Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjónustujöfnuður batnaði í faraldursfríi í sumar

Umtalsverður þjónustuafgangur, einkum vegna komu ferðamanna yfir hásumarið, vó verulega gegn óhagstæðum vöruskiptum á þriðja ársfjórðungi. Þróun þjónustujafnaðar hefur fylgt þróun faraldursins og sóttvarnaraðgerða og mun áfram stjórnast af þeim áhrifaþáttum. Góðar líkur eru á að afgangur af utanríkisviðskiptum aukist allhratt þegar ferðaþjónustan nær vopnum sínum á ný.


Tæplega 14 ma.kr. halli var á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á þriðja fjórðungi ársins samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Halli skýrist af nærri 34 ma.kr. halla á vöruviðskiptum, en svo mikill hefur vöruskiptahallinn ekki verið frá þriðja ársfjórðungi 2019. Óhagstæð vöruskipti má rekja að mestu til mikils innflutnings á hrá- og rekstrarvörum, eldsneyti og neysluvörum á fjórðungnum. Á móti kom að ríflega 20 ma.kr. afgangur var af þjónustuviðskiptum við útlönd. Heldur dró því úr halla á vöru- og þjónustuviðskiptum á milli fjórðunga þrátt fyrir lakari vöruskiptajöfnuð.

Ferðamenn skiluðu talsverðum tekjum í sumar þrátt fyrir allt

Sá stutti tími sem Kórónuveiran lét undan síga og landamæratakmarkanir voru í lágmarki í sumar reyndist glettilega drjúgur við gjaldeyrisöflun. Eins og sjá má af myndinni var þjónustuafgangur á 3F alfarið vegna útflutnings ferða- og flutningaþjónustu umfram innflutning á slíkri þjónustu. Var það viðsnúningur frá fjórðungnum á undan þar sem þjónusta vegna ferðalaga milli landa skilaði ríflega 2 ma.kr. halla. Þótt Íslendingar notuðu tækifærið í nokkrum mæli til þess að bregða sér út fyrir landsteinana í faraldursfríinu vó þó sá hóflegi ferðamannastraumur sem kom hingað til lands mun þyngra. Alls lögðu u.þ.b. 109 þúsund erlendir ferðamenn leið sína til landsins í júlí og ágúst en til samanburðar má nefna að í janúar sl. komu 121 þúsund erlendir ferðamenn til landsins.

Ef rýnt er í vöru- og þjónustujöfnuðinn eftir mánuðum kemur enn skýrar í ljós hversu nátengd þróunin hefur verið gangi faraldursins og sóttvarnaraðgerðum. Má þar sjá að þjónustuafgangurinn tekur kipp í júlímánuði, lætur nokkuð undan síga í ágúst en hverfur alfarið í september eftir að faraldrinum hafði vaxið ásmegin á nýjan leik og landamæratakmarkanir verið hertar.

Þjónustutekjur skreppa saman, veikari króna hjálpar vöruútflutningi

Hratt hefur dregið úr útflutningstekjum þjóðarbúsins eftir að Kórónukreppan skall á síðastliðinn vetur. Samdrátturinn í krónum talið er að langstærstum hluta vegna minni tekna af ferðamönnum þar sem lægra gengi krónu hefur að mestu vegið upp minna útflutt magn og/eða óhagstæða verðþróun á öðrum útflutningi. Má sem dæmi nefna að þrátt fyrir ríflega 8% samdrátt í útflutningi sjávarafurða í magni mælt ásamt nokkurri verðlækkun á alþjóðamörkuðum voru útflutningstekjur vegna sjávarafurða nánast óbreyttar á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra. Svipaða sögu má segja af öðrum vöruútflutningi, að álafurðum undanskildum þar sem 4% lækkun varð á útflutningsverðmæti á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra.

Tímabundið bakslag í utanríkisviðskiptum

Ljóst er að árið 2020 verður það óhagstæðasta frá hruni hvað varðar vöru- og þjónustuviðskipti. Þó má segja að í ljósi þess hversu harðan skell útflutningsgreinar okkar fengu vegna Kórónuveirunnar hafi þróunin verið öllu hagstæðari en við óttuðumst. Skýrist það ekki síst af því hversu innflutningur hefur skroppið mikið saman enda hafa landsmenn beint neyslu sinni í auknum mæli inn fyrir landsteinana. Það sem af er ári nemur samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum ríflega 30 mö.kr. Líklegt er að hallinn verði einnig nokkur á lokafjórðungi ársins. Þó teljum við að útkoman í ár verði líklega hagstæðari en sá ríflega 60 ma.kr. halli sem við spáðum á vöru- og þjónustuviðskiptum 2020 í þjóðhagsspá okkar í september.

Þá hafa horfur á betri tíð í utanríkisviðskiptum heldur vænkast með jákvæðum fréttum af bóluefnum á síðustu vikum. Líkur eru á að afgangur muni fljótt skapast á viðskiptum við útlönd þegar ferðaþjónustan fer á ný að ná vopnum sínum. Spá okkar frá september hljóðaði upp á u.þ.b. 800 þúsund erlenda ferðamenn á næsta ári sem er svipaður fjöldi og sótti landið heim árið 2013. Dygði sá fjöldi að okkar mati til þess að skila lítilsháttar afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum það ár þrátt fyrir að horfur séu einnig á vaxandi innflutningi. Verði ferðamannasumarið myndarlegra bætir fljótt í afganginn og þar með hreint gjaldeyrisinnflæði.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband