Árið sem nú er senn á enda hefur svo sannarlega þróast með öðrum hætti en flestir bjuggust við í ársbyrjun. Líkast til voru margir að vona, líkt og við, að með lokakafla faraldursins tæki við tímabil meira jafnvægis og minni stórtíðinda á heimsvísu. Innrás Rússa í Úkraínu gerði þær vonir að engu og árið hefur einkennst af miklum sveiflum í heimsbúskapnum sem og á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Framleiðsluhnökrar, orkukreppa, hrávöruskortur, verðbólguskot og hækkun vaxta á heimsvísu marka þróun ársins og nú í árslok standa heimili jafnt sem fyrirtæki í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum okkar frammi fyrir meiri verðbólgu en sést hefur í áratugi og hæstu vöxtum um langa hríð. Góðu heilli hefur þó almennt gengið vel í efnahagslífinu hér á landi enda er hagkerfið að mörgu leyti orðið fjölþættara en áður á sama tíma og viðnámsþróttur gagnvart ytri sem innri áföllum hefur aukist.
Eftir viðburðaríkt ár þótti okkur við hæfi að líta um öxl og taka snöggan snúning á því hvernig spár okkar frá því fyrr á árinu hefðu gengið eftir.
Einkaneysluárið 2022
Ef við lítum fyrst til hagvaxtarhorfa þá gáfum við í janúarlok út þjóðhagsspá þar sem við áætluðum að hagvöxtur í ár yrði 4,7%. Töldum við að þann vöxt mætti að mestu þakka þróttmiklum vexti útflutnings, sér í lagi ferðaþjónustu og sjávarútvegs. Aukin einkaneysla myndi einnig ýta undir hagvöxtinn í ár en hlutur fjárfestingar minnkar hins vegar verulega frá síðasta ári.