Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,1% í janúar frá fyrri mánuði. Ef spáin rætist mun ársverðbólga aukast úr 4,5% í 4,9%. Óvissa um mælinguna er talsverð að þessu sinni. Áhrif kílómetragjalds og afnáms vörugjalda á eldsneyti - og hvernig þau munu birtast í mælingu Hagstofunnar – eru sérstaklega óljós. Þá ríkir einnig óvissa hversu mikið bílar hækka í verði í kjölfar breytinga á vörugjöldum. Janúarútsölur og lækkun flugfargjalda eru á sínum stað í mánuðinum sem hafa áhrif til lækkunar á vísitölunni á meðan ýmsar gjaldskrárhækkanir og krónutöluhækkanir leiða til hækkunar.
Verðbólguspá: Verðbólga eykst í janúar
Verðbólga mun aukast talsvert í janúar samkvæmt spá okkar. Helsta ástæðan er ný lög sem tóku gildi um áramót um rekstur og kostnað ökutækja. Óvissan um mælinguna er talsverð. Verðbólgutölur í janúarmánuði verða nýjasta mælingin þegar peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í byrjun febrúar.
Stærsta óvissan liggur í flutningum
Um áramótin tóku í gildi lög um kílómetragjald sem er ljóst að mun hafa áhrif á vísitölu neysluverðs. Greiningaraðilar hafa verið hreinskilnir um að óvissan vegna áhrifa breytinga á gjaldtöku ökutækja sé mikil. Hagstofan hefur jafnframt bent á að áhrifin af upptöku kílómetragjalds séu óljós og nær fordæmalaus. Því liggur fyrir að erfitt er að meta þau með nákvæmni og má segja að greiningaraðilar renni nokkuð blint í sjóinn við að meta áhrif gjaldsins á mælinguna.
Hagstofan mun flokka kílómetragjald sem veggjald, þar sem gjaldið er háð notkun á vegum. Hingað til hafa veggjöld í vísitölunni nær eingöngu endurspeglað bílastæðagjöld og notkun jarðganga, og því haft takmarkað vægi í vísitölunni. Með þessari breytingu er ljóst að vægi liðarins mun aukast verulega - líklega á kostnað eldsneytis sem lækkar talsvert vegna afnáms vörugjalda.
Um áramótin tóku einnig í gildi breytingar á lögum um vörugjöld á bílum. Vörugjöld af bílum sem ganga fyrir rafmagni munu falla niður en á móti lækkar rafbílastyrkurinn úr 900 þúsund í 500 þúsund. Þá munu vörugjöld á bensín- og dísilbíla hækka talsvert.
Kílómetragjald og vörugjald
Samkvæmt mælingu okkar mun eldsneytisverð lækka um 29% og með lækkuðu vægi eldsneytis hefur það um -0,67 áhrif á vísitöluna. Á móti spáum við því að kílómetragjaldið hafi 0,76% áhrif til hækkunar. Miðað við þetta mun því breyting á þessum gjöldum hafa um 0,09 heildaráhrif á vísitölu neysluverðs. Það er í samræmi við mat Fjármálaráðuneytisins sem áætlar að heildarbreytingin geti hækkað vísitöluna um +0,0-0,1%.
Bílar munu hækka í verði um 7,5% milli mánaða samkvæmt verðmælingu okkar og hefur sú hækkun 0,43% áhrif á vísitöluna. Eðli málsins samkvæmt hækka rafmagnsbílar minnst í verði og sumir standa í stað á meðan mesta hækkunin er á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Það dregur úr heildarhækkuninni í mælingunni að rafmagnsbílar eru með stærstu hlutdeildina í bílakaupum heimilanna. Spá okkar um bílverð er helsta ástæða þess að við hækkum spá okkar í janúar frá bráðabirgðaspánni þar sem útlit er fyrir að bílverð hafi hækkað meira í ársbyrjun en við gerðum ráð fyrir áður.
Janúarútsölur og lækkun flugfargjalda
Eins og gjarnan í janúar eru útsölur í fullum gangi og virðast vera svipaðar að umfangi og í fyrra. Við spáum því að flokkurinn Fatnaður og skór lækki um 7,65% sem hefur -0,29% áhrif á vísitöluna. Þá teljum við að Húsgagnaliðurinn (sem heitir nú Innanstokksmunir, heimilisbúnaður og venjubundið viðhald heimilis) lækki um 4,83% sem hefur -0,23% áhrif.
Árstíðarbundin lækkun flugfargjalda er einnig á sínum stað. Flugfargjöld hækkuðu um 27% í desember, sem var nokkuð meiri hækkun en venjulega. Samkvæmt mælingu okkar munu þau lækka um tæplega 17% í janúar, sem hefur -0,33% áhrif á VNV.
Aðrar flokkar sem hækka
Ýmsar hækkanir eiga sér svo stað um áramót. Helst má nefna krónutölugjöld á áfengi og tóbak sem er á sínum stað og hækkar sá liður um 3,6% (0,09 áhrif á VNV) á milli mánaða í janúar. Gjaldskrárhækkanir dreifast á ýmsa flokka og að húsnæðisliðnum undanskildummá nefna Menntun sem hækkar um 1,2% (0,02% áhrif á VNV). Þá hækkar verð á Matar og drykkjarvörum um 0,3% (0,05% áhrif á VNV). Það kom á óvart að lækkun mældist í matvörum í síðasta mánuði.
Húsnæðisliðurinn hækkar um 0,5% (0,15% áhrif á VNV) samkvæmt spá okkar. Gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga hafa áhrif til hækkunar, en hitaveitukostnaður hækkar lítið þar sem Veitur hækkuðu óvænt verðið í desember og sú mæling skilaði sér inn í desembermælinguna. Um áramótin tóku í gildi umfangsmiklar breytingar á leigumarkaði, m.a. bann við vísitölutengingu styttri leigusamninga og strangari reglur um leiguhækkanir. Fylgst verður náið með þróun leiguverðs næstu mánuði vegna þessa.
Nýtt flokkunarkerfi
Hagstofan tók í notkun nýtt flokkunarkerfi vísitölu neysluverðs um áramótin og framvegis verða verðbólgutölur birtar samkvæmt því. Með uppfærslunni verður flokkun neyslukörfunnar nákvæmari og aðgreining á milli vara og þjónustu skýrari.
Helsta sýnilega breytingin er að yfirflokkum fjölgar úr 12 í 13 þar sem við bætist flokkurinn Tryggingar og fjármálaþjónusta. Einnig breytist heiti sumra flokka og í takti við breytta tíma flytjast sumir undirliðir milli yfirflokka. Nánari upplýsingar um nýja flokkunarkerfið má finna hér.
Verðbólguhorfur næstu mánaða
Það er skammt stórra högga á milli í verðbólgutaktinum. Í nóvember mældist ársverðbólga í sínum lægstu gildum í fimm ár. Í desember hækkaði hún hins vegar talsvert umfram spár og mældist 4,5% og nú er útlit fyrir að hún aukist enn frekar í janúar. Ef spáin okkar rætist og verðbólga mælist 4,9% er það mesta verðbólga síðan í október 2024.
Ef litið er á björtu hliðarnar, og spáin okkar reynist nærri lagi, er aukningin að mestu leyti vegna nýrra laga um ökutæki en ekki vegna undirliggjandi verðbólguþrýstings. Samt sem áður er það talsvert áhyggjuefni að verðbólga sé að nálgast 5% og þar með forsenduákvæðið í Stöðugleikasamningum. Sé verðbólga í sumarlok meiri en forsenduákvæðið skilgreinir geta samningsaðilar krafist endurskoðunar á samningunum. Útlitið fram á veginn er þó að verðbólga hjaðni. Bráðabirgðaspá okkar er svohljóðandi:
- Febrúar: 0,7% hækkun VNV (4,7% ársverðbólga) – Útsölulok í helstu liðum.
- Mars: 0,6% hækkun VNV (4,9% ársverðbólga) – Útsölur ganga að fullu til baka, flugverð hækkar í aðdraganda páska.
- Apríl: 0,3% hækkun VNV (4,2% ársverðbólga) – Lítilsháttar hækkun í flestum liðum, minni hækkun á flugfargjöldum vegna tímasetningar páska.
Verðbólga sveiflast til í mars og apríl vegna tímasetningar páska. Ef þessi bráðabirgðaspá rætist mun verðbólga mælast 4,2% í apríl. Það er þó enn yfir vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) og talsvert frá markmiðinu sjálfu (2,5%). Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans verður tilkynnt 4. febrúar og verður nefndinni líklega nokkur vandi á höndum að vega saman skýrari merki um kólnun hagkerfisins annars vegar, og hins vegar þráláta verðbólgu.
Höfundur
Lagalegur fyrirvari
Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).
Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.
Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.
Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.
Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.
Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).
BANDARÍKIN
Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.
KANADA
Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.
ÖNNUR LÖND
Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.

