Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

2022: Bullandi uppgangur en blikur á lofti

Á árinu 2022 hefur verið meiri gangur í innlendri eftirspurn, sér í lagi einkaneyslu, en við spáðum í ársbyrjun. Hraðari eftirspurnarvöxtur hefur meðal annars speglast í meiri fjölgun starfa, spenntari íbúðamarkaði og þrálátari verðbólgu en vænst var. Þrátt fyrir meiri verðbólgu og hraðari hækkun vaxta en spáð var í byrjun árs er staða heimila, fyrirtækja og hins opinbera almennt traust og þessir aðilar því í nokkuð góðri stöðu að takast á við aðlögun að jafnvægi í hagkerfinu á komandi ári.


Árið sem nú er senn á enda hefur svo sannarlega þróast með öðrum hætti en flestir bjuggust við í ársbyrjun. Líkast til voru margir að vona, líkt og við, að með lokakafla faraldursins tæki við tímabil meira jafnvægis og minni stórtíðinda á heimsvísu. Innrás Rússa í Úkraínu gerði þær vonir að engu og árið hefur einkennst af miklum sveiflum í heimsbúskapnum sem og á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Framleiðsluhnökrar, orkukreppa, hrávöruskortur, verðbólguskot og hækkun vaxta á heimsvísu marka þróun ársins og nú í árslok standa heimili jafnt sem fyrirtæki í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum okkar frammi fyrir meiri verðbólgu en sést hefur í áratugi og hæstu vöxtum um langa hríð. Góðu heilli hefur þó almennt gengið vel í efnahagslífinu hér á landi enda er hagkerfið að mörgu leyti orðið fjölþættara en áður á sama tíma og viðnámsþróttur gagnvart ytri sem innri áföllum hefur aukist.

Eftir viðburðaríkt ár þótti okkur við hæfi að líta um öxl og taka snöggan snúning á því hvernig spár okkar frá því fyrr á árinu hefðu gengið eftir.

Einkaneysluárið 2022

Ef við lítum fyrst til hagvaxtarhorfa þá gáfum við í janúarlok út þjóðhagsspá þar sem við áætluðum að hagvöxtur í ár yrði 4,7%. Töldum við að þann vöxt mætti að mestu þakka  þróttmiklum vexti útflutnings, sér í lagi ferðaþjónustu og sjávarútvegs. Aukin einkaneysla myndi einnig ýta undir hagvöxtinn í ár en hlutur fjárfestingar minnkar hins vegar verulega frá síðasta ári.

Nú þegar fyrir liggja tölur Hagstofunnar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins ásamt vísbendingum um efnahagsþróun á lokafjórðungi þess virðist sýnt að hagvöxtur reynist talsvert meiri í ár en við væntum í janúar þrátt fyrir darraðardansinn í heimsbúskapnum. Útlit er fyrir að spá okkar frá september sl. um 7,3% vöxt verði nærri lagi. Skýringin liggur að stærstum hluta í kraftmiklum vexti einkaneyslu, sem óx um 10,9% að raunvirði á fyrstu þremur fjórðungum ársins samanborið við 4,2% áætlaðan vöxt á árinu í heild í janúarspánni. Hefur vöxtur einkaneyslu ekki verið hraðari á þessu tímabili í 17 ár. Líkast til var einkaneysluvöxturinn þó mun hóflegri á lokafjórðungi ársins. Sem betur fer hefur vöxturinn ekki verið byggður á stóraukinni skuldsetningu heimila heldur fremur á uppsöfnuðum sparnaði sem og vaxandi kaupmætti hluta launþega, einkum í lægri þrepum launastigans. Auk þess hefur landsmönnum haldið áfram að fjölga allhratt undanfarið og nam fjölgunin á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2,5% samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Vöxtur fjárfestingar og útflutnings virðist hins vegar ætla að verða gróflega í takti við áætlun okkar í janúar þótt í báðum tilfellum verði vöxturinn nokkru sterkari en við spáðum í ársbyrjun. Á móti eru horfur á að innflutningsvöxtur verði talsvert meiri en við væntum í janúarspánni.

Mikill vöxtur á árinu sem senn er á enda endurspeglast svo í heldur lakari vaxtarhorfum fyrir næsta ár en við væntum í janúar. Þenslumerki eru nú allvíða í hagkerfinu og horfur á að framundan sé aðlögun að betra jafnvægi með hægari eftirspurnarvexti en allnokkrum áframhaldandi vexti útflutnings. Líkast til mun hagvöxtur haldast í hendur við fólksfjölgun og landsframleiðsla á mann því ekki breytast umtalsvert milli ára.

Uppgangur á vinnumarkaði

Myndarlegri efnahagsbati en við væntum í ársbyrjun hefur endurspeglast í allhraðri hjöðnun atvinnuleysis. Í byrjun árs mældist skráð atvinnuleysi 5,2% af mannafla samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar. Í nóvember var þetta hlutfall hins vegar komið niður í 3,3% og er útlit fyrir að það haldist á þeim slóðum að jafnaði á árinu 2023. Eftir sem áður teljum við útlit fyrir að atvinnuleysishlutfallið muni hækka lítillega á árinu 2024 þótt horfur á vinnumarkaði séu almennt býsna góðar.

Krónan styrktist...og veiktist aftur

Í byrjun ársins áttum við von á því að krónan myndi styrkjast allnokkuð á árinu eftir því sem útflutningi yxi fiskur um hrygg. Sú spá hefur gengið nokkurn veginn eftir þótt takturinn innan árs hafi verið býsna frábrugðinn því sem við væntum í upphafi ársins. Krónan styrktist þannig umtalsvert á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en hefur gefið eftir á ný frá sumarbyrjun. Styrkingin á fyrri hluta ársins skýrist líklega að miklu leyti af umtalsverðri stöðutöku með krónunni í framvirkum samningum. Veikinguna frá júníbyrjun má að hluta skrifa á óhagstæðari þróun utanríkisviðskipta en vænst var, líkt og við fjölluðum um nýlega.

Fleira kemur þó til og beinast sjónar þar ekki síst af hugsanlegri afskuldun í erlendum gjaldmiðlum á síðasta þriðjungi ársins. M.ö.o. gæti hugsast að verið væri að greiða upp einhvern hluta af erlendum skuldum þjóðarbúsins og eftir atvikum endurfjármagna þær skuldir í krónum. Vonandi varpa gögn um gjaldeyrisflæði og þróun erlendra eigna og skulda frekara ljósi á þessa þróun á komandi mánuðum.

Þegar öllu er á botninn hvolft er stóra myndin þó keimlík því sem við væntum í upphafi árs. Gengi krónu á árinu sem nú er að renna sitt skeið var að jafnaði ríflega 3% hærra en á árinu 2021 en í janúar gerðum við ráð fyrir 3,5% sterkari krónu í ár en í fyrra. Í millitíðinni vorum við hins vegar nokkru bjartsýnni á gengisþróunina, ekki síst vegna framangreindrar styrkingar krónu á fyrstu fimm mánuðum ársins. Eftir sem áður teljum við líka að einhver frekari styrking krónu sé í pípunum þegar frá líður þótt nærhorfurnar séu tvísýnni en áður í ljósi óhagstæðari utanríkisviðskipta og annars útflæðis fjármagns á seinasta þriðjungi ársins.

Meiri verðbólga og hærri stýrivextir

Sá hluti janúarspárinnar sem verst hefur elst snýr að þróun verðbólgu og vaxta. Við væntum þess í ársbyrjun að verðbólguskotið sem þá hafði ágerst frá miðju ári 2021 færi senn að ná hámarki enda skrifaðist það að miklu leyti á eftirköst faraldursins, þar sem hnökrar í framboði annars vegar og eftirspurnarhvetjandi aðgerðir yfirvalda hins vegar höfðu þrýst upp verðlagi.

Raunin varð hins vegar allt önnur eins og flestir þekkja. Bæði varð innrás Rússa í Úkraínu til þess að ýta hratt upp verði á orku og hrávörum síðla vetrar og eins reyndust hagstjórnarviðbrögð yfirvalda við faraldrinum hérlendis sem erlendis ýta meira undir eftirspurn en flesti væntu, ekki síst á íbúðamarkaði. Þá hjálpaði ekki að seðlabankar helstu myntsvæða heims létu óskhyggju um skammvinna verðbólgu ráða för í peningastefnunni framan af ári og voru of seinir til viðbragða þótt það hafi sem betur fer ekki verið raunin hér á landi. Þessi þróun litaði verðbólguspá okkar sterkum litum þegar í maí, enda höfðu skammtímahorfur þá snarbreyst til hins verra á heimsvísu á sama tíma og íbúðaverð hafði hækkað hratt mánuðina á undan.

Frá miðju ári hefur okkur hins vegar farnast nokkuð vel að spá fyrir um skammtímaþróun verðbólgu og í rauninni hafa ekki orðið umtalsverðar breytingar á sýn okkar á komandi misseri frá því við gáfum út septemberspá okkar. Verðbólga mældist 9,6% í desember og reyndist að jafnaði 8,3% á árinu 2022. Teljum við nú, líkt og í spám okkar allt frá síðasta vori, að verðbólgan muni hjaðna verulega á árinu 2023 og mælast í kring um 5% að ári liðnu.

Versnandi verðbólguhorfur og hraðari eftirspurnarvöxtur en við væntum í byrjun ársins hefur svo sagt til sín í þróun stýrivaxta á árinu og breyttum horfum um vaxtastigið á komandi misserum. Í upphafi ársins áttum við von á fremur hóflegri hækkun vaxta og að stýrivextir Seðlabankans yrðu að jafnaði 2,7% á yfirstandandi ári. Nú er orðið ljóst að meðalstýrivextir á árinu verða 4,2% og að jafnaði nokkru hærri á næsta ári.

Skoðun okkar á þróun stýrivaxtanna hefur þó ekki breyst verulega frá miðju ári. Við spáðum í september að stýrivextir myndu enda árið í 6% eins og raunin varð. Þá eru allgóðar líkur á því að vextir hækki ekki frekar enda eru að koma jafnt og þétt fram skýrari merki um betra jafnvægi á íbúðamarkaði og hægari eftirspurnarvöxt bæði á undanförnum mánuðum og eins í vísbendingum um þróunina á komandi fjórðungum.

Góðæri á Íslandi þrátt fyrir misviðrasaman heimsbúskap

Samandregið má segja að sýn okkar á útflutningshlið hagkerfisins í ársbyrjun hafi gengið allvel eftir en innlend eftirspurn, sér í lagi einkaneysla, hafi reynst mun kraftmeiri en við væntum. Síðarnefnda þróunin endurspeglast svo í hraðari hjöðnun atvinnuleysis og óhagstæðari utanríkisviðskipta en við bjuggumst við í janúar. Meiri viðskiptahalli en við spáðum hefur svo haft sitt að segja um veikari krónu á síðari hluta ársins en búist var við eftir talsverða styrkingu framan af ári. Veikari króna, meiri erlend verðbólga og þróttmeiri íbúðamarkaður setti mark sitt á verðbólguþróun ársins og kallaði á sterkari viðbrögð Seðlabankans en við höfðum gert ráð fyrir í ársbyrjun.

Þótt verðbólga hafi reynst þrálátari og vextir hækkað meira en flestir bjuggust við stendur íslenskt hagkerfi enn býsna styrkum fótum og staða heimila, fyrirtækja og hins opinbera er í stórum dráttum fremur sterk, hvort sem er í sögulegu tilliti eða í samanburði við helstu nágrannaþjóðir. Við erum því í ágætis færum til að takast á við hægari vöxt og aðlögun að betra jafnvægi í efnahagslífinu á árinu sem brátt fer í hönd.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband