Verðbólguspá: Ársverðbólga mælist 5,9% í júlí

Greining Íslandsbanka spáir því að ársverðbólga mælist 5,9% í júlí. Árstakturinn þokast því lítillega upp, eða um 0,1%. Samkvæmt spánni verður hjöðnun verðbólgu hæg allra næstu misseri en hraðari þegar líða fer á haustið. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 5% í lok árs. Verðbólgan mun ekki ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans á spátímanum en verður komin ansi nálægt því árið 2026.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,1% í júlímánuði. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga hækka lítillega úr 5,8% í 5,9%. Sumarútsölur setja svip sinn á mælinguna eins og venjan er í júlímánuði. Árstíðabundin hækkun flugfargjalda útskýrir stærstan hluta hækkunarinnar auk þess sem húsnæðisliðurinn hækkar. Hagstofa birtir vísitölu neysluverðs þann 24. júlí næstkomandi.

Húsnæðisliður og flugfargjöld helstu hækkunarvaldar

Húsnæðisliðurinn útskýrir næst stærstan hluta hækkunar VNV í mánuðinum að þessu sinni. Vísbendingar eru um spennu á íbúða- og leigumarkaði eins og við fjölluðum nýlega um, og útlit er fyrir að ástandið verði tregbreytanlegt allra næstu misseri. Við spáum því að húsnæðisliðurinn hækki um 0,65% (0,18% áhrif á VNV), þar af útskýrir 0,8% hækkun reiknaðrar húsaleigu 0,15% áhrif á VNV.

Stærstan hluta hækkunar VNV útskýrir árviss hækkun flugfargjalda. Þar sem samdráttur er farinn að gera vart við sig í ferðaþjónustu þetta sumarið miðað við sama tíma í fyrra verður hækkun flugfargjalda með minna móti en ella. Við spáum því að liðurinn ferðir og flutningar hækki um 1,4% (0,21% áhrif á VNV), þar af útskýrir 9,8% hækkun flugfargjalda (0,17% áhrif á VNV) stærstan hluta. Endurspeglar það þróun flugfargjalda í Evrópu en þau hafa hækkað minna í sumar en útlit var fyrir í byrjun árs. Þá er einnig vert að nefna verðhækkanir á strætóferðum sem tóku gildi í mánuðinum. Samkvæmt okkar mælingum verður verð á bensíni og dísilolíu óbreytt milli mánaða eftir lækkun í júní.

Sumarútsölur allmyndarlegar í ár

Líkt og tíðkast á þessum tíma árs eru sumarútsölur farnar á fullt skrið í mörgum verslunum. Þetta árið virðast þær ætla að hafa mikil áhrif til lækkunar VNV miðað við síðustu ár. Föt og skór lækka um 10,22% (-0,36% áhrif á VNV) samkvæmt okkar spá. Húsgögn og heimilisbúnaður lækka einnig um 1,5% (-0,08% áhrif á VNV). Báðir undirliðir lækkuðu einnig í júní, svo um er að ræða áframhaldandi lækkun nú í júlímánuði. Þetta er til marks um kólnandi spurn í hagkerfinu eftir vörum sem liðirnir ná utan um, s.s. fatnaði, raftækjum og húsbúnaði.

Samkvæmt okkar spá hækka matar- og drykkjarvörur um 0,3% (0,05% áhrif á VNV). Það er örlítið minni hækkun en síðustu tvo mánuði og sú næst minnsta á árinu ef spáin gengur eftir. Hótel og veitingastaðir munu svo hækka um 1% (0,05% áhrif á VNV) samkvæmt spánni en hægagangur í ferðaþjónustu veldur því að hækkunin er örlítið minni en á sama tíma í fyrra þar sem tilboð á hótelum og veitingastöðum þessa dagana spila inn í. Þar að auki hækka tómstundir og menning um 0,5% (0,05% áhrif á VNV).

Verðbólguhorfur næstu misseri

Vegurinn í átt að verðbólgumarkmiði hefur verið holóttur á fyrri hluta árs. Má þar helst nefna áhrif jarðhræringa á húsnæðismarkað síðustu mánuði. Þau áhrif virðast nú hafa komið fram að mestu leyti. Hins vegar er eldvirkni og jarðhræringum á Reykjanesskaga líklega langt frá því lokið. Áfram er því hætta á að innviðir og fasteignir geti orðið fyrir verulegu tjóni víðar en í Grindavík. Það gæti til að mynda sett strik í reikning við framboð á orku, sem og haft neikvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu og annarrar atvinnustarfsemi á suðvesturhorni landsins á komandi misserum.

Samkvæmt skammtímaspá okkar eru horfur á hraðari hjöðnun verðbólgu á haustmánuðum. Við gerum ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í ágúst, 0,2% hækkun í september og 0,3% hækkun í október. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 5,8% í ágúst, 5,7% í september og 5,4% í október.

Óvissuþættirnir eru þó margir. Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Sem fyrr eru ófriðaröldur á heimsvísu einnig stór óvissuþáttur, stigmögnun á þeim vettvangi gæti haft veruleg neikvæð áhrif á milliríkjaviðskipti, hrávöruverð og verðlag hér sem erlendis með tilheyrandi truflunum á aðfangakeðjum. Á seinni helmingi árs mun fastvaxtatímabilum margra óverðtryggðra íbúðalána ljúka. Þegar fastvaxtatími stærsta hluta þeirra mun hafa runnið sitt skeið fyrir mitt ár 2025, geta áhrif hárra vaxta á heimili og fyrirtæki orðið mun sterkari á tiltölulega stuttum tíma og dregið meira úr neyslu og fjárfestingu en spáð er.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband