Vann ferð á úrslitaleikinn á Wembley

Heppinn vinninghafi í leik Íslandsbanka og Mastercard hlaut ferð fyrir tvo á einn stærsta fótboltaviðburð ársins sem fer fram í Lundúnum 1. júní næstkomandi.


Tuttugu og fjögurra ára Hafnarfjarðarmær, Eva Halldórsdóttir, segist varla hafa ætlað að trúað því þegar henni barst símtal um að hún hefði unnið aðalvinninginn í leik Mastercard og Íslandsbanka, ferð á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu (UEFA Champions League Final London 2024) á Wembley 1. júní næstkomandi.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum, en innifalið  er flug fram og til baka fyrir tvo með Icelandair, akstur milli staða, gisting ásamt morgunverði í tvær nætur á fjögurra stjörnu hóteli í Lundúnum og miðar á úrslitaleikinn á góðum stað. Flogið er utan föstudaginn 31. maí og heim aftur sunnudaginn 2. júní.

Svo heppilega vill til að vinningshafinn er fótboltaáhugakona þó að hún segi aukinn áhuga á sportinu tiltölulega nýtilkominn. „Ég fór á minn fyrsta alvöru leik í janúar á þessu ári,“ segir hún, en þá sá hún liðið sitt, Arsenal, mæta Crystal Palace. „En þeir eru því miður dottnir út núna, Arsenal.“

Þá segir hún hafa verið hæg heimatökin að velja ferðafélaga þar sem hún búi enn í foreldrahúsum og býður pabba sínum með. Hann hafi áður farið á leiki með bróður hennar, en báðir séu miklir fótboltaáhugamenn. Nú sé röðin komin að henni og hlakki þau bæði mjög til ferðarinnar.

Wembley leikvangurinn í Lundúnum er oft nefndur „heimili fótboltans“ og þar hefur sjö sinnum áður farið fram úrslitaleikur í Meistaradeild karla í Evrópu, oftar en á nokkrum öðrum leikvangi. Feðginin eiga í vændum heilmikla upplifun, en sögufrægur völlurinn tekur um 90 þúsund manns í sæti. Vænta má að skipað verði í þau öll þegar að úrslitunum kemur laugardaginn 1. júní næstkomandi.

Í leiknum gátu tekið þátt allir sem nota Mastercard kort hjá Íslandsbanka og höfðu notað Fríðu, fríðindakerfi Íslandsbanka, fyrir 21. apríl sl. Eftir skráningu til leiks þurfti bara að virkja að minnsta kosti eitt tilboð Fríðu í Íslandsbankaappinu og greiða fyrir með Íslandsbankakortinu. Auk aðalvinningsins voru líka dregnir út tveir aukavinningar, en þar hlutu heppnir þátttakendur í vinning 50 þúsund króna gjafabréf í ELKO.