Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga enn mjög stöðug

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,23% í mars. Verðbólga mælist nú 2,1% en var 2,4% í febrúar og verður því áfram undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 1,8% undanfarna 12 mánuði.


Í fréttatilkynningu sem Hagstofan birti í gær segir að útreikningur VNV í mars hafi gengið eðlilega fyrir sig en ljóst er að áskoranir munu koma fram í mælingu aprílmánaðar og áfram meðan ástandið varir. Hins vegar verði vogum vísitölunnar ekki breytt þó ýmsar vörur og þjónusta verði tímabundið ófáanlegar. Enda séu neyslubreytingar tímabundnar og munu ganga til baka. Fréttatilkynninguna má lesa hér

Mæling marsmánaðar er aðeins undir okkar spá, en við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða. Helsti undirliðurinn sem kom okkur á óvart er flugliðurinn, en flugfargjöld lækka töluvert meira en við gerðum ráð fyrir.

Ferðir og flutningar toga verðbólguna niður

Liðurinn ferðir og flutningar lækkaði í verði um 1,5% (-0,21% í VNV) og var helsta ástæða þess að VNV mældist ekki hærri í mánuðinum. Flugverð lækkaði um 9,2% (-0,16% í VNV), en óvenju erfitt var að ráða í þann lið í mælingu okkar. Alla jafna hækkar flugverð í marsmánuði en í mælingu Hagstofunnar hafa áhrif COVID-19 verið komin fram ásamt því að eldsneytisverð hefur lækkað töluvert. Eldsneytisverð lækkaði milli mánaða um 2,6% (-0,09% í VNV) og einnig lækkaði rekstur ökutækja um 1,2% (-0,08% í VNV).

Það sem vó mest til hækkunar í marsmánuði voru föt og skór sem hækkuðu í verði um 4,5% (0,19% í VNV) og er verð á fatnaði og skóm nú svipað og var fyrir útsölur. Auk þess hækkaði matur og drykkjarvörur um 0,5% (0,06% í VNV) þar sem áhrif veikingar krónu hafa líklega byrjað að segja til sín. Verð á öðrum vörum og þjónustu hækkaði einnig á milli mánaða um 0,3% (0,02% í VNV).

Íbúðamarkaður þrautseigur

Húsnæðisliður VNV vó þungt til hækkunar hennar í mars. Í heild hækkaði liðurinn um 0,5% (0,16% áhrif í VNV) þar sem reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar húsnæðisverð að mestu, hækkaði um 0,85 (0,14% í VNV) og greidda húsaleigan um 0,51% (0,02% í VNV). Ef marka má tölur frá Hagstofunni virðist enn allnokkurt líf vera á íbúðamarkaði. Markaðsverð íbúða á landinu öllu hækkaði um 1,2% í marsmælingu VNV en vert er að hafa það í huga að marstölur Hagstofunnar byggja á kaupsamningum frá desember, janúar og febrúarmánuði síðastliðnum. Mælingar Hagstofunnar næstu mánuði munu því verða mjög áhugaverðar og útlit er fyrir að ástandið vegna COVID-19 veirunnar gæti litað þær tölur.

Mælist árstaktur hækkunar íbúðaverðs nú 5,5% og hefur ekki verið hraðari frá maí á síðasta ári. Íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 5,4% undanfarið ár en íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað hraðast eða um 6,7%. Raunverðshækkun íbúðaverðs nemur því 3,3% á höfuðborgarsvæðinu en 4,6% á landsbyggðinni. Með hjaðnandi verðbólgu hefur raunverðshækkun mælst meiri síðustu mánuði en hún var lengst af á síðasti ári. 

Horfur að verðbólga fari yfir markmið

Við spáum 0,4% hækkun VNV í apríl, 0,3% hækkun í maí og 0,3% hækkun í júní. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,1% í júní 2020. Við teljum að verðbólga muni aukast nokkuð og fara yfir markmið Seðlabankans um mitt árið vegna veikingar krónunnar, en hún hefur veikst um 10% frá  áramótum. Í lok árs mun verðbólga mælast 3,2% samkvæmt spá okkar. Hún mun svo taka að hjaðna á nýjan leik um mitt ár 2021 og mælast 2,3% í árslok 2021.

Meðal helstu óvissuþátta má nefna:

  • möguleg frekari veiking krónu (til hækkunar)
  • verðlækkun á alþjóðavísu (til lækkunar)
  • minni innlendur verðbólguþrýstingur (til lækkunar)
  • verðstöðnun/lækkun á íbúðamarkaði (til lækkunar).

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Senda tölvupóst