Verðbólguspá: Ársverðbólga hjaðnar í september

Ársverðbólga mun hjaðna í september samkvæmt okkar spá. Árvissir liðir lita mælinguna þar sem áhrif útsöluloka og lækkun flugfargjalda vegast á. Lægri kostnaður við skólamáltíðir kemur einnig við sögu í mánuðinum auk þess sem húsnæðisliður vegur enn þungt til hækkunar.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,1% í september frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna úr 6,0% í 5,7%. Samkvæmt spánni mun verðbólga hafa hjaðnað nokkuð hraustlega þegar árið verður liðið í aldanna skaut.  Árvissir liðir vegast á í mælingu septembermánaðar sem verður keimlík ágústmælingunni. Þar er ekki síst um að ræða áhrif útsöluloka en þau voru með mildara móti í ágúst svo ætla má að þau teygi sig af meiri krafti inn í september. Á móti vegur árviss lækkun flugfargjalda sem sést jafnan í september eftir háönn sumarsins í ferðaþjónustu.

Áhrif lægri flugfargjalda drjúg en útsölulok gera vart við sig

Líkt og í mælingu ágústmánaðar vegast á lækkanir flugfargjalda og áhrif útsöluloka. Flugfargjöld lækkuðu í takt við okkar spá í ágúst og við spáum 11,1% lækkun nú í september (-0,19% áhrif á VNV). Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkar einnig hraustlega þar sem eldsneytisverð lækkar um 1,5% (-0,05% áhrif á VNV) í mánuðinum samkvæmt okkar mælingum. Saman leiða lækkanir beggja liða til 1,7% lækkunar ferða og flutninga í september (-0,26% áhrif á VNV).

Áhrif útsöluloka teygja sig af meiri krafti inn í september þar sem þau voru nokkuð mild í ágúst síðastliðnum. Við spáum því að verð á fötum og skóm hækki um 5,2% (0,18% áhrif á VNV) í mánuðinum. Einnig hækkar verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 1% (0,06% áhrif á VNV) en áhrif útsöluloka í þeim undirlið voru meiri í ágúst.

Matvara lækkar og gjaldfrjálsar skólamáltíðir koma við sögu

Áhrif af aðgerðum stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum snemma á árinu koma nú að hluta til sögunnar í VNV. Samið var um gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með þessu skólaári en það veldur töluverðri lækkun á menntunarliðnum sem lækkaði einnig hressilega í ágúst sökum niðurfellingar skólagjalda í nokkrum háskólum landsins. Samkvæmt okkar spá lækkar verð á menntun um 2,68% (-0,03% áhrif á VNV) en nokkur óvissa ríkir um það mat.

Verð á mat og drykk lækkaði um 0,5% (-0,07% áhrif á VNV) í ágúst en útlit er fyrir áframhaldandi lækkun nú í september þar sem áhrifa af aukinni samkeppni á dagvörumarkaði gætir. Við spáum 0,4% lækkun (-0,06% áhrif á VNV) í september. Næstu mánuði er svo útlit fyrir að verðhækkanir matvöru verði takmarkaðar en þegar lengra líður á spátímann eykst óvissan um það.

Húsnæðisliður vegur þyngst til hækkunar að árvissum liðum frátöldum

Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,65% í mánuðinum (0,12% áhrif á VNV). Enn eru fá merki um að hækkanir húsaleigu fari að gefa eftir á næstu misserum og því útlit fyrir að húsnæðisliðurinn muni áfram útskýra stóran hluta verðbólgu næstu mánuði. Hins vegar leiðir vísitölutrygging meirihluta leigusamninga til þess að með hægari hækkunartakti VNV mun hægja á hækkun húsaleigu sem vísitölutryggingin veldur.

Horfur fyrir komandi vetur

Ársverðbólga mældist 6,0% í ágúst eftir að hafa hjaðnað úr 6,3%. Sem stendur er verðbólgan í sínu næst lægsta gildi frá því í janúar árið 2022. Gangi framangreind spá eftir er um að ræða lægsta gildi ársverðbólgu síðan þá þegar hún mældist einmitt 5,7%. Þar sem ársverðbólga hjaðnaði meira en við áttum von á í ágúst hafa horfurnar fyrir veturinn breyst örlítið. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir:

  • Október – 0,2% (ársverðbólga 5,3%)
  • Nóvember – 0,2% (ársverðbólga 5,1%)
  • Desember – 0,4% (ársverðbólga 5,1%)

Óvissuþættir eru sem fyrr nokkrir, einna helst gengi krónu sem þarf að haldast nokkuð stöðugt en það gaf aðeins eftir síðsumars. Verðbólguþróun í helstu viðskiptaríkjum Íslands hefur verið hagfelld og hagkerfi flestra þeirra virðast vera að ná lendingu. Verðbólga hefur hjaðnað og vaxtalækkanir eru ýmist hafnar eða í þann mund að hefjast í þessum löndum og óvissa varðandi framhaldið hefur minnkað. Helsta óvissan varðandi verðbólguþróun á komandi fjórðungum eru fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu á rekstur ökutækja um næstu áramót og hver áhrifin verða á mælda verðbólgu yfir árið 2025. Líkur eru á að breytingin kippi verðbólgu rækilega niður í janúar næstkomandi en það veltur á útfærslu breytingarinnar.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.