Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjóðarbúið munar um aukinn loðnuafla í ár

Horfur um stóraukinn loðnukvóta eftir nýjustu mælingar eru góðar fréttir fyrir sjávarútveginn og hagkerfið allt. Heildartekjur sjávarútvegs gætu orðið svipaðar, eða jafnvel lítillega meiri, en þeir tæpu 350 milljarðar sem greinin aflaði af útflutningstekjum í fyrra. Þá gæti viðskiptahalli orðið heldur minni og hagvöxtur aðeins meiri í ár en útlit var fyrir í ársbyrjun fyrir vikið.


Í vikunni bárust fréttir af því að myndarlegar loðnutorfur hefðu fundist norður af landinu og horfur væru á því að loðnukvóti yfirstandandi árs yrði líklega aukinn um að minnsta kosti 100 þúsund tonn. Áður hafði kvótinn verið hækkaður um 57 þúsund tonn í febrúarbyrjun og samkvæmt gildandi kvóta koma því 182 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa. Verði af aukningu kvótans um 100 þúsund tonn eða þaðan af meira mun það auka útflutningstekjur af sjávarafurðum umtalsvert.

Miklar sveiflur hafa verið í veiddri loðnu undanfarinn áratug eða svo enda stofninn sveiflukenndur frá einum tíma til annars. Þannig var enginn loðnukvóti gefinn út árin 2019 og 2020. Aftur var svo gefinn út loðnukvóti til íslenskra skipa árið 2021 en á síðasta ári urðu nokkur vatnaskil þegar íslensk skip fengu heimild til að veiða alls ríflega 540 þúsund tonn. Var það mesta magn sem heimilað hafði verið frá árinu 2012.

Gæði skipta máli, ekki síður en magn

Umtalsverð óvissa er um hversu miklum útflutningstekjum yfirstandandi loðnuvertíð gæti skilað þótt auðvitað viti á gott ef leyft aflamagn er aukið verulega. Þar hefur afurðaverð áhrif, en einnig samsetning útflutningsafurðanna. Til dæmis eru loðnuhrogn sem og heilfryst loðna mun verðmætari afurðir en loðnumjöl og -lýsi. Þegar vertíðin er fremur rýr, líkt og fyrir tveimur árum, er allt kapp lagt á að hámarka verðmæti afurðanna. Eins og sjá má af myndinni tókst vel til í þeim efnum og var útflutningsverðmæti loðnunnar það ár heldur meira en árin 2017-2018 þótt töluvert minna væri veitt í tonnum talið.

Verð á sjávarafurðum hefur almennt farið hækkandi á heimsmarkaði undanfarna fjórðunga og hefur það stutt við vöxt útflutningstekna sjávarútvegarins. Þannig má nefna að verðvísitala sjávarafurða, sem Hagstofan birtir mánaðarlega, hefur hækkað um tæpan fimmtung í krónum talið frá ársbyrjun 2022. Sé vísitalan staðvirt með gengisvísitölu krónu til að nálgast verðþróun í erlendri mynt á heimsmarkaði reiknast okkur til að á þann kvarða hafi verð á íslenskum sjávarafurðum hækkað um 16%.

Verður metárið í fyrra jafnað í ár?

Þessi hagfellda verðþróun, ásamt myndarlegri loðnuvertíð, átti stóran þátt í því að útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 18% í krónum talið á síðasta ári frá árinu á undan þrátt fyrir samdrátt á útflutningi þorsks og annarra botnfisktegunda í tonnum talið. Alls voru tekjurnar nærri 350 ma.kr. og hafa aldrei verið meiri í krónum talið. Nýlega var fjallað um þessa þróun á Radarnum, frétta- og upplýsingavef SFS. Þar kom einnig fram að vægi fiskimjöls og lýsis í heildar útflutningstekjum af fiskafurðum hefði verið tæpur fimmtungur og hefði hlutfallið ekki verið hærra frá árinu 1978. Þær afurðir eru einmitt að stórum hluta unnar úr loðnu.

Aukinn loðnukvóti hefur allnokkur áhrif á efnahagshorfur á þessu ári þótt vissulega sé ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í febrúarbyrjun gerðum við ráð fyrir að útflutningur sjávarafurða myndi skreppa saman um ríflega 3% í ár frá síðasta ári í magni mælt. Nú telst okkur til að sá samdráttur verði u.þ.b. helmingi minni, eða í kring um 1,5%. Hagfelld verðþróun gæti svo leitt til þess að atvinnugreinin skapi álíka miklar, eða jafnvel enn meiri, útflutningstekjur en raunin var í fyrra.

Ef marka má forvígisfólk í sjávarútvegi gæti sú aukna loðnusókn sem þegar er búið að heimila frá ársbyrjun og  gæti verið í kortunum á næstu vikum samanlagt aukið tekjur af loðnuútflutningi um u.þ.b. 15 ma.kr. frá því sem útlit var fyrir um áramótin. Gæti sá tekjuvöxtur orðið enn meiri ef auknar heimildir á komandi vikum verða umfram þau 100 þúsund sem nefnd eru hér að ofan. Brúttó aukning útflutningstekna gæti því numið allt að 0,4 – 0,5% af VLF ársins gangi þetta eftir. Að teknu tilliti til innfluttra aðfanga sýnist okkur í fljótu bragði að viðskiptahalli gæti reynst 0,2 - 0,3% minni sem hlutfall af VLF fyrir vikið. Í ljósi þess að við spáðum viðskiptahalla upp á 1,4% af VLF á yfirstandandi ári í þjóðhagsspánni í febrúarbyrjun er þessi búbót æði kærkomin.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband