Verðbólga enn og aftur yfir vikmörkum

Ársverðbólga jókst í september sem var í takti við væntingar. Ársverðbólga hefur verið að dansa í kringum 4% vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans frá ársbyrjun. Útlit er fyrir að verðbólga verði rétt yfir vikmörkum næstu mánuði en taki að hjaðna á ný þegar líður á næsta ár.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,11% í september samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 3,8% í 4,1%. Helsta ástæðan aukningarinnar er að einskiptisliðurinn vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða síðasta haust er að detta út úr mælingunni. Þá jókst verðbólga miðað við VNV án húsnæðis einnig á milli mánaða, úr 2,8% í 3,2%.

Mæling septembermánaðar er nokkuð í takti við okkar spá. Við spáðum 0,15% hækkun VNV en spár voru á bilinu 0,07-0,16% hækkun á vísitölu neysluverðs. Það helsta sem kemur okkur á óvart er reiknaða húsaleigan sem hækkaði meira en við væntum en á móti lækkaði flugverð lítillega meira en við gerðum ráð fyrir.

Reiknuð húsaleiga hækkar

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,9% á milli mánaða í september (0,18% áhrif á VNV). Þetta er meiri hækkun en undanfarna mánuði og meiri hækkun en við væntum. Hagstofan breytti aðferðafræðinni við útreikning reiknuðu húsaleigunnar í fyrrasumar. Í fyrstu var það hagstætt fyrir verðbólguna þar sem hún hjaðnaði hraðar en ella. Leiguverð hefur hins vegar hækkað meira en íbúðaverð síðustu mánuði og samkvæmt okkar útreikningum virðist leiguverð nú hafa náð íbúðaverðinu og gott betur. Verðtrygging er líka hluti af útreikningum reiknuðu húsaleigunnar sem er gott að hafa í huga þegar horft er á myndina hér að neðan. Eins og sést hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis aðeins gefið eftir á meðan reiknaða húsaleigan (leiguverð) heldur áfram að hækka.

Flugverð og útsölulok vegast á

Flugfargjöld lækkuðu um 14% (0,38% áhrif á VNV) á milli mánaða. Flugverð hefur nú lækkað samtals um 26% síðustu tvo mánuði eftir miklar verðhækkanir í sumar. Rekstur ökutækja lækkar um 0,6% (-0,04% áhrif á VNV) á milli mánaða, þar sem liðurinn annað vegna ökutækja ásamt eldsneytisverði skýrir lækkunina.  Liðurinn ferðir og flutningar, sem framangreindar mælingar falla undir, var eini liðurinn í septembermælingunni sem lækkaði á milli mánaða.

Aðrir liðir hækkuðu á milli mánaða í september. Að undanskildum húsnæðisliðnum voru það föt og og raftæki sem höfðu mest áhrif til hækkunar. Var það vegna áhrifa útsöluloka. Föt og skór hækkuðu um 2,9% (0,1% áhrif á VNV) og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 1,7% (0,08% áhrif á VNV).

Aðrir liðir sem hækkuðu á milli mánaða í september voru til að mynda tómstundir og menning, sem hækkaði um 1,7% (0,08% áhrif á VNV) vegna gjaldskrárhækkana í íþróttum, námskeiðum og heilsurækt. Einnig hækkuðu matvörur um 0,4% (0,06% áhrif á VNV) sem er að mestu vegna verðhækkunar á mjólkurvörum ásamt því að súkkulaði og sælgæti hækkaði ríflega.

Verðbólga dansar í kringum vikmörkin næsta kastið

Mælingin í september er nokkuð í takti við okkar spá og ekkert sem kemur á óvart við tölur morgunsins. Bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði lítur því svona út:

  • Október: 0,35% hækkun VNV (4,2% ársverðbólga) -  Árstíðarbundin áhrif fjara út. Flestir liðir leggjast á eitt og hækka smávegis. Ársverðbólga helst eykst lítillega á milli mánaða.
  • Nóvember: 0,2% hækkun VNV (4,3% ársverðbólga) - Flugfargjöld lækka sem vegur á móti hækkun á öðrum helstu liðum.
  • Desember: 0,4% hækkun VNV (4,3% ársverðbólga) – Flugfargjöld hækka í kringum hátíðirnar. Aðrir liðir hækka smávegis. Ársverðbólga helst óbreytt á milli mánaða.

12 mánaða takturinn mun því vera á bilinu 4,2-4,3% næstu mánuði samkvæmt spá okkar og vera rétt yfir 4% vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Ársverðbólga er þrálát við vikmörkin og hefur verið að sveiflast á því bili frá ársbyrjun. Við gáfum út nýja þjóðhagsspá í gær og teljum að verðbólga verði að jafnaði 4,1% í ár. Samkvæmt langtímaspá gerum við ráð fyrir 3,9% verðbólgu að jafnaði árið 2026 og 3,7% árið 2027.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband