Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Norrænir forstjórar leggja áherslu á loftslagsmál og jafnrétti

Forstjórar 14 norrænna stórfyrirtækja funduðu með forsætisráðherrum Norðurlanda á Íslandi


Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð funduðu í dag með forsætisráðherrum Norðurlanda þar sem rætt var um sameiginlegar áskoranir ríkjanna um sjálfbærni, aðgerðir í loftslagsmálum og mikilvægi fjölbreytileika í atvinnulífinu með jafnrétti að leiðarljósi. Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandaráðs stendur nú yfir hér á landi.

Á fundinum kynntu forstjórarnir áherslu samtakanna á mikilvægi þess að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með bættum viðskiptaháttum og auknu samstarfi einkageirans og hins opinbera.

Forstjórar þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum hafa skuldbundið sig til að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í starfsemi sinni og ákvörðunartöku. Áhersla á sjálfbærni verður aðlöguð að stefnu fyrirtækjanna og þvert á virðiskeðjur þeirra.

Stefnt er að því að uppfylla Heimsmarkmiðin árið 2030. Ljóst er að skammur tími er til stefnu en helstu áherslur forstjóranna eru tvenns konar; annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækjanna og hins vegar að vinna sameiginlega að því að auka upplýsingagjöf um fjölbreytni í atvinnulífinu í þeim tilgangi að ná fram sem bestum starfsháttum í starfsemi fyrirtækjanna.

Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka:

„Samtökin Nordic CEOs hafa sammælst um að vinna saman að loftslagsmálum og jafnréttismálum en við teljum afar brýnt að fyrirtæki setji þessi mál ofar á dagskrá svo árangur náist. Við munum halda áfram að eiga samtal við stjórnvöld um hvernig hið opinbera og atvinnulífið geti unnið enn betur saman og aukið þannig slagkraftinn. Norðurlöndin eru til fyrirmyndar fyrir mörg önnur lönd þegar kemur að jafnréttismálum og ég vona það innilega að við getum haft jákvæð áhrif á viðskiptahætti fyrirtækja þar sem jafnrétti og loftslagsmál verða hluti af stefnu þeirra til frambúðar.“

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Samvinna, jafnrétti og langtímahugsun í þágu langvarandi hagsældar eru ríkjandi gildi í norrænni menningu. Með nánu og samstilltu samstarfi hafa norræn fyrirtæki látið gott af sér leiða við sjálfbæra þróun í þágu samfélagsins um áraraðir. Forstjórarnir sem mynda samráðsvettvanginn Nordic CEOs hafa það markmið að finna Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og stefnu fyrirtækjanna, sem mynda vettvanginn, sameiginlegan farveg í samræmi við norræn gildi og viðskiptahætti. Samstarf þvert á iðnaði og landamæri gerir okkur kleift að hraða enn frekar framförum til þess að ná heimsmarkmiðum SÞ og stuðla að sjálfbærri þróun.“

Mats Granryd, forstjóri GSMA:

„Til að uppfylla markmið sjálfbærrar þróunar þarf samvinnu milli ólíkra atvinnugreina og milli einkageirans og hins opinbera. Norrænu forstjórarnir sýna forystu og taka persónulega ábyrgð í því að leiða lykilhagsmunaaðila saman til að takast á við þær áskoranir sem bæði fólk og plánetan standa frammi fyrir. Norðurlöndin gegna frumkvöðlahlutverki í því að innleiða sjálfbærni í kjarna viðskipta- og stjórnmálaáætlana og gera okkur kleift að einbeita okkur að sviðum þar sem við getum skilað jákvæðum og áhrifamiklum breytingum.“

Um samtökin:

Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð voru stofnuð árið 2018. Tilgangur þeirra er að hverja til sameiginlegrar forystu og aðgerða í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum. Forstjórar þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum eru í forsvari fyrir fyrirtæki sem velta yfir 110 milljörðum evra. Hjá þeim starfa rúmlega 290 þúsund manns í 119 löndum þar sem fyrirtækin eru með starfsemi. Þau fyrirtæki sem mynda samtökin eru Íslandsbanki, Marel, Equinor, GSMA, Hydro, Nokia, Posten Norge, SAS, Storebrand, Swedbank, Telenor, Telia, Vestas og Yara.

Nánari upplýsingar má sjá á www.nordic-ceos.com

Enskt nafn samtakanna er The Nordic CEOs for a Sustainable Future.