Verðbólga hjaðnar hratt í ársbyrjun

Vísitala neysluverðs lækkaði óvænt í janúar þvert á allar spár. Vísitalan hefur ekki lækkað milli mánaða í fjögur ár. Helsta ástæða fyrir lækkuninni var að flugfargjöld lækkuðu talvert en einnig hækkuðu ýmsir liðir minna en venjan er í janúar. Ársverðbólga gæti hjaðnað nokkuð hratt næstu mánuði.


Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,16% í janúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar samkvæmt því úr 7,7% í 6,7%. Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis hjaðnar einnig, úr 6,7% í 5,2%. Þetta er í fyrsta skipti síðan í janúar 2020 sem vísitala neysluverðs lækkar á milli mánaða.

Mæling janúarmánaðar er undir öllum birtum spám. Spár voru á bilinu 0,3 – 0,6% hækkun vísitölunnar og við spáðum 0,4% hækkun. Það helsta í mælingu janúarmánaðar sem kom okkur á óvart er liðurinn ferðir og flutningar. Bílar hækka talsvert minna í verði en við spáðum auk þess sem flugfargjöld lækka meira.

Útsölur og flugfargjöld helsta ástæða lækkunar

Útsölur vógu þungt til lækkunar vísitölunnar í mánuðinum og hafa þær ekki verið jafn drjúgar frá því fyrir faraldur. Föt og skór lækkuðu í verði um 9,2% (-0,36% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður um 5% (-0,29% áhrif á VNV).

Einnig lækkaði liðurinn ferðir og flutningar nokkuð óvænt að okkar mati. Í heild lækkaði hann um 0,6% (-0,1% áhrif á VNV) þar sem lækkun á flugfargjöldum um 11,2% (-0,22% áhrif á VNV) vó hvað þyngst. Á móti hækkaði verð á bílum um 1,1% (0,07% áhrif á VNV) og eldsneyti um 0,9% (0,03% áhrif á VNV). Þessi mæling kemur okkur hvað mest á óvart í janúartölum Hagstofu. Við gerðum ráð fyrir talsvert minni lækkun á flugfargjöldum sérstaklega í ljósi lítillar hækkunar í desembermánuði. Einnig gerðum við ráð fyrir talsvert meiri hækkun á bílum vegna þess að undanþága virðisaukaskatts á nýjum rafmagns- og vetnisbílum féll úr gildi. Eins og sést á myndinni hér að neðan er það liðurinn ferðir og flutningar sem er helsta frávik frá spánni okkar.

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar í janúarmælingunni og fjallað verður nánar um hann hér að neðan. Að húsnæðisliðnum undanskildum eru það matvörur sem hækka mest í verði í mælingunni eða um 0,5% (0,08% áhrif á VNV). Einnig hækkar áfengi og tóbak um 3% (0,07% áhrif á VNV) vegna krónutöluhækkana um áramótin. Þá hækkar liðurinn hótel og veitingastaðir í verði um 1,2% (0,06% áhrif á VNV) og heilsa um 1% (0,04% áhrif á VNV).

Húsnæðisliður vegur þyngst til hækkunar

Það sem vegur þyngst til hækkunar í janúarmánuði er húsnæðisliðurinn. Liðurinn í heild hækkar um 1,1% (0,32% áhrif á VNV) þar sem reiknaða húsaleigan hækkar um 0,9% (0,18% áhrif á VNV) og rafmagn og hiti hækkar um 3,7% (0,12% áhrif á VNV). Reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og vöxtum verðtryggðra húsnæðislána. Markaðsverðið hækkar um 0,25% og vaxtaþátturinn um 0,7%. Íbúðaverðið hefur hækkað lítið síðustu tvo mánuði og er þetta talsvert breytt staða frá því sem áður var þegar verðhækkun á íbúðamarkaði var einn helsti drifkraftur hækkunar á VNV.

Árshækkun íbúðaverðs hefur verið aðeins meiri síðustu mánuði en var í fyrrahaust og mælist nú 4,7%. Undanfarið ár hefur verð á landsbyggðinni hækkað mest eða um 8%. Næst á eftir kemur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hefur hækkað í verði um 4,1% undanfarið ár og að lokum fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hafa hækkað um 3,2% á sama tímabili.

Horfur fyrir næstu mánuði

Verðbólga er að hjaðna hraðar en við erum að gera ráð fyrir sem eru mjög góðar fréttir. Við teljum að verðbólga haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum og áfram nokkuð hratt. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar, 0,5% í mars og 0,7% í apríl. Gangi sú spá eftir mun verðbólga mælast 5,3% í apríl. Ástæða þess að hjöðnunin er svona hröð er að stórir hækkunarmánuðir fyrri hluta árs detta út úr 12 mánaða mælingunni. Það helsta sem þarf að ganga upp til skemmri tíma er að íbúðamarkaður fari ekki á mikið flug en við gerum þó ráð fyrir mánaðarhækkunum í íbúðaverði næsta kastið. Verðbólguspá til lengri tíma verður birt í nýrri þjóðhagsspá Greiningar á morgun.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband