Verðbólga eykst og fjarlægist efri vikmörkin

Ársverðbólga hefur ekki mælst meiri en nú síðan í september 2024. Helsta ástæða fyrir aukningu verðbólgunnar eru breytingar á opinberum gjöldum um áramótin. Útlit er fyrir að verðbólga hjaðni næstu mánuði en verður þó enn yfir 4% efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,38% í janúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 4,5% í 5,2%. Ársverðbólga hefur ekki mælst meiri síðan í september 2024. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis jókst einnig á milli mánaða, úr 3,8% í 4,5%. Mælingin er yfir öllum opinberum spám. Við spáðum 0,1% hækkun vísitölunnar en spár voru á bilinu 0,06 – 0,30% hækkun.

Áhrif kílómetragjaldsins takmörkuð – en hækkun bílverðs vegur þungt

Það helsta í tölum Hagstofunnar er að áhrif kílómetragjaldsins á vísitölu neysluverðs voru takmörkuð. Eldsneytisverð lækkaði um 26% vegna afnáms vörugjalda, sem hafði -0,94% áhrif á VNV. Á móti hækkuðu veggjöld um 633% sem hafði 0,99% áhrif á VNV. Samtals námu áhrif þessara breytinga því um 0,05% á vísitöluna.

Öðru máli gegndi hins vegar um breytingar á opinberum gjöldum á bílum. Þar reyndist verðhækkun mun meiri en við höfðum gert ráð fyrir, sem er helsta ástæða þess að vísitalan hækkaði meira en við spáðum. Verð á bifreiðum hækkaði um 13,3% milli mánaða og hafði það 0,56% áhrif á VNV. Um áramót voru ýmsar breytingar á gjöldum tengdum ökutækjum. Til að mynda voru vörugjöld af rafmagnsbílum afnumin, en á móti lækkaði rafbílastyrkurinn. Þá voru vörugjöld af öðrum bílum hækkuð talsvert. Samkvæmt frétt Hagstofunnar hækkaði verð á rafmagnsbílum um 6,4%, tengiltvinnbílum um 16,3% og bensín- og díselbílum um 19,8%.

Útsölur á sínum stað

Eins og gjarnan í janúar hafa útsölur áhrif á helstu útsöluflokka vísitölunnar. Fatnaður og skór lækka um 7,4% sem hefur -0,27 áhrif á VNV. Húsgögn og heimilisbúnaður lækka um 5,4% sem hefur -0,23% áhrif. Þetta er í samræmi við spá okkar og því eru áhrif útsöluloka óbreytt í bráðabirgðaspánni fyrir komandi mánuði.

Flugfargjöld lækka um 11% (-0,28% áhrif á VNV) sem skýrist af árstíðarbundnum sveiflum, enda hækkuðu þau um 26% í desember. Við spáðum þó meiri lækkun en raunin varð.

Matur og drykkir hækkuðu um 1% á milli mánaða og höfðu 0,15% áhrif á VNV. Áfengi og tóbak hækkaði um 2,7% vegna krónutöluhækkana opinberra gjalda um áramótin, sem hafði 0,07% áhrif á vísitöluna. Hækkunin mælist þó minni en sjálf krónutöluhækkunin (3,7%).

Húsnæðisflokkur tíðindalítill

Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis hækkaði einnig á milli mánaða og stendur nú í 4,5%. Það má túlka það svo að aðrir þættir en húsnæðisliðurinn drífi verðbólguna þessa stundina. Húsnæðisflokkurinn í heild hækkaði um 0,37% (0,11% áhrif á VNV) þar sem reiknaða húsaleigan skýrir hækkunina að mestu. Hún hækkaði um 0,4% (0,09% áhrif á VNV) en á undanförnum mánuðum virðist ró hafa færst yfir húsnæðismarkaðinn. Athygli vekur að hækkun á opinberum gjöldum og veitukostnaði tengdum húsnæði er lítil milli mánaða. Hitaveitugjöld hækkuðu óvænt í desembermánuði vegna mikillar gjaldskrárhækkunar hjá Veitum og líkur eru á að sorphirða hækki í febrúarmánuði.

Verðbólguhorfur næstu mánuði

Ársverðbólga er nú komin yfir 5% og hefur ekki verið á þessum slóðum siðan haustið 2024. Ef litið er á björtu hliðarnar er að helsta ástæða fyrir aukningu verðbólgunnar breytingar á opinberum gjöldum en ekki undirliggjandi verðbólguþrýstingur. Það er hins vegar talsvert áhyggjurefni að verðbólga sé að aukast og er nú meðal annars komin yfir forsenduákvæði kjarasamninga (4,7%) sem gætu virkjast í ágúst. Bráðabirgðaspáin okkar lítur svona út:

  • febrúar: 0,7% hækkun VNV (4,9% ársverðbólga) – Útsölulok í helstu liðum
  • mars: 0,6% hækkun VNV (5,2% ársverðbólga) – Útsölur ganga að fullu til baka, flugverð hækkar í aðdraganda páska
  • apríl: 0,3% hækkun VNV (4,5% ársverðbólga) – Lítilsháttar hækkun í flestum liðum, minni hækkun á flugvargjöldum vegna tímasetningar páska

Ef bráðabirgðaspá okkar rætist mun ársverðbólga því mælast 4,5% í apríl. Það er hjöðnun frá því sem hún er í dag en þó enn yfir vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) og talsvert frá markmiðinu sjálfu. Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er á miðvikudaginn í næstu viku og Greining gefur út stýrivaxtaspá á morgun. Til lengri tíma er útlitið þó að verðbólga hjaðni frekar en verði við efri vikmörk Seðlabankans (4%) út þetta ár.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband