Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga loksins aftur undir markmið?

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,5% í desember frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna frá fyrri mánuði úr 2,7% í 2,4%. Verðbólga verður því undir markmiði Seðlabankans í árslok gangi spá okkar eftir. Verðbólga hefur ekki verið undir markmiði í eitt og hálft ár.


Samantekt

  • Spáum 0,5% hækkun VNV í desember

  • Verðbólga hjaðnar úr 2,7% í 2,4%

  • Flugfargjöld vega þyngst til hækkunar

  • Flestir aðrir liðir hækka örlítið milli mánaða

  • Verðbólga við markmið næstu misserin

Verðbólguhorfur næstu missera eru góðar bæði vegna stöðugrar krónu en einnig vegna væntinga um hóflegar launahækkanir. Við spáum því að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans einnig í byrjun næsta árs og mælast 2,4% í janúar en muni svo mælast örlítið yfir markmið í febrúar og mars. Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl. 09.00 þann 19. desember næstkomandi.

Flugfargjöld hækka eins og venjan er

Það sem vegur þyngst til hækkunar VNV í desember eru flugfargjöld sem eiga það til að hækka töluvert í aðdraganda jólanna.  Undanfarin fimm ár hafa flugfargjöld hækkað að meðaltali um 17% í desember. Við spáum því að flugfargjöld hækki um ríflega 14% (0,25% í VNV) milli mánaða. Aftur á móti spáum við því að eldsneyti lækki milli mánaða um 0,5% (-0,02 í VNV).

Fyrir aðra liði í mánaðarbreytingu VNV í desember er enginn einn liður sem vegur til afgerandi hækkunar- né lækkunaráhrifa en flestir liðir þokast eilítið upp á við. Helstu liðir sem hafa hækkunaráhrif að fluginu undanskildu eru matar- og drykkjarvörur sem hækka um 0,4% (0,05% í VNV) ásamt fatnaði og skóm sem hækkar um 0,9% (0,04 í VNV).

Við gerum ráð fyrir því að húsnæðisliðurinn muni sigla lygnan sjó í desember og hækki í heild um 0,2% (0,06% í VNV). Við spáum því að reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, hækki einungis um 0,2% (0,03% í VNV) milli mánaða en síðastliðna þrjá mánuði hefur reiknaða húsaleigan hækkað samtals um 2%. Þá gerum við ráð fyrir að greidd húsaleiga hækki um 0,4% (0,02% í VNV).

Verðbólga við markmið á næstu misserum

Verðbólguhorfur eru nokkuð góðar næstu misserin, en við gerum þó ráð fyrir að verðbólga muni aftur mælast yfir verðbólgumarkmiði á næstu mánuðum. Við spáum 0,4 lækkun VNV í janúar, 0,5% hækkun í febrúar og 0,5% hækkun í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,7% í mars. Í janúar togast á útsöluáhrif annars vegar og hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum hins vegar. Í febrúar og mars ganga svo útsöluáhrifin til baka.

Þá gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 2,7% árið 2020 og 2,9% árið 2021. Helstu óvissuþættir í spá okkar eru gengi krónunnar sem hugsanlega getur veikst ásamt launakröfum í kjarasamningum sem enn á eftir að ljúka.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í greiningu


Hafa samband