Að hve miklu leyti hefur fasteignaverð áhrif á vaxtaákvarðanir Seðlabankans og hvaða áhrif hafa vextirnir á móti á verðið? Svo hefur virst sem vextirnir fylgi fremur verðlagi, þar með talið íbúðaverði, en merki eru um að sambandið sé jafnvel að snúa við upp á síðkastið.
Síðastliðinn áratug, þá sérstaklega síðustu tvö árin, hafa vextir lækkað til muna sem viðhaldið hefur hækkandi íbúðaverði þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í efnahagslífinu um þessar mundir. Áhugavert er að athuga nánar hver fylgni vaxta og fasteignaverðs hefur verið á síðustu árum og velta vöngum yfir því hvort viðvarandi lágir vextir gætu dregið úr vægi annarra áhrifaþátta á fasteignaverð, svo sem byggingarkostnaðar.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu
Síðastliðin áratug hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu farið í gegnum samfleytt hækkunartímabil þar sem fermetraverð hefur að jafnaði ríflega tvöfaldast. Mest hefur hækkunin verið í Mosfellsbæ, Kópavogi og á Seltjarnarnesi eða um 110%. Ástæðu umtalsverðar hækkunar íbúðaverðs má rekja til þróun ýmissa þátta svo sem vaxandi byggingarkostnaðar, lækkandi vaxtastigs og skorts á framboði. Vert er að vekja athygli á því hve verðþróun sérbýlis og fjölbýlis hefur verið ójöfn síðastliðinn áratug en fermetraverð fjölbýlis hækkaði um tæp 121% en sérbýlis um rúm 85%.