Vann ferð á úrslitaleik Meistaradeildarinnar

Heppinn vinningshafi í leik Íslandsbanka og Mastercard hlaut ferð fyrir tvo á einn stærsta fótboltaviðburð ársins, úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem fram fór í Munchen 31. maí.


Kjartan Hrafn Matthíasson fertugur fótboltaáhugamaður trúði vart sínum eigin eyrum þegar honum var tilkynnt að hann hefði unnið aðalvinninginn í leik Mastercard og Íslandsbanka, ferð fyrir tvo á á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Um er að ræða einn stærsta fótboltaviðburð ársins sem fram fór í Munchen 31. maí síðastliðinn. Kjartan vann miða á leikinn ásamt flugi fram og til baka með Icelandair, akstri milli staða og gistingu og morgunverð í tvær nætur á 4 stjörnu hóteli. Flogið var út föstudaginn 30. maí og heim sunnudaginn 1. júní.

„Þegar starfsmaður Íslandsbanka hringdi í mig korter í páska hélt ég fyrst að þetta væri einhver brandarakall að gera grín í mér. Honum tókst þó nokkurn vegin að sannfæra mig um að þetta væri allt saman dagsatt,” segir Kjartan.

Eiginkona hans, Sigurbjörg Eyjólfsdóttir, fór með honum í ferðina og er orðin mikil fótbolta áhugakona fyrir vikið. Kjartan segir ferðina hafa heppnast vel að öllu leiti, veðrið hafi verið gott, maturinn góður og hótelið frábært. Við vorum sótt á flugvöllinn í Mercedes Benz og okkur skutlað þangað að ferð lokinni í BMW. Báðir voru með nuddi í aftursætinu, ég gæti alveg vanist þessum ferðamáta.

Spurður að því hvað hafi staðið upp úr segir Kjartan það hafa verið úrslitaleikinn sjálfan þar sem PSG og Inter Milan mættust á Allianz leikvanginum í Munchen.

„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á fótbolta. Mínir menn í Arsenal voru í baráttunni um að komast í þennan úrslitaleik þegar ég fékk fréttirnar en duttu út á móti frábæru liði PSG. Það hefði verið ágætur bónus að fá að sjá þá þarna en áfram gakk,” segir Kjartan sem hefur einu sinni áður farið á fótboltaleik erlendis.

„Ég fór á Barcelona - Sevilla árið 2019 en sá leikur fór 4-0 fyrir Börsungum þannig að markatalan hjá mér á leikjum erlendis er 9-0,” segir Kjartan en í úrslitaleiknum í Munchen vann PSG titilinn eftir 5-0 sigur gegn Inter, það er stærsti sigur í úrslitaleik í sögunni.

„Ég hélt með hvorugu liðinu í leiknum en ég var sáttur með að fótboltinn gjörsigraði þennan leik. Inter Milan sá aldrei til sólar og stórskemmtilegt lið PSG gjörsamlega valtaði yfir þá,” segir Kjartan að lokum og þakkar fyrir sig.