Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga nálgast markmið

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,1% í nóvember frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna frá fyrri mánuði úr 2,8% í 2,7%. Verðbólga hefur þá ekki mælst minni í rúmt ár.


Samantekt

  • Spáum 0,1% hækkun VNV í nóvember

  • Verðbólga hjaðnar úr 2,8% í 2,7%

  • Flugfargjöld og eldsneytisverð lækka

  • Aðrir liðir hækka örlítið milli mánaða

  • Verðbólga við markmið næstu misserin

Verðbólguhorfur næstu missera eru góðar bæði vegna stöðugrar krónu en einnig vegna væntinga um hóflegar launahækkanir og útlits fyrir hægari hækkun íbúðaverðs en verið hefur. Við spáum því að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans strax í næsta mánuði og mælist þá 2,4%. Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember kl. 09.00 þann 27. nóvember næstkomandi.

Enn líf á íbúðamarkaði?

Við spáum því að húsnæðisliðurinn hækki í heild um 0,5% (0,15% í VNV). Helsta ástæða þeirrar hækkunar er reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, og gerum við ráð fyrir að liðurinn hækki um 0,80% (0,13% í VNV). Þá gerum við ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki um 0,4% (0,2% í VNV).

Í síðasta mánuði hækkaði reiknaða húsaleigan um 1,05% milli mánaða og nú samkvæmt okkar mælingu má ætla að sú þróun haldi áfram í nóvember. Það virðist því enn vera allnokkurt líf í íbúðamarkaði um þessar mundir.

októbermánuði hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 1,4% frá fyrri mánuði og hefur mánaðarhækkunin ekki verið meiri í eitt og hálft ár. Það verður því athyglisvert að sjá mælingar Hagstofunnar á næstu mánuðum. Þá kemur í ljós hvort íbúðamarkaðurinn sé að taka við sér að nýju eða hvort um tímabundinn hækkunarkipp er að ræða.  

Flugfargjöld og eldsneyti lækka í verði

Við spáum því að liðurinn ferðir og flutningar lækki um 1,2% (-0,17% í VNV). Það helsta sem vegur til lækkunar í þeim lið er árstíðarbundin lækkun flugfargjalda ásamt verðlækkun á eldsneyti. Á síðustu fimm árum hafa flugfargjöld lækkað að meðaltali um 14% í nóvember. Við teljum að nú lækki flugfargjöld um 10% (-0,19% í VNV) milli mánaða. Einnig spáum við því að eldsneyti lækki um 0,4% (-0,01% í VNV).

Enginn einn liður vegur til afgerandi hækkunaráhrifa í mánuðinum. Meðal þeirra liða sem almennt þokast upp á við milli mánaða eru matar- og drykkjarvörur sem hækka um 0,15% (0,02% í VNV), húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkar um 0,4% (0,02% í VNV) ásamt tómstundum og menningu sem hækkar um 0,2% (0,02% í VNV).

Verðbólga í markmiði á næsta ári

Verðbólguhorfur eru nokkuð góðar fyrir næstu misserin. Við spáum 0,5% hækkun VNV í desember, 0,4% lækkun í janúar og 0,5% hækkun í febrúar. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,7% í febrúar, en mælast undir markmiði Seðlabankans bæði í desember og janúar. Í janúar togast á útsöluáhrif annars vegar og hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum hins vegar. Í febrúar ganga svo útsöluáhrifin til baka að verulegu leyti.

Þá gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 2,5% árið 2020 og 2,8% árið 2021. Helstu óvissuþættir í spá okkar eru hugsanleg veiking krónu og launakröfur í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka. Á móti gæti þróun íbúðaverðs leitt til minni verðbólgu en hér er spáð.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband