Valréttur vegna umframeftirspurnar fullnýttur - verðjöfnunartímabili lýkur
Til að fá aðgang að gögnum þarftu að velja land og samþykkja skilmála
Valréttur vegna umframeftirspurnar fullnýttur - Verðjöfnunartímabili lýkur
Reykjavík, 2. júlí 2021. Citigroup Global Markets Europe AG, Íslandsbanki hf. og J.P. Morgan AG, sem höfðu sameiginlega umsjón með frumútboði hlutabréfa Íslandsbanka, tilkynntu Bankasýslu ríkisins í dag að valréttur vegna umframeftirspurnar í útboðinu hafi verið nýttur að fullu. Verðjöfnunartímabili, sem upphaflega átti að ljúka 22. júlí 2021, lauk í dag. Samningur um viðskiptavakt við Arion banka öðlast því gildi frá og með 5. júlí 2021.
Í tengslum við hlutafjárútboð Íslandsbanka og töku hlutabréfa bankans til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 22. júní 2021 veitti Bankasýsla ríkisins umsjónaraðilum útboðsins kauprétt að 63.636.363 hlutum („valrétturinn“) til að mæta umframeftirspurn í útboðinu. Heimilt var að nýta valréttinn að hluta eða öllu leyti innan 30 daga frá þeim degi sem hlutabréf Íslandsbanka væru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Valrétturinn hefur nú verið nýttur að fullu.
Engin verðjöfnun hefur átt sér stað frá því að útboðinu lauk. Kaupverð valréttarhlutanna er 79 krónur á hlut, sem er sama verð og útboðsverðið í hlutafjárútboðinu. Heildarsöluandvirði fyrir valréttarhlutina, sem rennur til Bankasýslu ríkisins, er því um fimm milljarðar króna. Uppgjöri vegna valréttarhlutanna er lokið. Verðjöfnunartímabili útboðsins er jafnframt lokið og engin frekari verðjöfnunarviðskipti verða framkvæmd.