Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Tímarnir breytast og mennirnir með

Seðlar og mynt hafa verið notaðir í viðskiptum frá örófi alda en síðustu árin hefur notkun reiðufjár minnkað til muna samhliða aukinni notkun debet- og kreditkorta og síðar með notkun netbanka og smáforrita.


Með tilkomu laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 eru þær skyldur lagðar á herðar fjármálastofnana og fleiri að þekkja og kanna uppruna fjármuna.  Markmiðið með lögunum er að koma í veg fyrir að illa fengið fé sé þvættað í gegnum fjármálastofnanir og þannig reynt að slíta tengsl fjármunanna við það frumbrot sem leiddi til ágóðans. Peningaþvætti er ein stærsta brotastarfsemi heims og því er mikils virði að allir leggist á eitt til að stemma stigu við henni.

Bönkum ber því ekki einungis að þekkja viðskiptavini sína heldur er þeim einnig skylt að kanna uppruna þeirra fjármuna sem þeir koma með inn í bankann, þar með talið seðlainnlagnir.  Þessar skyldur geta oft og tíðum verið nokkuð íþyngjandi, bæði fyrir viðskiptavini sem og almenning.

Til þess að uppfylla þessar lagakröfur hefur Íslandsbanki ákveðið að taka einungis við seðlainnlögnum frá virkum viðskiptavinum bankans sem hafa gilda áreiðanleikakönnun og skila fullnægjandi skjölum, sé þess óskað. Við ákveðnar aðstæður, t.d. þegar lagðar eru inn háar fjárhæðir í seðlum, getur viðskiptavinur einnig þurft að sýna fram á uppruna fjármunanna með því að framvísa skjölum til bankans. Dæmi um slík gögn geta verið sjóðsuppgjör, kaupsamningar eða aðrar kvittanir. Geti viðskiptavinur ekki framvísað fullnægjandi gögnum og þannig sýnt fram á uppruna fjármunanna nær bankinn ekki að uppfylla þær lagaskyldur sem hvíla á honum um að þekkja uppruna fjármuna og má því ekki taka við seðlainnlögninni.

Það er því ljóst að í nútímasamfélagi má telja einfaldara að nýta tæknina þótt við vitum að reiðufé sé enn notað á löglegan hátt í viðskiptum og verði það svo lengi sem seðlar verða áfram í umferð. Við skorum því á viðskiptavini okkar að nýta þær stafrænu leiðir sem í boði eru í viðskiptum. Ekki einungis er það þægilegra heldur sýnir það samfélagslega ábyrgð að tryggja rekjanleika fjármuna og kemur í veg fyrir að þú verðir óafvitandi þáttakandi í því að koma illa fengnu fé í umferð.

Munum að við erum öll ábyrg.

Höfundur


Lilja Pálsdóttir

Útibússtjóri Íslandsbanka í Norðurturni