Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga hreyfist varla þrátt fyrir COVID

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,48% í apríl skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,2% en var 2,1% í mars. Verðbólga verður því áfram undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist 1,9% undanfarna 12 mánuði.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Mæling aprílmánaðar er aðeins yfir okkar spá sem og öðrum birtum spám. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða. Verð á bílum, mat og drykkjarvörum auk húsgagna voru þeir undirliðir sem helst hækkuðu meira en við væntum í okkar spá.

Mæling vísitölu neysluverðs

Í fréttatilkynningu Hagstofunnar segir að mælingar og útreikningur vísitölunnar í apríl hafi gengið vel fyrir sig en þó hafi áhrifa gætt vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi.  Margir velta því fyrir sér hvernig Hagstofan fer að því að mæla vísitölu neysluverðs þegar sumar vörur og þjónusta eru einfaldlega ekki fáanlegar í samkomubanninu sem nú stendur yfir. Í fréttatilkynningunni segir að í þeim liðum sem ekki var hægt að mæla vegna þess að þær voru tímabundið ekki fáanlegar líkt og þjónusta hárgreiðslustofa, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun hafi mæling síðasta mánaðar verið látin gilda. Sú aðferð er samkvæmt alþjóðlegum viðurkenndum matsaðferðum þegar verðmælingar fást ekki tímabundið. Það er mat Hagstofu að í apríl hafi um 10% af verðmælingu vísitölu neysluverðs verið metinn vegna aðstæðnanna.

Nánari upplýsingar ásamt fleiri vangaveltum um vísitölu neysluverðs má sjá hér.

Áhrif veikingar krónunnar gætir í verðmælingunni

Frá áramótum hefur gengi erlendra gjaldmiðla hækkað um tæp 16% að jafnaði gagnvart krónu. Verðmæling aprílmánaðar ber þess merki að áhrif þessa séu að farin að koma fram í verði á innfluttum vörum. Þar má helst nefna matar og drykkjarvörur sem hækkuðu í verði um 1,5% milli mánaða (0,20% áhrif í VNV). Innan liðarins hækkaði grænmeti og kartöflur langmest eða um 9% (0,11% í VNV) og má áætla að það sé einnig vegna mikillar eftirspurnar á þeim vörum upp á síðkastið. Verð á bílum hækkaði enn fremur um 2,3% (0,12% í VNV) auk verðs á húsgögnum og heimilisbúnaði (0,09% í VNV).

Samkvæmt mælingunni hækkaði einnig verð á flugi milli mánaða um 2,1% (0,04% í VNV) sem kemur okkur nokkuð á óvart þar sem framboð á flugi var lítið sem ekkert í mánuðinum. Þar ber þó að hafa í huga að aprílmælingin byggir að hluta á gögnum sem safnað var í febrúar og mars.

Það helsta sem vegur upp á móti hækkunum á innfluttum vörum vegna veikingar krónunnar er lækkun á eldsneytisverði. Eldsneytisverð lækkaði um 4,6% (-0,15% í VNV) milli mánaða og hefur lækkað um rúm 9% hér á landi síðustu þrjá mánuði. Þá lækkaði verð á fatnaði og skóm um 0,5% (-0,02% í VNV).

Húsnæði hækkar enn að raunvirði

Ágætur gangur var á íslenskum íbúðamarkaði á fyrsta fjórðungi ársins ef marka má þróun markaðsverðs húsnæðis í VNV. Aprílmæling Hagstofunnar á þessum lið, sem byggir á kaupsamningum í janúar-mars, hljóðaði upp á 0,8% hækkun á milli mánaða. Fjölbýli á höfuðborgarsvæði sem og verð á landsbyggðinni hækkaði milli mánaða en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði hins vegar.

Undanfarna 12 mánuði nemur hækkun markaðsverðs m.v. framangreinda vísitölu 6,3%, sem jafngildir rétt rúmlega 4% raunhækkun. Mikill munur er hins vegar á þróun á verði íbúða eftir gerð og staðsetningu. Verð á landsbyggðinni hefur þannig hækkað að jafnaði um 10,4% á þessu tímabili á meðan fjölbýli á höfuðborgarsvæði hækkaði í verði um 6,0% og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði aðeins um 2,8% á þennan mælikvarða. Athyglisvert er að sjá verð fyrrnefndu eignaflokkanna tveggja sækja í sig veðrið að nýju síðustu mánuðina, en á haustmánuðum var hækkunartaktur raunverðs almennt mjög hægur á markaðinum í heild.

Hér ber hins vegar að hafa í huga að áhrif COVID-19 faraldursins eru enn ekki komin fram að umtalsverðu leyti í þessum gögnum og verður áhugavert að fylgjast með þróun þeirra næstu mánuðina.

Horfur að verðbólga verði við markmið

Verðbólguhorfur næstu mánaða eru nokkuð góðar. Við spáum 0,2% hækkun VNV í maí, 0,3% hækkun í júní og 0,2% lækkun í júlí. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga enn mælast undir markmiði og vera 2,1% í júlí.

Við gerum ekki ráð fyrir því að verðbólga fari á mikinn skrið á næstunni, þrátt fyrir veikingu krónunnar á síðastliðnum mánuðum. Ýmsir aðrir þættir vega á móti veikingu krónunnar m.a. olíuverð og hægari hækkun íbúðaverðs. Samkvæmt spá okkar mun verðbólga mælast í grennd við markmið Seðlabankans í lok ársins og mælast að meðaltali um 2,5% árið 2021 og 2,4% árið 2022.

Mikil óvissa er til staðar þessa dagana hvað verðbólguhorfur varðar og er krónan helsti óvissuþátturinn. Forsendur eru að krónan haldist nokkuð stöðug í grennd við núverandi gengi. Hins vegar gæti þróun íbúðaverðs orðið til þess að halda meira aftur að verðbólgu þegar lengra líður á þetta ár en við gerum ráð fyrir.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband