Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Uppfærð verðbólguspá: Íbúðaverð kólnar allhratt

Vegna nýrra gagna um vísitölu íbúðaverðs höfum við uppfært verðbólguspá okkar fyrir septembermánuð. Útlit er fyrir að verðbólga hjaðni hraðar en áður var gert ráð fyrir vegna þess að íbúðamarkaður er farinn að kólna ansi hratt.


Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágústmánuði frá mánuðinum á undan samkvæmt nýlegum gögnum frá Þjóðskrá og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Íbúðaverð hefur ekki lækkað á þennan mælikvarða síðan í nóvember 2019. Ástæða fyrir lækkuninni er sú að sérbýli lækka um 2,4% í verði á milli mánaða en verð á fjölbýli hækkar hins vegar um 0,1% á sama tímabili.

Sérbýli hækkuðu í verði í síðasta mánuði um 3,7% og lækka nú um 2,4% . Verð á sérbýlum er almennt sveiflukenndara en á íbúðum í fjölbýli þar sem færri kaupsamningar liggja að baki á hverjum tíma. Það er þó ljóst að íbúðamarkaður er að kólna allhratt og hraðar en við gerðum ráð fyrir.

Uppfærð verðbólguspá

Vegna þessa uppfærum við verðbólguspána sem birtist í síðustu viku. Áður spáðum við því að reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar íbúðaverðið að mestu, myndi hækka um 0,6% á milli mánaða í september. Í ljósi nýrra gagna um vísitölu íbúðaverðs teljum við að líklegri niðurstaða sé að reiknaða húsaleigan standi í stað í september. Mælingarnar hjá Hagstofu annars vegar og Þjóðskrá hins vegar eru keimlíkar, byggja báðar á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali, en reiknaða húsaleigan nær þó yfir allt landið meðan vísitala íbúðaverðs hjá Þjóðskrá einskorðast við höfuðborgarsvæðið.

Þessi breyting á reiknuðu húsaleigunni verður til þess að VNV hækkar um 0,2% á milli mánaða og ársverðbólga mun mælast 9,4% gangi spá okkar eftir. Einnig höfum við uppfært skammtímaspá okkar þar sem útlit er fyrir að verðbólga muni hjaðna aðeins hraðar en áður var gert ráð fyrir. Skammtímaspáin okkar hljóðar upp á 0,2% hækkun VNV í október, 0,1% í nóvember og 0,4% í desember. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 8,7% í desember.

Með þessu breytist einnig langtímaspá okkar aðeins, hún hljóðar upp á 8,1% verðbólgu að meðaltali árið 2022, 6,3% á næsta ári og 3,9% árið 2024. Aðrir liðir í verðbólguspá okkar frá því í síðustu viku haldast óbreyttir.

Þessi mæling á vísitölunni er að okkar mati staðfesting á mjög hraðri kólnun á íbúðamarkaði undanfarna mánuði. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þróunin á íbúðamarkaði verður næsta kastið. Það er í öllu falli nokkuð ljóst að aðgerðir Seðlabankans, sem fyrst hóf að hækka vexti í maí 2021, eru loksins farnar að hafa áhrif.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.