Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kaldur vetur fyrir krónuna?

Gengi krónu er heldur veikara í ársbyrjun 2023 en fyrir ári síðan eftir allhraða veikingu hennar á seinni helmingi síðasta árs. Viðskiptahalli, gjaldeyriskaup til erlendra fjárfestinga, minni stöðutaka með krónu og óhagstæð fjármögnunarskilyrði erlendis eru helstu áhrifaþættir í veikingu krónu undanfarna mánuði. Krónan gæti átt nokkuð á brattann að sækja næstu mánuði en eftir því sem líður á árið aukast líkur á meðvindi með henni.


Gengi krónu byrjar árið 2023 nærri 3 prósentum lægra en árið 2022 miðað við viðskiptavegna gengisvísitölu Seðlabankans. Eftir myndarlega styrkingu á fyrstu 5 mánuðum síðasta árs veiktist krónan linnulítið frá sumarbyrjun fram til ársloka. Sér í lagi gaf gengi krónu allhratt eftir á haustmánuðum nýliðins árs þrátt fyrir myndarlegt ferðaþjónustuhaust hér á landi. Hvað gæti valdið þessar þróun og hverjar eru horfur fyrir gengisþróun krónu á nýbyrjuðu ári?

Sem fyrr segir gaf krónan talsvert eftir á síðasta fjórðungi nýliðins árs. Um áramót var gengi krónunnar tæplega 5% lægra en í októberbyrjun og varð ríflega helmingur þeirrar veikingar í nóvembermánuði. Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkað þegar hæst hóaði í nóvember og seldi samtals evrur fyrir tæplega 5 ma.kr. til þess að koma betra jafnvægi á markaðinn. Þrátt fyrir allnokkra sölu á evrum úr forða bankans á haustdögum voru hrein evrukaup hans þó umtalsverð á síðasta ári og námu ríflega 13 ma.kr. umfram gjaldeyrissölu. Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam 893 ma.kr. (rúmlega 6 ma. evra) í nóvemberlok og hefur væntanlega ekki breyst að marki fram að áramótum.

Mikill vöruskiptahalli..

Við höfum áður fjallað um methalla á vöruskiptum á haustdögum en samanlagður halli á vöruskiptum í september-nóvember var 145 ma.kr. Heldur hresstist þó Eyjólfur í desembermánuði. Vöruskiptahalli í jólamánuðinum var tæplega 13 ma.kr. miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar og hefur hallinn ekki verið minni frá janúar 2022. Batnandi vöruskiptatölur skýrast af því að útflutningur ( alls 101 ma.kr.) tók vaxtarkipp á sama tíma og vöruinnflutningur (114 ma.kr.)  skrapp saman milli mánaða í krónum talið. Hluti af batanum í útflutningi er vegna metútflutnings á áli í desember (44 ma.kr.) eftir fremur rýran álútflutning í október og nóvember. Innflutningsmegin dró m.a. úr eldsneytisinnflutningi og innflutningi á fjárfestingarvörum. Bílainnflutningur sló hins vegar met í desember og nam u.þ.b. 15 ma.kr. Líklega skýrist þessi mikli bílainnflutningur í árslok a.m.k. að hluta til af því að skattar á nýjar bifreiðar breyttust nokkuð um áramót.

Ekki liggja fyrir tölur um þjónustuviðskipti á lokamánuðum síðasta árs. Út frá farþegafjölda, kortaveltutölum o.þ.h. áætlum við þó að nokkur afgangur hafi verið á þjónustujöfnuði á tímabilinu. Samanlagt gæti því allgott jafnvægi hafa verið á vöru- og þjónustuviðskiptum í desember eftir talsverðan halla mánuðina á undan.

..útflæði tengt fjárfestingum..

Viðskipti með vörur og þjónustu eru auðvitað aðeins einn af nokkrum áhrifaþáttum á gengi krónu á hverjum tíma. Annar áhrifaþáttur sem vafalítið hefur haft umtalsverð áhrif á síðasta ári er flæði tengt fjármagnsjöfnuðinum, þ.e. gjaldeyrisflæði sem tengist breytingum á erlendum eignum og skuldbindingum þjóðarbúsins.

Þar má til dæmis nefna erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða. Á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs námu hrein gjaldeyriskaup sjóðanna 92 ma.kr. og var það 70% aukning frá sama tímabili árið 2021. Líklegt er að sjóðirnir hafi enn bætt í gjaldeyriskaupin í desembermánuði enda svigrúm þeirra til erlendra fjárfestinga umtalsvert meira en fyrir ári síðan vegna lækkunar á erlendum hlutabréfamörkuðum.

Þá hefur væntanlega dregið talsvert úr innflæði vegna nýfjárfestinga erlendra aðila á lokamánuðum ársins eftir myndarlegt innflæði tengt stórum sölum innlendra fyrirtækja á dótturfélögum til erlendra aðila í september og október. Trúlega hefur þó 2. áfangi innleiðingar íslenska hlutabréfamarkaðarins í tilteknar vísitölur hjá FTSE Russell leitt til einhvers innflæðis á lokavikum ársins enda fylgir því að tilteknir alþjóðlegir vísitölusjóðir þurfa að fjárfesta í bréfum íslenskra fyrirtækja. Hugsanlegt er að minna hreint útflæði vegna vöru- og þjónustuviðskipta ásamt hagfelldara flæði tengdu fjármagnsjöfnuði skýri að stórum hluta minni gengisbreytingar á krónu í jólamánuðinum en verið hafði mánuðina á undan.

..erfið fjármögnunarskilyrði erlendis..

Auk fyrrnefnds gjaldeyrisflæðis sem tengist breytingum á verðbréfaeign landa á milli geta breytingar á lánaskuldum endurspeglast í gengishreyfingum krónu á hverjum tíma. Erfiðara er þó að festa fingur á því flæði til skemmri tíma litið þar sem tímanleg gögn um það skortir.

Þannig gætu breytt fjármögnunarskilyrði í erlendum gjaldeyri haft sitt að segja um flæði á gjaldeyrismarkaði enda er vaxtaumhverfi á helstu myntsvæðum heims gjörbreytt frá því sem var fyrir ári síðan. Bæði hafa grunnvextir í öllum helstu gjaldmiðlum hækkað verulega og eins hefur vaxtaálag aukist umtalsvert. Sem dæmi má nefna að samkvæmt gögnum Refinitiv hækkaði viðmiðunar ávöxtunarkrafa á 5 ára skuldabréfum evrópskra fyrirtækja með BBB-lánshæfiseinkunn úr 0,6% í ríflega 4% á árinu 2022. Þar af voru áhrifin af hærra skuldaraálagi umfram áhættulausa vexti rúmlega prósentu meiri um síðustu áramót en í ársbyrjun 2022.

Í nýlega birtri fundargerð desemberfunda fjármálastöðugleikanefndar kemur fram að aðstæður íslenskra banka til fjármögnunar erlendis höfðu versnað undanfarið og vaxtaálag á skuldabréf bankanna í erlendum gjaldmiðlum hækkað. Nefndi nefndin þessa þróun meðal áhættuþátta á fjármálastöðugleika.

Fjármögnunarkjör innlendra fyrirtækja í gjaldeyri hjá íslenskum bönkum taka óhjákvæmilega mið af fjármögnun bankanna sjálfra í erlendum gjaldmiðlum. Framangreind þróun gæti því hafa haft áhrif á endurfjármögnun innlendra fyrirtækja og ýtt undir tilfærslu á fjármögnun þeirra úr gjaldeyri í krónúr. Slík tilfærsla myndi að öðru óbreyttu leiða til afskuldunar þjóðarbúsins í erlendum gjaldeyri og framkalla útflæði þegar verið væri að kaupa gjaldeyri til að greiða upp erlend lán. Við teljum talsverðar líkur á að slík þróun hafi einmitt litað gengisþróun krónu á seinni helmingi síðasta árs.

..og breyttar væntingar eru meðal áhrifaþátta

Við fjölluðum nýverið um það hvernig spá okkar um gengi krónu fyrir ári síðan hefði gengið eftir. Í sem fæstum orðum reyndist spá okkar fyrir meðaltal síðasta árs býsna nærri lagi en þróunin innan ársins var hins vegar töluvert önnur en við höfðum vænst. Hér beinast spjótin að enn öðrum áhrifaþætti á skammtímagengi krónu, en það er framvirk stöðutaka og þróun hennar á hverjum tíma.

Á sama tíma og krónan var að styrkjast á fyrri helmingi síðasta árs jókst hrein framvirk gjaldeyrisstaða bankanna, sem endurspeglar stöðutöku viðskiptavina þeirra með krónu, um 75 ma.kr. Líklega var þessi mikla stöðutaka byggð á væntingum um vaxandi gjaldeyrisinnflæði eftir því sem liði á árið. Styrking sem ella hefði komið fram í kjölfar háannar ferðaþjónustunnar kom því væntanlega að stórum hluta fram fyrr á árinu vegna þessa.

Frá ágústlokum til loka nóvember lækkaði hins vegar þessi staða um 50 ma.kr. og nam 147 ma.kr. í nóvemberlok. Taldi fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans á fundi sínum í desember að líklega mætti rekja þá þróun til breyttra væntinga um gengi krónu. Aðrir hafa þó bent á hugsanlega hafi veðköll tengd slíkri stöðutöku einnig haft áhrif til lækkunar hennar í haust. Við teljum líklegt að þróun framvirku viðskiptanna hafi haft sitt að segja um gengishreyfingar krónu innan ársins og verður fróðlegt að sjá hvernig þessi staða þróast á komandi mánuðum.

Líkur á meðvindi með krónu aukast þegar líður á árið

En hverjar eru horfurnar fyrir framangreinda áhrifaþætti, og þar með gengi krónu á árinu sem er nýhafið?

Við teljum líklegt að betra jafnvægi komist á utanríkisviðskipti eftir því sem lengra líður á árið eftir talsverðan viðskiptahalla tvö síðustu ár. Vöruskiptahalli gæti þó áfram reynst talsverður og ekki er víst að þjónustuafgangur nái að vega hann upp fyrr en háönn ferðaþjónustunnar byrjar af krafti í júnímánuði.

Áfram eru horfur á talsverðum gjaldeyriskaupum lífeyrissjóðanna enda er hreint innflæði iðgjalda umfram lífeyrisgreiðslur og rekstrarkostnað enn umtalsvert og sjóðirnir flestir fremur á þeim buxunum að auka vægi erlendra eigna í safni sínu en hitt. Að jafnaði keyptu sjóðirnir gjaldeyri fyrir ríflega 8 ma.kr. í mánuði hverjum á síðasta ári að desember undanskildum og giskum við á að gjaldeyriskaup þeirra verði að minnsta kosti af þeirri stærðargráðu á komandi fjórðungum.

Meiri óvissa er um innflæði tengt verðbréfafjárfestingum. Þó má benda á að enn er eftir síðasti þriðjungur innleiðingar Íslands í FTSE-vísitölurnar áðurnefndu en hann á sér stað í mars. Þá er staða erlendra aðila í innlendum verðbréfum almennt með minna móti í sögulegum jafnt sem alþjóðlegum samanburði og því allgóðar líkur á að fjárfestingarinnflæði verði nokkurt á árinu líkt og í fyrra.

Aðstæður á erlendum fjármögnunarmörkuðum eru enn krefjandi og gæti svo orðið áfram um hríð. Eftir því sem líður á árið aukast þó líkur á því að aðstæður á mörkuðum skáni þótt fráleitt sé á vísan að róa í þeim efnum.

Þá er erfitt að segja um hvernig framvirk stöðutaka með eða móti krónu muni þróast enda ræðst hún ekki síst af því hvernig hinir framantöldu áhrifaþættirnir og væntingar um þá þróast. Þó virðist sem betra jafnvægi hafi komist á slíkar stöður eftir því sem leið á lokafjórðung síðasta árs ef marka má myndina hér að ofan.

Í sem stystu máli teljum við, með hliðsjón af ofangreindum þáttum, að nokkuð gæti orðið á brattann að sækja fyrir krónuna allra næstu mánuði. Þegar lengra líður á árið batna þó horfur um gjaldeyrisflæði jafnt og þétt að mati okkar þótt ómögulegt sé að festa fingur á hvenær, og í hversu miklum mæli, batnandi flæði muni leiða til styrkingar krónu. Almennt ættu þó sterk erlend staða þjóðarbúsins, betri hagvaxtarhorfur en gengur og gerist í viðskiptalöndunum, hjaðnandi verðbólga og ýmsir áhugaverðir fjárfestingarkostir hér innan lands að styðja við gengi krónu fremur en hitt á komandi misserum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband