Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Utanríkisviðskipti nærri jafnvægi og erlend eignastaða snarbatnaði á 3. ársfjórðungi

Viðskiptahalli var sáralítill á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir mikinn samdrátt útflutningstekna. Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað hröðum skrefum og námu erlendar eignir umfram skuldir þriðjungi af landsframleiðslu í septemberlok. Styrk erlend staða skiptir sköpum við að létta róðurinn í gegn um Kórónukreppuna og búa í haginn fyrir vöxt á komandi misserum.


Viðskiptahalli á 3. ársfjórðungi nam 1,2 ma.kr. Þegar lá fyrir að halli á vöruskiptajöfnuði var tæpir 34 ma.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði nam ríflega 20 mö.kr. líkt og við fjölluðum um nýverið. Í nýbirtum tölum Seðlabankans kemur fram að jöfnuður frumþáttatekna var jákvæður um 13,5 ma.kr. en hrein rekstrarframlög voru neikvæð um 1,1 ma.kr. Afgangur af þjónustuviðskiptum og jöfnuði frumþáttatekna fór því langleiðina með að vega upp vöruskiptahalla og neikvæð rekstrarframlög á fjórðungnum.

Þróun frumþáttatekna hefur verið býsna athyglisverð undanfarin misseri. Frá miðjum síðasta áratug hefur verið samfelldur afgangur af slíkum tekjum, en þær samanstanda af launagreiðslum milli landa ásamt tekjum og gjöldum vegna fjármagns. Síðarnefndi hlutinn skýrir einmitt þann afgang sem verið hefur ríkjandi í frumþáttatekjunum undanfarin ár á sama tíma og dregið hefur úr hreinum launagreiðslum inn í þjóðarbúið erlendis frá.

Þrír þættir skýra myndarlegan afgang af þáttatekjum undanfarin misseri:

  • Hratt batnandi erlend staða þjóðarbúsins hefur skilað landinu í þá ákjósanlegu stöðu að erlendar eignir eru umtalsvert meiri en erlendar skuldir eins og fjallað er um hér að neðan.
  • Ávöxtun hlutafjár, sem er töluvert stærri hluti erlendra eigna en erlendra skulda, er að jafnaði meiri en vaxtabyrði af lánum og skuldaskjölum. Sér í lagi á það við í seinni tíð þar sem vextir á alþjóðavísu hafa verið mjög lágir, en lánaskuldir Íslands gagnvart erlendum aðilum eru að langstærstum hluta í erlendri mynt.
  • Á framansögðu er sú mikilvæga undantekning að ýmsar beinar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi, t.d. í orkufrekum iðnaði, hafa verið óarðbærar og bókfært tap vegna þeirra kemur til frádráttar á gjaldahlið þáttatekjujafnaðarins í bókhaldi Seðlabankans.

Þótt myndarlegur afgangur af frumþáttatekjum sé í sjálfu sér jákvæður og líklegur til að bæta hag landsmanna þegar til lengdar lætur fylgir honum ekki samsvarandi gjaldeyrisflæði. Þar má sem dæmi taka hlutabréfaeign lífeyrissjóða, sem skilar drjúgum arðstekjum þessa dagana. Sá arður kemur hins vegar ekki til landsins heldur er honum endurfjárfest með beinum eða óbeinum hætti í erlendum fjáreignum. Til skemmri tíma getur því verið eðlilegt að gengi krónu eigi á brattann að sækja þrátt fyrir tiltölulega hagfelldan viðskiptajöfnuð, jafnvel þótt ekki sé tekið í reikninginn hversu mjög hreyfingar um fjármagnsjöfnuð, s.s. kaup og sala á fjáreignum milli landa, geta litað gjaldeyrismarkað á hverjum tíma.

Segja má að þróun viðskiptajafnaðar það sem af er ári hafi verið glettilega farsæl ef horft er til þess hversu þungt högg helstu útflutningsgreinar hagkerfisins fengu með COVID-19 faraldrinum og sóttvarnarviðbrögðum við honum. Sem dæmi um þungann í því höggi má nefna að á öðrum og þriðja ársfjórðungi, eftir að Kórónukreppan skall á af fullum þunga, voru útflutningstekjur vegna ferðalaga og farþegaflutninga með flugi samtals rúmir 44 ma.kr. Á sama tímabili árið 2019 voru slíkar tekjur hins vegar 288 ma.kr. og skruppu þessar tekjur því saman um 85% á milli ára.

Góðu heilli hafa innflutningsútgjöld einnig skroppið talsvert saman og skýrir það að stórum hluta hvers vegna samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum er einungis tæplega 31 ma.kr. þrátt fyrir útflutningshöggið.

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins nemur viðskiptaafgangur alls 4,5 mö.kr. Á móti halla á viðskiptum með vörur og þjónustu vegur að afgangur af frumþáttatekjum nemur ríflega 50 mö.kr. það sem af er ári. Hreint útflæði vegna rekstrarframlaga nam rúmum 15 mö.kr. á tímabilinu, en til þeirra teljast t.d. peningasendingar, framlög til þróunarmála o.þ.h.

Útlit er fyrir að viðskiptajöfnuður á árinu 2020 í heild reynist heldur hagfelldari en sá ríflega 30 ma.kr. halli sem við spáðum í september sl. Á næstu árum eru svo að mati okkar góðar líkur á að afgangur verði á ný af viðskiptum við útlönd líkt og var samfellt árin 2012-2019.

Enn batnar erlenda staðan

Erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað hröðum skrefum undanfarin misseri og var 3. ársfjórðungur þar engin undantekning. Samkvæmt tölum Seðlabankans var hrein erlend staða þjóðarbúsins jákvæð um 969 ma.kr., eða sem nemur 33,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) í lok september sl. Staðan batnaði um 142 ma.kr. (5% af VLF) á 3. fjórðungi, að mestu vegna jákvæðra gengis- og verðbreytinga. Hreinn ábati af slíkum breytingum nam 137 ma.kr. á tímabilinu. Fjórðungurinn var nokkuð gjöfull á erlendum verðbréfamörkuðum og hækkaði verð á þeim að jafnaði um rúm 7% samkvæmt Seðlabankanum en verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkði lækkaði um 2,4% á sama tíma. Þá bættu hrein fjármagnsviðskipti erlenda stöðu þjóðarbúsins um 39 ma.kr. á fjórðungnum.

Talsverður munur er á samsetningu eigna og skulda þjóðarbúsins gagnvart umheiminum. Skuldir vegna skuldaskjala og lánaskulda voru til að mynda tæplega 1.286 ma.kr. umfram eignir í septemberlok. Á móti nam hrein eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum rúmum 1.565 mö.kr. og aðrir liðir, þar sem hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans vegur þyngst, voru jákvæðir um 975 ma.kr. í lok 3. ársfjórðungs. Bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi nam hins vegar 285 mö.kr. umfram slíka fjárfestingu landsmanna erlendis. Eins og fyrr segir má skýra myndarlegan afgang frumþáttatekna að verulegu leyti bæði með umtalsverðri hreinni eignastöðu og einnig þessum mun á samsetningu eigna og skulda.

Sú góða vísa verður sjaldan of oft kveðin að traust erlend eignastaða og ráðdeild í utanríkisviðskiptum í aðdraganda Kórónukreppunnar mun skipta sköpum við bata hagkerfisins þegar faraldrinum fer að linna. Traust eignastaða og myndarlegur gjaldeyrisforði hefur reynst mikilvægur dempari við gengisfalli krónu undanfarna fjórðunga. Fyrir lítið hagkerfi með minnstu sjálfstætt fljótandi mynt heims er það geysilega dýrmætt að eignastaðan gagnvart umheiminum sé jafn sterk og raunin er, enda dregur það mikið úr líkum á fjármagnsflótta og gjaldeyriskreppu auk þess að efla lánstraust innlendra aðila á alþjóðavísu og skila þegar fram í sækir betri lífskjörum fyrir landsmenn en ella væri. Þá eru góðar líkur á að erlenda staðan muni batna enn frekar ef viðskiptaafgangur verður aftur reglan í utanríkisviðskiptum og erlendar eignir vaxa enn frekar að virði umfram hækkun skuldbindinga.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsso

Aðalhagfræðingur


Hafa samband