Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Varað við vaxandi stuldi á kortanúmerum

Meðal þeirra leiða sem reyndar eru við svikin er að fá fólk til að skrá kortaupplýsingarnar í það sem virðist vera Apple Pay


Varað er við svikapóstum þar sem fólk er beðið um að smella á hlekk þar sem farið er inn á falska síðu sem er látin líta út eins og raunveruleg síða, t.d. greiðslusíða fjármálafyrirtækis, póst/flutningsfyrirtækis, símafyrirtækis, vefverslunar o.s.frv. Þar er fólk m.a. beðið um að skrá inn kortanúmer og eru dæmi um að svikahrappar nýti sér kortaupplýsingar sem þeir fá með þessum hætti. Þurfa korthafar því að vera á varðbergi.

Meðal þeirra leiða sem reyndar eru við svikin er að fá fólk til að skrá kortaupplýsingarnar í það sem virðist vera Apple Pay. Ekki er ólíklegt að einnig verði reynt að fá fólk til að skrá þær í aðrar greiðsluleiðir, s.s. Garmin Pay og Fitbit Pay. Notendur eru blekktir til að gefa upp kortanúmer, gildistíma, öryggisnúmer og einnota kóða úr SMS.

Mikilvægt er að gefa alls ekki upp Apple pay kóðann því hann er einungis tengdur uppsetningu á Apple pay wallet í síma viðkomandi.

Fáir þú óvænt tilkynningu um tilraun til að skrá kortið þitt í Apple Pay, eða um tilraun til skráningar kortsins með öðrum hætti án þinnar vitundar, skaltu þegar í stað hafa samband við viðskiptabankann þinn.

  • Íslandsbanki í síma 440-4000 eða í netspjalli
  • Landsbankinn í síma 410-4000 eða í netspjalli á vef bankans
  • Arion banki í síma 444-7000 eða í netspjalli á vef bankans

Sé um að ræða tilkynningu eftir lokunartíma bankanna skal hringja í neyðarnúmer greiðslumiðlunarfyrirtækja:

  • Valitor – s. 525-2200
  • Borgun – s. 533-1400

Jafnframt er bent á að tilkynna slík svik til lögreglunnar á netfangið cybercrime@lrh.is.

Nánari upplýsingar um vefveiðar og netöryggi má finna á upplýsingasíðu okkar.

Dæmi um vefveiðar


Hér má sjá dæmi um vefveiðar þar sem tölvuþrjótar dulbúa tölvupóst sem skilaboð frá fyrirtækinu Netflix.