Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í október frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga standa í stað í 4,1%. Mælingin er nokkuð tíðindalítil, flestir liðir leggjast á eitt og hækka smávegis. Við teljum að ársverðbólga verði með svipuðu móti næstu mánuði og muni mælast rétt yfir 4% vikmörkum Seðlabankans út árið. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs þann 30. október næstkomandi.
Verðbólguspá: Verðbólga óhögguð
Ársverðbólga stendur í stað á milli mánaða í október. Verðbólga hefur verið þrálát í kringum 4% á þessu ári. Spá Greiningar gerir ráð fyrir að verðbólga hjaðni á ný á fyrri hluta næsta árs.
Helstu liðir leggjast á eitt
Húsnæðisliður vegur þyngst til hækkunar í mánuðinum. Þar má helst nefna reiknuðu húsaleiguna sem hækkar um 0,4% milli mánaða samkvæmt spá okkar (0,08% áhrif á VNV). Einnig hækkar greidd húsaleiga um 0,8% en greidda húsaleigan, sem á að endurspegla leiguverð, hefur verið í hækkunarfasa undanfarna mánuði.
Liðurinn ferðir og flutningar hækkar um 0,3% (0,05% áhrif á VNV). Í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins Play komu fram áhyggjur að flugverð myndi hækka hjá öðrum flugfélögum og hafa áhrif á verðbólgumælingu í október. Síðustu ár hefur flugverð í október verið sveiflukennt, til að mynda hækkaði það um 6% í fyrra en lækkaði um 2% árið þar á undan. Þó má segja að flugverð hafi tilhneigingu til að hækka í október ef horft er til síðustu tíu ára. Samkvæmt spá okkar hækkar flugverð nú um 1,5% (0,03% áhrif á VNV) á milli mánaða og áhrif gjaldþrots Play eru því takmörkuð á flugverð miðað við spána. Eldsneytisverð, sem hefur verið í lækkunarferli undanfarið, stendur í stað á milli mánaða og hefur því engin áhrif á liðinn.
Þó útlit sé fyrir að áhrif útsöluloka hafi að mestu fjarað út mældum við hækkun á fatnaði og skóm um 0,8% (0,03% áhrif á VNV) milli mánaða. Aðrir helstu liðir sem hækka eru húsgögn og heimilisbúnaður um 0,3% (0,02% áhrif á VNV) auk tómstunda og menningar um 0,3% (0,03% áhrif á VNV) sem á það til að hækka á þessum árstíma.
Verðbólga pikkföst
Verðbólgumæling í september var í takti við spár greiningaraðila og fátt í mælingunni sem kom okkur á óvart. Nú hafa áhrif umtalaðra einskiptisliða í ágúst og september fjarað út úr mælingunni. Við teljum að verðbólga verði pikkföst rétt yfir efri vikmörkunum næstu mánuði. Bráðabirgðaspáin okkar fyrir næstu mánuði lítur svona út:
- Nóvember: 0,1% hækkun VNV (4,1% ársverðbólga) – Flugfargjöld lækka eins og venjan er í mánuðinum – það vegur á móti hækkun á öðrum helstu liðum
- Desember: 0,4% hækkun VNV (4,1% ársverðbólga) – Flugfargjöld hækka í kringum hátíðirnar. Aðrir liðir hækka lítillega
- Janúar: 0,2% lækkun VNV (4,2% ársverðbólga) – Gjaldskrárhækkanir og krónutöluhækkanir vega á móti vetrarútsölum og lækkun flugverðs
Ef spá okkar gengur eftir mun verðbólga mælast 4,1% næstu mánuði og aukast svo lítillega í janúar. Mesta óvissan er í janúar, einkum vegna óvissu um áhrif kílómetragjaldsins á mælinguna. Áform um lög um kílómetragjald óháð orkugjafa hafa verið kynnt og eiga að taka gildi um áramótin, en frumvarpið hefur ekki verið samþykkt á Alþingi. Ljóst er að breytingin muni hafa einhver áhrif á vísitölu neysluverðs. Eldsneytisverð mun að óbreyttu lækka talsvert þar sem vörugjöld af bensíni og olíugjald af díselolíu verða felld niður. Aftur á móti verður kílómetragjaldið flokkað sem veggjald samkvæmt Hagstofunni og mun hafa áhrif til hækkunar á þeim lið. Hagstofan bendir á að að engin sambærileg fordæmi séu til um breytingu sem þessa og því erfitt að meta áhrifin að fullu. Við munum ekki taka breytinguna inn í spána fyrir janúar fyrr en ljóst er að lögin taki gildi. Samkvæmt útreikningum okkar verða áhrifin þó ekki veruleg.
Eins og sjá má verður árstaktur verðbólgu á bilinu 4,1%-4,2% næstu mánuði. Verðbólga hefur verið við 4% vikmörk Seðlabankans frá ársbyrjun og mun því líklega vera það áfram. Ef spá okkar fyrir næstu mánuði rætist mun verðbólga mælast að jafnaði 4,1% á árinu. Spá Seðlabankans frá ágúst gerir ráð fyrir 4,2% verðbólgu að meðaltali á árinu. Við teljum að verðbólga fari að hjaðna á ný á næsta ári og því gæti vaxtalækkunarferlið hafist á ný með hækkandi sól á næsta ári.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.

