Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólgan þokast upp

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,45% í júlí. Mælist 12 mánaða verðbólga nú 3,2% og heldur því áfram þokast upp. Verðbólgan er nú 0,7% yfir markmiði Seðlabankans sem gaf út uppfærða þjóðhagsspá í vikunni þar sem verðbólguspá þeirra hafði hliðrast lítillega upp á við. Svo virðist sem áhrifa veikingar krónunnar og lausara taumhalds peningastefnu sé loks farið að gæta í verðbólgumælingum eftir tiltölulega stöðuga tíð framan af ári. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælis 3,4% undanfarna 12 mánuði. Því má segja að húsnæðisþátturinn sé að vega til lækkunar á verðbólgu í ágústmánuði líkt og fyrri mánuðinn.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Mæling ágústmánaðar er yfir öllum birtum spám en við bjuggumst við einhverjum áhrifum af útsölum í ágúst eftir vægast sagt lítil áhrif þeirra í júlí. Við spáðum 0,15% hækkun á milli mánaða. Verð á fötum og skóm, húsgögnum og fleiri slíkum liðum hækkuðu þvert á við spá okkar. Liðurinn Ferðir og flutningar hækkaði minna en við var búist en ætla má að hertari sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hafi eitthvað um það að segja. Einkaneyslan hefur tekið vel við sér eftir samkomubannið fyrr á árinu og eru áhrif þess farin að hafa áhrif á verðbólguna.

Í Fréttatilkynningu sem Hagstofan birti samhliða nýjum verðbólgutölum  segir að mæling ágústmánaðar hafa gengið eðlilega fyrir sig en þó vanti nokkrar verðmælingar.

Lítil áhrif af sumarútsölum þetta árið

Helsti munur á milli spár okkar og nýjum tölum Hagstofunnar liggur í ofmati okkar á verðlækkunum sem alla jafna fylgja sumarútsölunum. Í júlí voru áhrif af útsölum rúmlega 7% minni en meðaltal síðustu 5 ára. Búist var við einhverjum áhrifum af þeim í ágúst en svo var ekki. Liðurinn ferðir og flutningar hækkuðu minna en við var búist (0,5% og 0,1% í VNV). Eldsneyti hækkaði um 0,88% á milli mánaða (0,03% í VNV) sem er sama og spá okkar gerði ráð fyrir.

Mikið líf á íbúðamarkaði

Íbúðamarkaðurinn hefur verið nokkuð líflegri í sumar en síðustu árin og voru til að mynda slegin met yfir hrein ný útlán viðskiptabankanna í maí og aftur í júní. Vert er þó að nefna að ásókn í endurfjármögnun og óverðtryggð lán gæti einnig haft sitt að segja þar. Stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað umtalsvert á árinu og ætla má að áhrif vaxta séu að viðhalda lífi í fasteignamarkaðnum þrátt fyrir mikið atvinnuleysi og samdrátt í efnahagslífinu. Reiknuð húsleiga hækkaði um 0,54% á milli mánaða (0,09% í VNV). Liðurinn er samsettur af verðþróun íbúðarhúsnæðis og þróun vaxta og virðast áhrif fyrrnefnda liðarins vega þyngra til hækkunar en sá seinni til lækkunar. Það er öfugt við þróun júlímánaðar þegar þessi liður lækkaði. Hægt er að lesa nánar um áhrif vaxta á þróun fasteignaverð Hér.

Flestar spár sem gefnar voru út í upphafi árs gerðu ráð fyrir raunlækkun íbúðarverðs en þvert á móti hefur fasteignaverð viðhaldið vexti sínum og jafnvel vaxið enn hraðar. Markaðsverð húsnæðis hækkaði um rúmlega eitt prósent á milli mælinga og hefur ekki hækkað svo mikið síðan í mars en þá voru stýrivextir lækkaðir um 1 prósent.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 7,8% og hefur ekki mælst viðlíka hækkun á ársgrunvelli síðan í apríl 2018. Líkt og fyrri daginn er hækkunin hröðust á landsbyggðinni en verð á landsbyggðinni heldur áfram að sækja í sig veðrið (12% á ársgrundvelli). Á höfuðborgarsvæðinu reis verð fjölbýlis um 1% og sérbýlis um 2,9% á milli mánaða. Á ársgrundvelli hækkaði verð á fjölbýli og sérbýli um 6,2% og 8,1% og hefur ekki hækkað svo mikið síðan í febrúar og ágúst 2018.

Verðbólguhorfur þokast hærra

Verðbólguhorfur út árið hafa hækkað jafnt og þétt á síðustu þremur mánuðum. Við spáum 0,2% hækkun VNV í september, 0,2% hækkun í október og 0,1% hækkun í nóvember. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 3,3% í september og 3,1% í október. Því stefnir í að verðbólgan verði yfir markmiði næstu mánuðina. Umtalsverð veiking krónunnar og lauslegt taumhald peningastefnunefndar hefur mest til að segja um hækkun verðbólgu síðustu mánuði en mikil gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur burði til þess að sporna gegn óhóflegum sveiflum á gjaldeyrismarkaði.

Enn ríkir mikil óvissa, hvert sem litið er í hagkerfinu og mun framhaldið litast af sóttvarnaraðgerðum við landamærin og hvenær bóluefni mun vera kynnt á markað. Helsta forsenda fyrir spá okkar er að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi. Verðbólguspá bankans er þó heldur hærri en við var búist framan af ári og hafa vaxtalækkanir og gengisbreytingar mest um það að segja. Gera má ráð fyrir að ef vextir taki að hækka á nýjan leik gæti það slegið allverulega á einkaneyslu og vöxt íbúðarverðs, en tæpast er það áhyggjuefni næstu misserin.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband