Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólguspá: Verðbólga hjaðnar en hægar en áður var spáð

Ársverðbólga mun hjaðna í 9,2% í janúar samkvæmt spá okkar. Í janúar vegast á útsöluáhrif annars vegar og hækkun á opinberum gjöldum hins vegar. Verðbólga mun að öllum líkindum hjaðna nokkuð hratt á nýju ári en þó hægar en áður var spáð.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í janúar frá fyrri mánuði. Ef spá okkar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna úr 9,6% í 9,2%. Gjaldskrár og opinber gjöld hækka á milli mánaða eins og venjan er í janúar og sömuleiðis spáum við hækkun á matvælaverði. Það sem vegur hins vegar á móti eru útsölur og lækkun á flugfargjöldum. Verðbólga mun að öllum líkindum hjaðna nú á nýju ári, stóra spurningin er hversu hratt. Við spáum því að verðbólga verði 5,5% í lok þessa árs. Hagstofan birtir VNV fyrir mánuðinn 30. janúar næstkomandi.

Ýmsar hækkanir tóku gildi um áramótin

Alla jafna eru útsölur í janúar og hafa þær áhrif til lækkunar á vísitölunni. Samkvæmt mælingu okkar lækkar verð á fötum og skóm um 8,1% (-0,28% áhrif á VNV) og húsgögnum og heimilisbúnaði um 3,4% (-0,22% áhrif á VNV). Flugfargjöld lækka einnig í mánuðinum eftir mikla hækkun í desember. Samkvæmt spá okkar lækka flutningar í lofti um 9,7% (-0,22% áhrif á VNV) á milli mánaða.

Aðrir liðir hafa áhrif til hækkunar á vísitölunni í mánuðinum. Allskyns hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum tóku gildi um áramótin. Þar má helst nefna áfengi og tóbak sem hækkar samkvæmt spá okkar í verði um 2,1% (0,05 áhrif á VNV), verð á bílum sem hækkar um 3,5% (0,19% áhrif á VNV), verðhækkun á eldsneyti um 0,4% (0,01% áhrif á VNV) ásamt annarri vöru og þjónustu sem hækkar um 1,1% (0,07% áhrif á VNV).

Matvælaverð hækkar á næstu mánuðum

Við mældum einnig hækkun á matvöruverði á milli mánaða. Við spáum því að matar- og drykkjarvörur hækki í verði um 1% (0,15% áhrif á VNV), einna helst vegna hækkunar á mjólkurvörum, en Verðlagsnefnd búvara tilkynnti um hækkun á verði mjólkur til bænda í janúar sem er að meðaltali um 3,5%. Ýmsir innflytjendur á matvöru hafa tilkynnt um verðbreytingar nú í janúar. Í verðmælingu okkar voru ekki miklar breytingar á öðru matvöruverði í mánuðinum en við gerum ráð fyrir frekari verðhækkunum í febrúar.

Matvöruverð um allan heim hefur hækkað mikið frá því að faraldurinn skall á. Gagnlegt er að horfa til alþjóðlegrar matvælaverðs-vísitölu (FFPI) til að sjá verðbreytingarnar undanfarin ár. Frá byrjun árs 2019 hefur matvælaverð samkvæmt þeirri vísitölu hækkað um tæp 42% á sama tíma og matvöruverð á Íslandi samkvæmt mælingu Hagstofu hefur hækkað um 22%. Miðað við þessa tvo mælikvarða er ljóst að hækkanir hérlendis hafa ekki verið jafnmiklar og víðast hvar erlendis.

Líkt og sést á myndinni eru sveiflurnar mun minni á matvöruverði á Íslandi. Líkur eru á að einhver töf sé á hækkunum hingað til lands en það fer oft eftir birgðastöðu fyrirtækja. Fréttir af hækkunum á matvöru hérlendis eiga sér líklega tvær skýringar; það tekur tíma fyrir hækkanir erlendis að berast hingað til lands ásamt því að veiking krónu spilar hér stóran þátt. Eins og við fjölluðum um hér er gengi krónu um 3% lægra en í byrjun árs 2022.

Miðað við FFPI vísitöluna náði matvælaverð hámarki í mars síðastliðnum og hefur farið lækkandi síðan. Það verður áhugavert að sjá hvernig matvælaverð mun þróast næstu misserin bæði hér á landi sem og erlendis. Vonir standa til þess að brotnar virðiskeðjur og hár flutningskostnaður bæði vegna faraldursins og stríðsins í Úkraínu heyri brátt sögunni til og verð á matvörum muni finna sitt jafnvægi.

Íbúðamarkaður talsvert rólegri

Íbúðamarkaður virðist vera talsvert rólegri upp á síðkastið eftir mikla verðhækkun framan af síðasta ári. Framboð er að aukast og hertar lánareglur og hækkun vaxta hefur haft sitt að segja. Verð á íbúðamarkaði hefur verið að sveiflast nokkuð en við teljum að markaðurinn muni vera talsvert rólegri á næstu mánuðum.  

Samkvæmt spá okkar mun húsnæðisliðurinn í heild hækka um 0,9% (0,27% áhrif á VNV) á milli mánaða. Reiknaða húsaleigan mun hækka um 0,5% (0,09% áhrif á VNV) en þar munar mestu um vaxtaþáttinn. Reiknaða húsaleigan byggir annars vegar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og hins vegar á vaxtaþætti. Útlit er fyrir að vaxtaþátturinn muni verða til þess að reiknaða húsaleigan haldi áfram að hækka á næstunni. Hækkun á verðskrám fyrir rafmagn og hita sem tók gildi um áramótin mun hafa 0,09% áhrif á vísitöluna samkvæmt spá okkar.

Verðbólga hjaðnar – en hægar en áður var spáð

Við erum nokkuð bjartsýn á næstu mánuði. Það þarf mikið til að verðbólga hjaðni ekki áfram þar sem stórir hækkunarmánuðir detta útúr ársverðbólgunni. Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,7% hækkun VNV í febrúar þar sem útsölulok og hækkun á matvörum skýra hækkunina að mestu. Í bæði mars og apríl spáum við 0,4% hækkun VNV á milli mánaða. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,3% í aprílmánuði.

Verðbólga mun þó hjaðna aðeins hægar en við áður spáðum. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 6,9% á árinu. Auðvitað er óvissan um nærhorfurnar mikil og margt sem verður að ganga upp til að verðbólga hjaðni hratt. Íbúðamarkaður virðist vera talsvert rólegri og skiptir máli fyrir verðbólguhorfur að sú verði raunin. Krónan þarf að vera stöðugri en hún hefur verið síðustu mánuði til að halda aftur af hækkun á innflutningsverðlagi. Annar allstór óvissuþáttur eru þeir kjarasamningar sem á eftir að ljúka.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.