Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Umtalsvert bakslag en ennþá afgangur

Það gefur augaleið að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar munu dragast talsvert saman í ár í ljósi gjaldþrots WOW air og þeirrar fækkunar ferðamanna sem útlit er fyrir á þessu ári.


Það gefur augaleið að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar munu dragast talsvert saman í ár í ljósi gjaldþrots WOW air og þeirrar fækkunar ferðamanna sem útlit er fyrir á þessu ári. Við það bætist svo loðnubrestur sem þegar hefur haft víðtæk áhrif í íslenskum sjávarútvegi, sér í lagi þeim hluta geirans sem snýr að uppsjávarvinnslu. Þetta getur leitt til þess að afgangur af utanríkisviðskiptum, sem nam rúmum 80 milljörðum króna á síðastliðnu ári, verður lítill sem enginn nú í ár.

Það er engu að síður magnaður vitnisburður um styrkar stoðir hagkerfisins að þrátt fyrir bakslag í tveimur þungavigtaráhrifaþáttum í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins sjáum við enn fram á mögulegan afgang af utanríkisviðskiptum í lok árs. Við búum því við mun fjölþættari undirstöður í gjaldeyrissköpun en á árum áður. Þannig byggja utanríkisviðskipti á umtalsvert heilbrigðari grunni um þessar mundir en til dæmis á árunum í aðdraganda efnahagsáfallsins, þegar viðvarandi halli á utanríkisviðskiptum hafði skapað mikinn þrýsting á veikingu krónunnar sem varð svo raunin.

Þar fyrir utan er hrein eignastaða hagkerfisins jákvæð um þessar mundir sem er algjör nýlunda en sögulega hefur hún verið neikvæð um einhverja tugi prósenta af landsframleiðslu. Seðlabankinn hefur úr myndarlegum gjaldeyrisforða að spila til að afstýra gengishruni vegna tímabundins fjármagnsflótta og hefur bankinn sýnt að hann er tilbúinn til að beita inngripum við slíkar aðstæður. Þá ætti áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi að vera nægur til að vega upp það útflæði sem verður vegna fjárfestinga lífeyrissjóðanna utan landsteinanna.

Hvaða skoðun sem við kunnum að hafa á núverandi gildum krónunnar og hvort hún sé of veik eða of sterk ætti þetta í það minnsta að auka líkur á stöðugleika gjaldmiðils okkar litið fram á við og það eitt og sér er okkur öllum til hagsbóta.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál

Íslensk ferðaþjónusta 2019


Upptaka frá fundi Íslandsbanka í tilefni útgáfu skýrslu um stöðu ferðaþjónustunnar. Bjarnólfur Lárusson, viðskiptastjóri í Verslun og þjónustu og Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur í Greiningu kynntu helstu niðurstöður skýrslunnar og í kjölfarið ræddi Sigrún Hjartardóttir í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka við þau Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála um stöðu greinarinnar.

Höfundur


Elvar Orri Hreinsson

Sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka


Senda tölvupóst