Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 20,1% sem er hraðasta árshækkun frá haustmánuðum árið 2017. Frá því að íbúðaverð tók að hækka hratt um mitt ár 2020 eru íbúðir á landsbyggðinni nú í fyrsta sinn að hækka hvað hraðast. Árshækkun íbúða á landsbyggðinni er nú 20,8%, þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (20%) og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 19,7% á sama tímabili.
Ekkert lát virðist vera á íbúðaverðshækkunum og teljum við að þær muni halda áfram á næstu mánuðum eða þar til aukið framboð nýrra íbúða kemur inn á markaðinn. Með hækkun vaxta og auknu framboði mun þó á endanum koma til þess að íbúðamarkaðurinn taki að róast.
Innfluttar vörur hækka í verði
Aðrir liðir sem vógu þungt í hækkun VNV í maí voru helst matar- og drykkjarvörur ásamt ferðum og flutningum. Matar- og drykkjarvörur hækkuðu í verði um 0,92% (0,14% áhrif á VNV) á milli mánaða. Hækkunin er frekar almenn en helst hækkaði verð á kornvörum, kjöti og mjólkurvörum. Í ferðum og flutningum voru það nýir bílar sem vógu þyngst og hækkuðu um 2,1% (0,11% áhrif á VNV) ásamt eldsneyti sem hækkaði um 2,9% (0,10% áhrif á VNV).
Það vóg þó á móti í liðnum ferðir og flutningar að flugfargjöld lækkuðu um 5,4% (-0,11% áhrif á VNV) líkt og við spáðum. Um árstíðarbundna lækkun er að ræða en flugfargjöld hækkuðu um nærri 22% í aprílmánuði. Hluta af þeirri hækkun má skýra með árstíðarbundnum hækkunum vegna páska sem ganga svo oft til baka í næsta mánuði, líkt og raunin varð.