Verðbólguhorfur næstu missera eru góðar bæði vegna stöðugrar krónu en einnig vegna væntinga um hóflegar launahækkanir. Við spáum því að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans einnig í byrjun næsta árs og mælast 2,4% í janúar en muni svo mælast örlítið yfir markmið í febrúar og mars. Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl. 09.00 þann 19. desember næstkomandi.
Verðbólga loksins aftur undir markmið?
Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,5% í desember frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna frá fyrri mánuði úr 2,7% í 2,4%. Verðbólga verður því undir markmiði Seðlabankans í árslok gangi spá okkar eftir. Verðbólga hefur ekki verið undir markmiði í eitt og hálft ár.
Samantekt
Spáum 0,5% hækkun VNV í desember
Verðbólga hjaðnar úr 2,7% í 2,4%
Flugfargjöld vega þyngst til hækkunar
Flestir aðrir liðir hækka örlítið milli mánaða
Verðbólga við markmið næstu misserin
Flugfargjöld hækka eins og venjan er
Það sem vegur þyngst til hækkunar VNV í desember eru flugfargjöld sem eiga það til að hækka töluvert í aðdraganda jólanna. Undanfarin fimm ár hafa flugfargjöld hækkað að meðaltali um 17% í desember. Við spáum því að flugfargjöld hækki um ríflega 14% (0,25% í VNV) milli mánaða. Aftur á móti spáum við því að eldsneyti lækki milli mánaða um 0,5% (-0,02 í VNV).
Fyrir aðra liði í mánaðarbreytingu VNV í desember er enginn einn liður sem vegur til afgerandi hækkunar- né lækkunaráhrifa en flestir liðir þokast eilítið upp á við. Helstu liðir sem hafa hækkunaráhrif að fluginu undanskildu eru matar- og drykkjarvörur sem hækka um 0,4% (0,05% í VNV) ásamt fatnaði og skóm sem hækkar um 0,9% (0,04 í VNV).
Við gerum ráð fyrir því að húsnæðisliðurinn muni sigla lygnan sjó í desember og hækki í heild um 0,2% (0,06% í VNV). Við spáum því að reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, hækki einungis um 0,2% (0,03% í VNV) milli mánaða en síðastliðna þrjá mánuði hefur reiknaða húsaleigan hækkað samtals um 2%. Þá gerum við ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki um 0,4% (0,02% í VNV).
Verðbólga við markmið á næstu misserum
Verðbólguhorfur eru nokkuð góðar næstu misserin, en við gerum þó ráð fyrir að verðbólga muni aftur mælast yfir verðbólgumarkmiði á næstu mánuðum. Við spáum 0,4 lækkun VNV í janúar, 0,5% hækkun í febrúar og 0,5% hækkun í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,7% í mars. Í janúar togast á útsöluáhrif annars vegar og hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum hins vegar. Í febrúar og mars ganga svo útsöluáhrifin til baka.
Þá gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 2,7% árið 2020 og 2,9% árið 2021. Helstu óvissuþættir í spá okkar eru gengi krónunnar sem hugsanlega getur veikst ásamt launakröfum í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka.