Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga enn á fljúgandi siglingu

Verðbólga mælist nú 7,6% og hefur ekki mælist meiri frá því í apríl 2010. Hækkandi íbúðaverð og aukin innflutt verðbólga eru helstu valdar verðbólgu um þessar mundir.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,77% í maí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga mælist 7,6% en var 7,2% í apríl síðastliðnum. Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í apríl 2010. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 5,5% undanfarna 12 mánuði.

Mæling maímánaðar er rétt yfir okkar spá, en við spáðum 0,7% hækkun VNV milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er að nýir bílar og eldsneyti hækkuðu meira í verði en við gerðum ráð fyrir.

Íbúðaverð á landsbyggðinni hækkar hratt

Líkt og raunin hefur verið upp á síðkastið er það húsnæðisliðurinn sem vegur þungt til hækkunar VNV í maí. Reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, hækkaði um 2,3% (0,43% áhrif á VNV). Liðurinn hefur nú hækkað um ríflega 10% frá áramótum.

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði alls um 2,6% á milli mánaða samkvæmt gögnum Hagstofu. Mánaðarhækkunin var mest á landsbyggðinni eins og síðustu mánuði (3,4%) en minnst á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (1,7%). Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkuðu í verði um 2,6% milli mánaða.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 20,1% sem er hraðasta árshækkun frá haustmánuðum árið 2017. Frá því að íbúðaverð tók að hækka hratt um mitt ár 2020 eru íbúðir á landsbyggðinni nú í fyrsta sinn að hækka hvað hraðast. Árshækkun íbúða á landsbyggðinni er nú 20,8%, þar á eftir koma fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (20%) og sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 19,7% á sama tímabili.

Ekkert lát virðist vera á íbúðaverðshækkunum og teljum við að þær muni halda áfram á næstu mánuðum eða þar til aukið framboð nýrra íbúða kemur inn á markaðinn. Með hækkun vaxta og auknu framboði mun þó á endanum koma til þess að íbúðamarkaðurinn taki að róast.

Innfluttar vörur hækka í verði

Aðrir liðir sem vógu þungt í hækkun VNV í maí voru helst matar- og drykkjarvörur ásamt ferðum og flutningum. Matar- og drykkjarvörur hækkuðu í verði um 0,92% (0,14% áhrif á VNV) á milli mánaða. Hækkunin er frekar almenn en helst hækkaði verð á kornvörum, kjöti og mjólkurvörum. Í ferðum og flutningum voru það nýir bílar sem vógu þyngst og hækkuðu um 2,1% (0,11% áhrif á VNV) ásamt eldsneyti sem hækkaði um 2,9% (0,10% áhrif á VNV).

Það vóg þó á móti í liðnum ferðir og flutningar að flugfargjöld lækkuðu um 5,4% (-0,11% áhrif á VNV) líkt og við spáðum. Um árstíðarbundna lækkun er að ræða en flugfargjöld hækkuðu um nærri 22% í aprílmánuði. Hluta af þeirri hækkun má skýra með árstíðarbundnum hækkunum vegna páska sem ganga svo oft til baka í næsta mánuði, líkt og raunin varð.

Aðrir liðir sem hækkuðu í verði voru meðal annarra hótel og veitingastaðir um 1,35% (0,07% áhrif á VNV) og tómstundir og menning um 0,24% (0,02% áhrif á VNV).

Liðir sem lækkuðu í verði á milli mánaða voru föt og skór (-0,03% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta (-0,03% áhrif á VNV) sem má helst rekja til verðlækkunar á tryggingum.

Mikil verðbólga áfram í kortunum

Eins og sést á myndinni hér á neðan er það húsnæðisliðurinn sem skýrir stærstan hluta af verðbólgunni. Innflutt verðbólga hefur þó færst talsvert í aukana upp á síðkastið og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram næsta kastið. Auk þess er líklegt að hærra innflutt verð muni þrýsta upp verði á innlendum vörum þegar fram í sækir. Af 7,6% verðbólgu skýrir húsnæðisliðurinn um 3,2%, innfluttar vörur um 1,8%, þjónusta 1,5% og innlendar vörur 1,1%.

Horfur eru á aukinni innfluttri verðbólgu og áframhaldandi hækkun íbúðaverðs á komandi mánuðum. Verðbólga mun því aukast enn frekar á næstu mánuðum samkvæmt spá okkar. Í skammtímaspá gerum við ráð fyrir 0,7% hækkun VNV í júní, 0,4% í júlí og 0,6% í ágúst. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 8,4% í ágúst. Við gerum ráð fyrir að verðbólga nái toppi um það leyti og hjaðni svo í kjölfarið. Í fyrstu mun verðbólgan hjaðna mjög hægt en eftir mitt næsta ár gerum við ráð fyrir hraðari hjöðnun verðbólgunnar.

Vart þarf að taka það fram að gríðarleg óvissa er um verðbólguna um þessar mundir, til að mynda hversu langvinn hækkunin erlendis verður og í hvaða mæli styrking krónu mun vega á móti. Við gerum ráð fyrir að krónan eigi enn nokkra styrkingu eftir á þessu ári.

Helsta forsenda í langtímaspá okkar er að það hægist á íbúðaverðshækkunum þegar líða tekur á árið. Önnur mikilvæg forsenda í spá okkar er að launahækkanir fari ekki fram úr öllu hófi en kjarasamningar losna undir lok ársins. Spá okkar hljóðar upp á 7,6% verðbólgu að meðaltali árið 2022, 5,9% árið 2023 og 3,9% að jafnaði árið 2024.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband