Íslandsbanki býður Grindvíkingum sem ákveða að selja íbúðarhúsnæði í Grindavík til félags í eigu ríkisins og eru með húsnæðislán á föstum vöxtum hjá bankanum að halda sömu vaxtakjörum og lánsskilmálum sem eru á láninu við kaup á nýrri fasteign. Vaxtakjörin haldast óbreytt þann tíma sem eftir er af fastvaxtatímabilinu en síðan breytast vextirnir í samræmi við upphaflega skilmála. Miðað er við sömu lánsfjárhæð og sambærilegt veðhlutfall. Lán sem eru tekin til viðbótar eru veitt á núgildandi vaxtakjörum samkvæmt vaxtatöflu bankans.
Bankinn fellir jafnframt niður lántökugjald á nýjum lánum til Grindvíkinga sem voru með húsnæðislán hjá bankanum.
Að auki geta öll sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík fengið húsnæðislán fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðar, eins og gildir um fyrstu kaupendur. Greiðslubyrði lána má vera allt að 40% af ráðstöfunartekjum að hámarki, í samræmi við yfirlýsingu fjármálastöðuleikanefndar Seðlabanka Íslands.