Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Tímabundið bakslag í verðbólguhjöðnun – verðbólga eykst í 9,6%

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,7% í desember líkt og við væntum. Ársverðbólga eykst úr 9,3% í 9,6%. Um tímabundið bakslag í verðbólguhjöðnun er að ræða þar sem mikil hækkun á flugverði mun ganga til baka á næstu mánuðum og betra jafnvægi virðist vera að komast á íbúðamarkað


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,7% í desember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 9,3% í 9,6%.  Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 7,5% undanfarna 12 mánuði. Mæling desembermánaðar er í takti við spár greiningaraðila. Spár voru á bilinu 0,5-0,8% og spáðum við 0,7% hækkun VNV á milli mánaða.

Hækkun á flugfargjöldum helsta ástæða aukinnar verðbólgu í desember

Liðurinn ferðir og flutningar hafði mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Liðurinn hækkaði um 2,1% (0,32% áhrif á VNV) þar sem vegast á lækkun á eldsneytisverði annars vegar og hækkun á flugfargjöldum hins vegar. Eldsneytisverð lækkaði um 1,8% (-0,07% áhrif á VNV) á milli mánaða í desember. Aftur á móti hækkuðu flugfargjöld um 19% (0,36% áhrif á VNV) á milli mánaða sem kemur ekki á óvart. Um árstíðarbundna hækkun er að ræða og því má búast við lækkun á flugfargjöldum næstu mánuði.

Aðrir helstu liðir sem hækkuðu í desember á milli mánaða var matar- og drykkjarvörur sem hækkuðu um 0,6% (0,10% áhrif á VNV), húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkaði um 1,4% (0,09% áhrif á VNV) ásamt annarri vöru og þjónustu sem hækkaði um 0,75% (0,05% áhrif á VNV) og var sú hækkun að mestu vegna verðhækkana á snyrtingu og snyrtivörum.

Rólegri íbúðamarkaður

Í mælingu Hagstofu hækkaði reiknaða húsaleigan um 0,4% (0,08% áhrif á VNV). Reiknaða húsaleigan byggir annars vegar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og hins vegar á vaxtaþætti. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkaði um 0,04% í desember á milli mánaða en vaxtaþátturinn hækkaði um 0,45% á sama tíma. Vísitala íbúðaverðs frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem mælir íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu birtist fyrr í vikunni og lækkaði um 0,3% nóvember.

Íbúðir á landsbyggðinni hækkuðu í verði um 0,6% á milli mánaða á meðan íbúðir á höfuðborgarsvæðinu lækkuðu í verði. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkuðu um 0,1% og sérbýli um 0,6%. Dregið hefur talsvert úr árs hækkunartakti markaðsverðs íbúðarhúsnæðis frá því að hann mældist hvað mestur í júlí og ágúst. Árstaktur mælist nú 20,3% þar sem húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað hraðast á tímabilinu eða um 21,5%. Þar á eftir koma sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (20,3%) og lestina reka fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (19,8%) á sama tímabili.

Við fjölluðum nánar um íbúðamarkaðinn í gær og þar sem talsverð fylgni er á milli visitölu íbúðaverðs og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis koma þessar tölur í morgun okkur lítið á óvart. Ljóst er að íbúðamarkaður hefur róast talsvert og útlit fyrir rólegri markað á næstu misserum. Aftur á móti er útlit fyrir að vaxtaþátturinn muni áfram ýta upp reiknuðu húsaleigunni á komandi mánuðum.

Hjaðnandi verðbólga í kortunum á næstunni

Nýjustu tölur eru í takti við spá okkar og horfur fyrir næstu mánuði óbreyttar. Þrátt fyrir aukningu í árstakti verðbólgunnar í desember erum við mjög bjartsýn á að verðbólga hjaðni nokkuð hratt á næstu mánuðum. Útlit er fyrir að íbúðamarkaðurinn sé orðinn mun rólegri en undanfarna fjórðunga auk þess sem árstíðarbundin hækkun flugfargjalda mun að öllum líkindum ganga tilbaka næstu mánuði. Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,3% lækkun VNV í janúar þar sem vegast á útsöluáhrif annars vegar og áramótahækkun á opinberum gjöldum og verði á ýmiss konar þjónustu hins vegar. Í febrúar spáum við 0,5% hækkun og 0,3% hækkun VNV í mars. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,3% í mars.

Langtímaspá okkar hljóðar upp á 6,3% verðbólgu að jafnaði árið 2023 og 3,9% verðbólgu árið 2024. Eins og áður er óvissan talsverð og þó það verði að teljast ansi líklegt að verðbólga muni hjaðna hratt á nýju ári er ýmislegt sem þarf að ganga upp. Það helsta er að íbúðamarkaðurinn þarf að halda áfram á sömu braut og vera rólegur. Krónan þarf að vera stöðugri en hún hefur verið, þá einna helst til að halda aftur af hækkun á innflutningsverðlagi. Annar stór óvissuþáttur eru þeir kjarasamningar sem á eftir að ljúka en staðan þar skýrist vonandi á næstu vikum. Þeir kjarasamningar sem þegar hafa verið samþykktir eru í stórum dráttum í takti við spá okkar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband