Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,11% í september samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 3,8% í 4,1%. Helsta ástæðan aukningarinnar er að einskiptisliðurinn vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða síðasta haust er að detta út úr mælingunni. Þá jókst verðbólga miðað við VNV án húsnæðis einnig á milli mánaða, úr 2,8% í 3,2%.
Mæling septembermánaðar er nokkuð í takti við okkar spá. Við spáðum 0,15% hækkun VNV en spár voru á bilinu 0,07-0,16% hækkun á vísitölu neysluverðs. Það helsta sem kemur okkur á óvart er reiknaða húsaleigan sem hækkaði meira en við væntum en á móti lækkaði flugverð lítillega meira en við gerðum ráð fyrir.