Mæling ágústmánaðar er yfir öllum birtum spám en við bjuggumst við einhverjum áhrifum af útsölum í ágúst eftir vægast sagt lítil áhrif þeirra í júlí. Við spáðum 0,15% hækkun á milli mánaða. Verð á fötum og skóm, húsgögnum og fleiri slíkum liðum hækkuðu þvert á við spá okkar. Liðurinn Ferðir og flutningar hækkaði minna en við var búist en ætla má að hertari sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hafi eitthvað um það að segja. Einkaneyslan hefur tekið vel við sér eftir samkomubannið fyrr á árinu og eru áhrif þess farin að hafa áhrif á verðbólguna.
Í Fréttatilkynningu sem Hagstofan birti samhliða nýjum verðbólgutölum segir að mæling ágústmánaðar hafa gengið eðlilega fyrir sig en þó vanti nokkrar verðmælingar.