Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,37% í mars samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga lækkar því úr 4,2% í 3,8%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 2,5% og er því komin í verðbólgumarkmið Seðlabankans. Mæling marsmánaðar er heilt yfir nokkuð í takt við okkar spá en við spáðum 0,5% hækkun VNV. Mælingin er þó undir öllum birtum spám. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,4% til 0,58% hækkun VNV í mánuðinum.
Verðbólga inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs
12 mánaða verðbólga fór inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í mars í fyrsta sinn síðan í desember 2020. Matar- og drykkjarvörur vógu þyngst til hækkunar vísitölunnar í mánuðinum og reiknuð húsaleiga kom þar á eftir. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun verðbólgu fram á sumar.
Matar- og drykkjarvörur hækka áfram í verði en meiri stöðugleika gætir á húsnæðismarkaði
Verðhækkun matar- og drykkjarvara vó þyngst til hækkunar VNV í mánuðinum þar sem verð á kjöti, fisk, mjólk, ostum og eggjum höfðu mest áhrif ásamt því að verð á sælgæti hækkaði nokkuð. Verðlagsnefnd búvara ákvað að hækka lágmarksverð á mjólk til bænda og heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara í febrúar og hafði það áhrif til hækkunar VNV í mars. Aðstæður við uppskeru á kakói hafa einnig verið erfiðar síðustu misseri og hafa skilað sér í miklum verðhækkunum á kakóafurðum. Alls hækkuðu matar- og drykkjarvörur um 0,67% í verði (0,10% áhrif á VNV).
Reiknuð húsaleiga vó næst þyngst til hækkunar VNV í mánuðinum og hækkaði hún um 0,5% (0,09% áhrif á VNV). Hækkunin var í takt við væntingar en við höfðum spáð 0,4% hækkun (0,08% áhrif á VNV). Er það annan mánuðinn í röð sem hækkunin er í grennd við hálfa prósentu eftir nokkuð óvænta lækkun í janúar. Við eigum von á svipuðum hækkunartakti reiknaðrar húsaleigu næstu mánuði.
Mildari áhrif útsöluloka vegna sterkari krónu?
Það sem helst olli fráviki í mælingu VNV frá okkar verðbólguspá í mánuðinum voru mildari áhrif útsöluoka en við gerðum ráð fyrir. Við áttum von á því að vetrarútsölur myndu ganga til baka að fullu í mars þar sem þær gengu aðeins til baka að hluta í febrúar. Það gerðu þær ekki og meira að segja gengu áhrif útsöluloka að hluta til baka í flokki húsgagna, heimilisbúnaðar o.fl. á meðan verðhækkun á fötum og skóm var minni en við höfðum spáð. Alls hækkaði verð á fötum og skóm um 2,38% (0,09%) í mánuðinum og verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. lækkaði um 0,89% (-0,04% áhrif á VNV) en þar vó þyngst lægra verð á raftækjum sem höfðu hækkað allhressilega í verði í febrúar. Að okkar mati gæti hér verið um að ræða áhrif sterkari krónu en hún hefur styrkst allnokkuð síðustu vikur og þegar verðbólga er skoðuð eftir eðli og uppruna má sjá að innfluttar vörur lækkuðu á milli mánaða.
Árshækkunartaktur allra kjarnavísitalna lækkaði á milli mánaða. Til dæmis mælist árshækkun kjarnavísitölu 4 (VNV án búvöru, grænmetis, ávaxta, bensíns, opinberrar þjónustu og reiknaðrar húsaleigu) 2,8% og er því komin mjög nálægt markmiði. Árshækkun VNV án húsnæðis mælist 2,5% og er því komin í verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Flugfargjöld taka að hækka í aðdraganda páska
Flugfargjöld hækkuðu í takt við okkar spá en þar er um að ræða árvissa hækkun í aðdraganda páska. Þar sem páskar eru seint í apríl þetta árið mun meirihluti hækkunarinnar koma fram í næsta mánuði. Alls hækkuðu flugfargjöld um 3,18% (0,07% áhrif á VNV). Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkaði um 0,73% í mánuðinum (-0,03% áhrif á VNV) í takt við okkar spá.
Áframhaldandi hjöðnun ársverðbólgu fram á sumar
Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun ársverðbólgu fram á sumar og gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:
- Apríl: 0,6% hækkun VNV (ársverðbólga 3,8%)
- Maí: 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 3,5%)
- Júní: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,4%)
Til þess að spá okkar gangi eftir þarf gengi krónu eftir sem áður að vera nokkuð stöðugt og launaskrið takmarkað.
Krónan hefur styrkst allnokkuð nýverið og svo virðist sem kaupendahlið gjaldeyrismarkaðar sé nokkuð södd í bili á sama tíma og innflæði gjaldeyris vegna fjárfestinga hefur trúlega verið allnokkurt. Haldi krónan áfram að styrkjast mun draga enn hraðar úr innfluttri verðbólgu en gert er ráð fyrir nú. Hvað launaskrið varðar koma kjarasamningar við stóran hluta vinnumarkaðar til endurskoðunar 1. september næstkomandi ef verðbólga mælist yfir 4,95% í ágúst eða ef meðaltal 12 mánaða verðbólgu á tímabilinu mars – ágúst verður yfir 4,7%. Samkvæmt okkar spá mun 12 mánaða verðbólga mælast 3,3% þegar þar að kemur. Að okkar mati þarf því mikið að gerast til að samningar komi til endurskoðunar á þessu ári. Hins vegar mun svokallaður kauptaxtaauki í kjarasamningunum virkjast í apríl vegna hækkunar launavísitölu á almennum markaði undanfarið ár. Hækka því kauptaxtar kjarasamninga á stærstum hluta almenna vinnumarkaðarins um tæp 0,6% frá og með aprílmánuði.
Nýgerðir kjarasamningar hins opinbera við kennara gætu haft nokkur áhrif á verðbólguþróun þegar fram í sækir. Fyrsta kastið verða þó áhrifin væntanlega minniháttar og snúast fyrst og fremst um heldur meiri neyslugetu hjá þeim hluta launafólks og trúlega minna aðhald opinberra fjármála. Með tímanum gæti þó launaskrið á vinnumarkaði almennt aukist fyrir vikið og síðast en ekki síst hefur óvissa um hvað tekur við í lok samningstímabils núverandi samninga vaxið að okkar mati.
Þar að auki er óvissa af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum, miklar vendingar í þeim efnum kunna að breyta myndinni töluvert. Enn er of snemmt að fullyrða um áhrif mögulegs tollastríðs á hagkerfið. Áhrif á verðbólgu eru því óljós enda útfærsla tolla enn óljós. Peningastefnunefnd Seðlabankans mun fá eina verðbólgumælingu í viðbót fyrir næsta fund en við gerum ráð fyrir að verðbólga mælist 3,8% þegar fundurinn fer fram.