstu vörutegunda fyrirtækisins valdið nokkrum vonbrigðum að undanförnu.
Lítum á stöðuna í nokkrum gröfum.
Eftir nær samfellda hækkun frá miðju ári 2016 hefur gengið lækkað um rúman þriðjung frá því síðasta haust. Markaðsverðmætið, sem um tíma var yfir billjón dollara, hefur því rýrnað um andvirði 50.000 milljarða króna. Til samanburðar er reiknað með að landsframleiðsla Íslands nemi um 3.000 milljörðum króna í ár.
iPhone er arðbærasta neytendavara sögunnar og skiptir öllu máli fyrir Apple. Tekjur af sölu símanna jukust um 18% á milli ára á meðan eilítill samdráttur var í sölutekjum vegna spjald-, borð- og fartölva. Þrátt fyrir þessar auknu tekjur af símasölu seldust einungis hálfu prósenti fleiri eintök á árinu, en munurinn liggur í umtalsverðum verðhækkunum fyrirtækisins á milli ára.
Nokkrar breytingar hafa verið á bæði röðun og markaðsverðmæti helstu tæknifyrirtækja Bandaríkjanna upp á síðkastið. Síðustu 12 mánuði hefur verðmæti Amazon aukist um tæpan fjórðung og Microsoft um 12% og er Microsoft nú að nýju verðmætast í þessum hópi. Mest hefur lækkunin verið á bréfum Facebook, eða 29%, en samfélagsmiðillinn var áberandi í umræðunni á liðnu ári vegna persónuverndarmála.
Frá andláti Steve Jobs, stofnanda Apple, hefur eitt helsta viðfangsefnið verið að útvíkka tekjustofna fyrirtækisins. Slíkt hefur ekki enn tekist nógu vel og standa Apple úrið, heyrnartól Apple og Beats, iPod og snjallhátalarinn HomePod einungis fyrir ríflega 6% af heildartekjum. Tekjur af sölu innan forrita hafa reyndar aukist umtalsvert, en langt er í land með að slíkt og streymi tónlistar og sjónvarpsefnis fari að skipta sköpum í rekstrinum. iPhone skilar fyrirtækinu tveimur þriðju hluta tekna og enn stærra hlutfalli hagnaðar. Því verður umræða um fyrirtækið enn beintengd við árangur af sölu símanna. Eftir að gripið var til þess ráðs á síðasta ári að hækka umtalsvert verðskrána hljóta fjárfestar að spyrja sig hvernig Tim Cook og starfsfólki hans tekst að auka að nýju sölu símanna í ár.